Grafið

-Ég þarf að tala við þig, sagði hann og þótt ég vissi ekki nákvæmlega hvað hann ætlaði að segja, vissi ég samt hvað það þýddi fyrir mig. Reyndi að kyngja kekkinum með allt of sterku kaffi en það mistókst og tárin brutust fram áður en hann kom næstu setningu að.
-Ég verð bráðum pabbi.

-Og veistu hver mamman er? sagði ég en það er erfitt að vera hnyttin með tár og hor rennandi í stríðum straumum niður andlitið.
-Það var ekki beinlínis planað en -ég meina -staðan er semsagt svona.
-Æ vertu ekki með þetta rugl. Þú hefðir komið í veg fyrir það ef þú hefðir ekki þráð það.
-Við getum samt alveg hist. Bara kannski ekki jafn oft og áður,
sagði hann og klappaði mér á höndina eilítið örvæntingarfullur á svipinn.
-Bara ekki jafn oft og hvað? Tvisvar í mánuði? Þrisvar kannski?
-Við hittumst oftar en það. Ég er ekkert að hafna þér eða neitt.
-Nei elskan. Ég veit. Þú elskar mig alveg helling og allt það. Bara ekki nógu mikið til að ég fái nokkurntíma pláss á forgangslistanum.
-Þú ERT á forgangslistanum manneskja! Þú hefur alltaf verið á forgangslistanum.
-Kannski í fimmtánda sæti já. Og barn er númer eitt, tvö og tíu og þannig á það að vera. Ég vona í alvöru að þetta verði æðislegt barn og að þú verðir mjög hamingjusamur en fyrir mig þýðir þetta að hér með er ég númer tuttugu og fimm en ekki fimmtán og þú getur ekkert búist við að ég sé kát yfir því.

Þetta breytir ekki svo miklu Eva…
Jú elskan. Þetta breytir nákvæmlega öllu. Þetta merkir að tíkaróbermið þitt hættir að riðla úti um allan bæ, hún hættir m.a.s. að drekka því gagnvart barni verður hún ábyrg þótt hún sé tík. Hún verður heima á laugardagskvöldum. Sem merkir að þú verður líka heima á laugardagskvöldum og hefur enga afsökun fyrir að hlaupa upp í fangið á mér, jafnvel þótt þú saknir mín.
-Við getum stundum hist samt. Í hádeginu.
-Nei elskan, við getum það ekki og þú veist það. Þú ert að vona að þetta samband fjari rólega út og þegar það hentar þér, kannski eftir nokkur ár, getirðu komið til mín aftur. En þú þekkir mig sæmilega og þú veist hvernig ég tekst á við missi.

-Þú ætlar semsagt að refsa mér? Frysta mig?
-Ég ætla ekkert að refsa þér. Ekki frekar en þú ert að hafna mér. En ég ætla heldur ekki að kvelja sjálfa mig og sú leið sem hefur gagnast mér hingað til er einfaldlega sú að jarða þá sem yfirgefa mig. Mér þykir það leitt.
-Mér þykir það líka leitt en ég virði það.
-Það er reyndar hentugt fyrir þig að ég skuli bregðast svona við. Dálítið sárt kannski í augnablikinu en einfaldar líf þitt verulega.
-Þú ert ósanngjörn elskan. Fólk þarf að eignast börn. Þú hefur oft sagt það sjálf.
-Já og fínt fyrir þig. Ég vona að það verði þess virði þegar þið skiljið og hún tekur barnið frá þér, því það mun hún gera, sannaðu til. Og jájá, ég veit að ég er ósanngjörn. Það er heldur engin sérstök sanngirni fólgin í því að allir sem ég tek ástfóstri við skuli í skársta falli líta á mig sem varaskeifu. Lífið er ósanngjarnt Ljúflingur og þú ert í fullum rétti en ég er samt sár.
-Mér þykir það leitt.

Ég sneri baki við honum en hann sat áfram hjá mér. Lengi. Strauk axlir mínar. Faðmaði mig.
-Ég vil ekki að þér líði svona, sagði hann.
-Takk en þú getur bara ekkert gert í því í þetta sinn hjartað mitt, sagði ég. Sumt verður maður að takast á við sjálfur.

Svo óskaði ég honum til hamingju af eins mikilli einlægni og ég réði við en sneri mér samt til veggjar á meðan hann gekk út. Og þegar ég heyrði útidyrnar lokast á eftir honum stóð ég upp og eyddi símanúmerinu hans úr gemsanum mínum og netfanginu úr netfangaskránni. Síðan tók ég tannburstann hans og þessa einu mynd sem ég átti af honum, og gróf hvorttveggja. Utan garðs.
Málið er dautt. Og grafið. Hugsa ég til þín? Ég vildi að ég gæti sagt nei en auðvitað hlýt ég að gera það fyrst ég er enn að skrifa vefbókarfærslur um löngu liðna atburði. Ef þeir eru þá svo löngu liðnir, tíminn er afstæður er mér sagt.

Sakna ég þín? Ekki á þann hátt að mig langi að hitta þig. Úr því sem komið er vil ég sem minnst af þér vita. En ég sakna í aðra röndina þess sem var, býst ég við. Þess sem hefði getað orðið ef gult væri blátt væri rautt. En í morgun hitti ég gamlan vin sem spurði hvort nokkuð væri að frétta af þér og ég gat með góðri samvisku sagt:
-Ég bara veit það ekki. Ég hef ekki séð hann svo rosalega lengi.

 

One thought on “Grafið

Lokað er á athugasemdir.