Ekkert persónulegt

Það er ekki óalgengt að fjarskyldir ættingjar og gamlir kunningjar reki nefið inn í Nornabúðina, rétt svona til að kasta á mig kveðju eða forvitnast. Eitthvað í fari hans sannfærði mig þó um að hann ætti brýnna erindi. Hann þáði kaffi, spurði út í vörunar af uppgerðaráhuga og trommaði fingrunum á borðið. Sagðist svo hafa rekist á vefsíðuna af tilviljun.

Ég fór að skoða það sem þú varst að skrifa um það leyti sem við vorum að hittast. Það er kannski ekkert skrýtið þótt þú hafir hætt að svara símanum. Málið er bara… Þú veist… Ég var náttúrulega í rúst og rusli og frekar upptekinn af sjálfum mér á þessum tíma. Ég hefði átt að sýna þér meiri áhuga. Ég hefði allavega átt að keyra þig heim …
-Já finnst þér það virkilega? sagði ég í véfréttartón og horfði rannsakandi á hann.
Þú hefðir átt að segja mér hvað gekk á í lífi þínu.
-Og hverju hefði það svosem breytt?
Ég hefði þá kannski getað verið þér einhver stuðningur. Allavega komið betur fram við þig, þú skilur hvað ég á við. Ég les ekki hugsanir.
-Já vinur, ég skil hvað þú átt við, sagði ég af allri þeirri sykursætu sem mín tryntna rödd hefur yfir að ráða og brosti elskulega. Þú átt við að þú þurfir alveg sérstaka ástæðu til að sýna mér lágmarks virðingu. En þú þarft ekki að hafa neitt samviskubit, ég tók því aldrei persónulega. Ég sé í gegnum þína líka á löngu færi og þessvegna hafði ég vit á að halda öllu tilfinningakjaftæði utan við þetta.
Mína líka? Hvað áttu við? spurði hann með nokkurri þykkju.
-Ég á við að fólk sem sér ekki ástæðu til að vera næs við félaga sína nema þegar þeir eiga eitthvað bágt, er líklegt til að hlaupast undan merkjum um leið og reynir eitthvað á það. Þessvegna á maður aldrei að líta á hjásvæfu sem vin.
(Ég lagði mig fram um að vera hlýleg og er ekki frá því að mér hafi tekist vel upp.)

Djís maður! Djöfull ertu bitur! Það hvarflar náttúrulega ekkert að þér að ég hefði kannski bara alveg haft áhuga á því sem þú hafðir að segja?
-Nei gæskur. Ef þú hefðir haft einhvern persónulegan áhuga á mér hefðirðu í það minnsta spurt um eitthvað annað en bara hvað ég fílaði í bælinu. Þú gefðir jafnvel flett mér upp á google en ekki rekist á síðuna af tilviljun mörgum mánuðum síðar. En þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þú hafir farið illa með mig. Áhugaleysið var gagnkvæmt. Skírlífi hentar mér ekki og þú ert sætur, það er góð lykt af þér og þú ert hvorki fálmari né ruddi í rúminu. Mér fannst bara helvíti gott að vera með þér. Mér var hinsvegar skítsama um íþróttaafrek þín og vinnustaðardramið og ég hef alltaf samúð með þeim sem slasast, veikjast eða verða fyrir sorg, svo það var ekkert persónulegt þótt ég væri góð við þig. Munurinn á mér og þér er bara sá að ég kann mig. Já, ætli ég hefði ekki allavega keyrt þig heim, svona fyrir kurteisisakir. Og ef þú ert að reyna að gera lítið úr mér fyrir það að horfast í augu við staðreyndir og kalla hlutina sínum réttu nöfnum, þá gjörðu svo vel. Ég veit að flestar konur hrökkva undan orðinu „bitur“ eins og það væri svipuhögg en það virkar ekki á mig.

Ég hefði viljað segja margt meira. Og ég hefði orðað það vel. En ég fann að ég var á hraðleið með að tapa kúlinu og af því að það er ekki virðulegt að vera bitur ákvað ég að hætta áður en blíðan hyrfi úr rödd minni og brosið úr augum.

