Hvað veit maður ekki?

Hún virti mig fyrir sér og spurði hvort ég væri ekki vinkona Stebba. Ég þekki engan Stebba og sagði henni það.
-Nú, varst það ekki þú sem komst einnu sinni með honum á fund hjá Sóló? sagði hún og ég kveikti auðvitað um leið.

Ég var eins og asni. Stefán tilheyrir mínum næstinnsta (og afskaplega fámenna) vinahring, þeim sem kemur næst á eftir fjölskyldunni en ég hafði ekki hugmynd um að hann væri kallaður Stebbi. Það sem meira er, það hefur aldrei hvarflað að mér. Væri samt rökrétt er það ekki? Eru ekki flestir Stefánar kallaðir Stebbar? Kannski er ekki aveg í lagi með mig.

Kannski er þetta alltaf svona. Kannski eru einhver grundvallaratriði sem maður veit ekki og hefur aldrei leitt hugann að. Og svo er spurning hvort slík grundvallaratriði skipta einhverju máli. Allavega finnst mér ótrúlegt að við Stefán værum neitt meiri vinir þótt ég kallaði hann Stebba.

 

Feminismus

Pilturinn bauðst til að bera pokana fyrir mig og ég þáði það. Lét þakklæti mitt í ljós og hafði á orði að fáir íslenskir karlmenn skildu gildi þess að sýna herramennsku.
-Ég skil það heldur ekkert, sagði pilturinn, ég geri þetta bara af því að ég skora svo mörg stig með því og það væri heimskulegt að nýta sér það ekki.
Halda áfram að lesa

Og hér kemur enn ein vísan …

-Hvernig líst þér á auglýsinguna? spurði auglýsingasalinn.
-Hún er bara mjög fín, svaraði ég.
-Gott að heyra en hvernig líkuðu þér vísurnar sem ég sendi þér?

Ég þagði smá stund og reyndi að hugsa upp viðeigandi svar.
-Þú ert nú betri sölumaður en skáld, sagði ég að lokum.

Upphóf hann þá mikinn kvæðalestur í því skyni að afsanna þá kenningu mína.

Ekkert persónulegt

Það er ekki óalgengt að fjarskyldir ættingjar og gamlir kunningjar reki nefið inn í Nornabúðina, rétt svona til að kasta á mig kveðju eða forvitnast. Eitthvað í fari hans sannfærði mig þó um að hann ætti brýnna erindi. Hann þáði kaffi, spurði út í vörunar af uppgerðaráhuga og trommaði fingrunum á borðið. Sagðist svo hafa rekist á vefsíðuna af tilviljun. Halda áfram að lesa

Eilífðarblóm

-Hef ég nokkurntíma vakið verndarþrá í brjósti þínu? spurði ég.
-Nei Eva, sagði hann. Ungbörn vekja manni verndarþrá og týndir kettlingar. Kannski sjúklingar. Ekki þú.
-Og litlar konur líka. Það er allavega kenning. Litlar konur vekja verndarþrána í brjósti karlmannsins. Eitthvað svona frá tímum hellisbúanna.
-Nope, ekki þú. Ég get ekki ímyndað mér að nokkrum karlmanni hafi nokkurntíma dottið í hug að þú værir ekki fullfær um að passa þig sjálf. Hvað ertu annars að hugsa? Ef ég þekki þig rétt þætti þér ekkert lítið pirrandi ef einhver héldi að þig vantaði verndara.
-Auðvitað vantar mig ekki verndara. Ég er bara að pæla í því hvort vanti í mig eitthvert mikilvægt, kvenlegt element.

Einu sinni fyrir mörgum árum hitti ég fræðimann á fylliríi. Hann var á blús og eitt af því sem honum þótti sorglegt var að hafa aldrei fengið blóm fyrir kennslu- eða fræðimannsstörf sín. Ég sagði honum hálfundrandi að það hefði aldrei hvarflað að mér að hann hefði gaman af blómum.
-Ég hef heldur ekkert gaman af blómum, sagði hann. En ég hefði gaman af því að vita að einhverjum þætti ég eiga skilið að fá blóm.