Vitjun

Svolítið framandlegt að vera hér aftur. Eftir öll þessi ár. Leggja bílnum í stæðið við hliðina á stæðinu sem eitt sinn var stæðið mitt. Það er búið að skipta um útidyrahurð og gólfteppi en gömlu hjónin með púddelhundinn sem dó búa enn á 2. hæð og einstæða móðirin (sem ég frétti seinna í kvöld að sé ekki lengur einstæð) á þeirri 3.ju.

Ganga upp stigann og snerta vegginn sem ég hallaði mér upp að á meðan ég kyssti svo sætan og skemmtilegan mann hálftíma áður en ég lokaði augunum og lifði það af, árið sem Keli var í Albaníu. Áfram upp á 4. hæð, næstum eins og heimsækja sjálfan sig nema ég fer ekki alla leið að mínum dyrum. Halda áfram að lesa

Bjarnargreiði

Fyrir um 13 árum eignaðist ég vinkonu sem mér þykir ennþá vænt um þótt við höfum sáralítið samband haft síðustu árin. Á þeim tíma vorum við hinsvegar heilmikið saman. Hún var nógu lítil til að ég gæti notað fötin hennar en of stór til að hún gæti notað fötin mín. Halda áfram að lesa

Belgíska Kongó

Við Pysjan fórum að sjá Belgíska Kongó í kvöld. Drottinn minn dýri hvað ég skemmti mér vel. Átti von á góðu en þetta var alveg óborganlegt. Ætlaði reyndar að eyða laugardagskvöldinu með stráknum en Sigrún bað mig að vinna með sér á laugardagskvöldið svo ég samdi við hann um að við færum frekar í leikhús í kvöld og að þeir Snorri gætu þá verið saman á laugardagskvöldið. Hann var hæstánægður með það og ég verð að segja að ég er fegin því annars hefði ég líklega misst af þessu frábæra stykki. Bara ein sýning eftir og ég hvet alla til að fara á lokasýninguna.

Heldurðu að ég viti ekki hvað ég er að gera?

Pysjan er kominn með leyfi til æfingaaksturs. Finn hvernig ég breytist í teiknimyndafígúru um leið og hann rykkir af stað. Finnst eins og hárið á mér sé vírbursti, augun glennast ósjálfrátt upp og ég yrði ekki hissa þótt kæmi í ljós að þau séu fest í tóttirnar með gormum, munnurinn hrepist saman og ég hreinlega ræð ekki við röddina, æpi upp þvert gegn ásetningi mínum þegar hann, svellkaldur, lætur sig vaða inn í hringtorg þvert fyrir ljósgráan Pajero, hreinan og með virðuleg jakkaföt við stýrið. Ég hef ekki orðið svona hrædd síðan ég sat í bíl með Borghildi systur minni síðast. Halda áfram að lesa

Sjálfum sér til verndar

-Til hvers að sofa hjá einhverjum án þess að meina neitt með því þegar er svona miklu skemmtilegra að hafa tilfinningar með í spilinu? spurði hún og þar sem mér er málið skylt hlýt ég að svara.

-Vegna þess ljúfan mín dúfan að þegar upp er staðið fer það ekki eins hryllilega illa með þig. Halda áfram að lesa

Bréf frá ömmu

Jæja skrattakollur

Þá er amma nú búin að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að þú fáir enduruppeldi, ekki veitir af. Ég geri mér að vísu ekki vonir um að þú verðir húsum hæfur alveg á næstunni en ef við náum þeim árangri að þú opnir glugga til að lofta út þegar þú ert búinn að kúka svona mikið í buxurnar þínar, þá er stórum áfanga náð.

Þetta verður semsé þannig að næst þegar þú skítur yfir annað fólk, ætlar góða konan að koma og láta þig þrífa bjakkið. Það verður ekkert sérlega skemmtilegt svo þú ættir kannski að æfa þig svolítið í almennri kurteisi. Annars gætirðu þurft að moka út heilum fjóshaug eftir nokkrar vikur og góða konan getur orðið voða ströng. Þú gætir líka unnið þér inn stig með því að senda síðasta fórnarlambi skriflega fyrirgefningarbeiðni.

Við skulum svo bara vona að þér gangi vel að læra þína lexíu því annars verður amma að sækja vöndinn. Og því get ég lofað að þá verður skrattanum ekki skemmt.