Þér finnst ég vera fáviti er það ekki?
-Ertu að biðja mig að snúa hnífnum í sárinu?
Þá stóð hann upp, þakkaði þurrlega fyrir kaffið og stikaði til dyra.

-Þú kemst ekki út nema ég opni fyrir þér með lykli, sagði ég kæruleysislega.
Þú vildir þá kannski vera svo væn? sagði hann kuldalega.
-Jamm. Þegar þú ert búinn að svara einni spurningu.
Hann beit saman tönnum, stóð stífur með aðra hönd á handfanginu og horfði út í loftið.
-Þú svafst hjá mér tvisvar sinnum. Tvisvar og ég gisti ekki. Þú fórst heldur ekki fram á það. Það skipti þig engu máli hver ég var eða hvað ég hugsaði. Þú spurðir ekki um ætt mína og uppeldi, áhuga eða atvinnu, afstöðu til nokkurs sem skipti máli, hvað þá hvernig mér leið. Hvers vegna í fjandanum ættirðu þá að hafa áhuga á MÍNU áliti á því hvort eða hversu mikill fáviti þú sért? Af hverju spyrðu ekki einhvern sem þekkir þig? Einhvern sem skiptir þig máli?

Kuldinn í rödd hans var kominn undir frostmark.
Ég biðst afsökunar á þessari innrás og á því að vera eins og ég er. Viltu nú hleypa mér héðan út, þú hlýtur að vera búin að fá nóga útrás.
-Takk fyrir komuna. Það er reyndar eitt í viðbót sem ég ætla að segja þér; hvort sem þér finnst þú vera fáviti eða ekki, þá hefurðu rétt fyrir þér. Og ef maður vill ekki vera fáviti þá er einfaldast að hætta að hegða sér eins og fáviti.

Hann stóð í opnum dyrum Nornabúðarinnar. Lagði höndina snöggvast á öxlina á mér og leit framan í mig.
Ég ætla að svara þessari spurningu Eva, af því að þú skrifar svo mikið um fávita og samskipti og einsemd mannsins í heiminum að ég held að þú hljótir að skilja hvað ég á við, sagði hann og kuldabolinn var vikinn úr röddinni. Ástæðan fyrir því að ég spyr þig hvort ég sé fáviti, er einfaldlega sú að ég hef engan annan til að spyrja. Þú þarft ekki að taka því neitt persónulega.

 

One thought on “Ekkert persónulegt

 1. ——————————————–

  Ég held ég leggi ekki í þessa búð. Ertu með póstkröfuþjónustu ?
  Karlmaður sem á erindi í búðina er karlmaður með sögu ..

  Posted by: Hugz | 20.09.2007 | 1:15:04

  ——————————————–

  Ég ætla að koma í heimsókn til þín í kringum mánaðarmótin okt/nóv.

  Posted by: Kristín | 20.09.2007 | 5:38:03

  ——————————————–

  Allt verður mér að sögum Hugz og ef engin saga er til staðar þá bara bý ég hana til. Góð saga er ekki verri þótt hún sé login.

  Ertu viss um að þú viljir ekki sjá hvort mér finnst þú nógu áhugaverður til að spinna einhverja vitleysu í kringum þig? Því varla býrðu yfir einhverjum sannleika sem þú þarft að óttast. Eða hvað?

  Posted by: Eva | 20.09.2007 | 11:37:01

  ——————————————–

  Ég hlakka til að sjá þig Kristín.

  Posted by: Eva | 20.09.2007 | 11:38:10

  ——————————————–

  Annars finnst mér ágætt að heyra að einhver sé hræddur við mig. Þeir sem koma fyrir í sögunum mínum eru það nefnilega ekki. Það gæti þó verið falskt öryggi… muhoohaa!

  Posted by: Eva | 20.09.2007 | 11:50:04

Lokað er á athugasemdir.