Bölbæn dagsins

Ég vil þakka sætu stelpunni hjá Vísa, sem bjargaði hinum innkomumikla laugardegi með því að lána mér kort í posann og veita mér sálgæslu í geðbólgu minni gagnvart því eymdarinnar fyrirtæki Símanum sem hefur nú náð nýjum hæðum í slæmri þjónustu.

Þar sem Síminn, sá fisktottandi þrívíddarvesalingur, ætlar að taka 10 daga í það að komast að því hvers vegna simkortið í posanum hegðar sér eins og kýr á hraðbraut, þarf ég að nota mitt eigið gemsakort á meðan (nei það er ekki hægt að nota hvaða kort sem er.) Ég verð því gemsalaus milli 11 og 19 á næstunni. Það er í sjálfu sér engin þjóðarsorg, ég er þekkt fyrir að vera leiðinleg í síma. Ég er hinsvegar líka þekkt fyrir að svíða í nískupúkann ef ég neyðist til að borga fyrir einskæran aulagang (ég tala nú ekki um ef það er aulagangur fyrirtækis sem ég greiði háar fjárhæðir fyrir að þjónusta mig) og ég á örugglega eftir að froðufella yfir því að þurfa að hringja í gsm númer úr búðarsímanum.

Megi forsvarsmenn þessa sjálfumglaða einokunarbákns fá stöðumælasektir og klasafrunsur. Megi konurnar þeirra nöldra í þeim, kettirnir þeirra míga innandyra og klósettin þeirra stíflast.