Fyrir ca ári flutti ég Nornabúðina að mestu leyti frá Símanum og yfir til OgVodafone. Það voru góð umskipti og gæfurík. Ég ætlaði mér að flytja heimasímann og allt draslið þangað líka en þegar ég losnaði undan samningnum við Satan, komst ég að því að OgVodafone býður ekki upp á þann möguleika að vera með sjónvarpið tengt í gegnum netið. Það var endalaust dram að fá almennilega mynd á sjónvarpið meðan við bjuggum í Hafnarfirði, fyrir utan það að mér fannst plúsinn mjög þægilegur kostur svo það varð ekkert af því að ég skipti um fyrirtæki. Það voru mistök.
Í gær komst ég að því mér til mikils léttis að nú er víst hægt að fá posaþjónustu hjá OgVodafone. Frá og með mánudeginum mun mitt fyrirtæki því alfarið og endanlega segja skilið við Satan og hans þjónustuver. Posaruglið hefði út af fyrir sig alveg dugað mér til að endurskoða þá ákvörðun að vera með heimilið hjá Símanum áfram en í gærkvöld tóks þessu endemis fyrirtæki að bæta einu korni enn á kúfinn ofan á mælinum.
Svo bar til um þessar mundir að örverpið (sem telst nú reyndar lögformlega myndugt) bað mig að koma heim með tölvuna af því hann þyrfti að skoða eitthvað á netinu. Sem ég og gerði. Nema hvað; okkur tókst ekki að tengjast netinu. Ég hringdi í þjónustuver Satans og var númer 7 í röðinni (sem er reyndar góð tilbreyting frá 35.) Samskipti mín við þjóna Satans voru á þessa leið:
Símastrákur: Neeei, þú ert ekki með neina ADSL tengingu.
Eva: Jú, það hlýtiur að vera. Ég var með alla þjónustu hjá ykkur þegar ég bjó í Hafnarfirði, því miður, og þegar ég flutti var þjónustan færð á nýja heimilið. Ég hef ekki þurft að nota netið fyrr og hef reyndar ekkert sett ráterinn í samband en síminn virkar alveg og ég sé ekki betur en að ég hafi greitt fyrir allt draslið.
Símastrákur: Ég sé að síminn hefur verið fluttur í byrjun ágúst en ekki ADSL-ið.
Símastrákur gefur Evu samband við símastelpu og Eva þylur söguna.
Símastelpa: Jújú, þú ert með ADSL hjá okkur.
Eva: Drottinn minn dýri, það er ekki fyrir óbrjálað fólk að eiga samskipti við ykkur. Þú segir að ég sé með tengingu hjá ykkur en tæknimaðurinn fullyrðir að svo sé ekki. Hvernig á ég að vita hvort ykkar hefur rétt fyrir sér?
Símastelpa setur málið í nefnd.
Um síðir kemur í ljós að enda þótt ég hafi beðið um flutning á allri þjónustu og sérstaklega hamrað á því orðalagi, var aðeins síminn fluttur en ekki önnur þjónusta.
Ég held ég þurfi ekkert að hugsa mig um lengur. Síðasta árið hefur það sataníska fyrirtæki Síminn verið helsti ruglvaldur tilveru minnar. (Já, ég lifi afskaplega þægilegu lífi enda búin að losa mig við alla alkóhólista og aðra kvíðahnútsmyndandi fávita.) Sjónvarpið næst ágætlega í Mávahlíðinni og þótt ég dauðsjái eftir plúsnum held ég svei mér þá að það sé lítil fórn fyrir ruglfrítt líf.
Þú átt alla mína samúð – framundan er líklega nokkurra mánaða vinna við að endurheimta þessa aura þína, þeas ef þjónusta satans sé eitthvað í líkingu við þjónustu 666 (365). Búðu þig vel undir þetta. Með baráttukveðju.
Posted by: Helgavalan | 15.09.2007 | 11:26:17