Bjarnargreiði

Fyrir um 13 árum eignaðist ég vinkonu sem mér þykir ennþá vænt um þótt við höfum sáralítið samband haft síðustu árin. Á þeim tíma vorum við hinsvegar heilmikið saman. Hún var nógu lítil til að ég gæti notað fötin hennar en of stór til að hún gæti notað fötin mín.Það er svo langt síðan ég hef séð hana að ég veit ekki hvort hún hefur stækkað eða minnkað. Hún átti helling af fötum og þegar hún varð leið á þeim gaf hún mér þau og keypti sér ný. Þá urðum við báðar glaðar. Stundum sendi hún mig heim með fullan poka af notuðum fötum sem ég var ekki búin að máta og bað mig að henda bara því sem ég vildi ekki í Rauða krossinn.

Einhverju sinni launaði ég henni svo fatagjafirnar með því að færa henni Dusilmenni nokkurt sem ég var hætt að nota. Að vísu var heilmikið eftir í því ennþá en ég var þá, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, orðin spenntari fyrir öðrum amlóða. Vinkona mín þáði Dusilmennið með þökkum. Seinna dróst ég inn í mikið dramakast þeirra á milli en það dram átti upphaf sitt í því að þau eignuðust saman brauðrist eina góða.

Nokkru eftir brauðristaráfallið ásakaði vinkonan mig um að hafa troðið Dusilmenninu upp á sig. Ekki gekkst ég nú reyndar við því, enda hvarflaði aldrei annað að mér en að hún færi með það í Stúdentakjallarann og fleygði því í einhverja örvæntingarfulla einstæða móður (sem eins og allir vita hafa það markmið æðst í lífinu að leggja snörur sínar fyrir sem flesta gipta menn) þegar hún væri hætt að nota það. Það hafði víst eitthvað klikkað hjá henni og þar sem hún hafði ekkert pláss fyrir manngarminn í geymslunni og þeir hjá SORPU neituðu að taka við honum (þetta var á fyrstu dögum SORPU, ég held að þeir standi sig betur í dag)var hann ennþá í bóli hennar -af mínum völdum að sjálfsögðu.

Ég benti vinkonu minni á hið rökrétta í stöðunni -að fara með manninn í Stúdentakjallarann og skilja hann þar eftir en þá fór hún að gráta þessi ósköp og vildi í rauninni alls ekkert losa sig við hann. Vildi bara að hann væri öðruvísi.

Þar sem ég var ekki búin að uppgötva galdrabloggið þegar þetta samtal átti sér stað, gat ég ekki breytt dusilmenninu fyrir vinkonu mína (enda hefði ég þá breytt því fyrir sjálfa mig því þótt það væri alveg jafn samskiptafatlað og meðalkarlmennið var það var bæði fallegt og skemmtilegt). Það eina sem ég gat gert fyrir hana var að útbúa fyrir hana tékklista svo hún gæti frekar metið hvort sambandið væri þess virði að reyna að flikka upp á það.

Daginn eftir að tékklistinn barst vinkonu minni hringdi Duslimennið sjálft í mig með grátstafinn í kverkunum og ásakaði mig um að vera að reyna að eyðileggja samband hans við sína ektakvinnu. Vinkonan hafði nefnilega sýnt sannkallaða ráðsnilld sem mér hafði ekki komið til hugar; í stað þess að svara listanum sjálf og meta stöðuna, bað hún Dusilmennið að hjálpa sér að rifja upp hvernig samskipti þeirra hefðu gengið fyrir sig undanfarnar vikur.

Þar sem flestir vina minna þykjast hafa eitthvað mikilvægara að gera seinni partinn á laugardegi en að vera mér til skemmtunar, (láta grislingna henda brauði í endurnar, sofa úr sér gærkvöldið og eitthvað álíka spennandi -þetta fólk hefur engan smekk) hef ég varið nokkrum tíma til þess að taka til í gömlum pappírum og haldiði að ég hafi ekki rekist á þennan ágæta tékklista. Birti hann hér að neðan – án ábyrgðar þó, því þótt sápuóperan „brauðristardrama“ sé ennþá í fullu fjöri, hef ég sjálf hef ég lent í frekar andstyggilegum dömpum þótt ekkert á listanum hafi gefið mér tilefni til að hafa áhyggjur.

Tékklistinn

Hversu oft á síðustu tveimur mánuðum hefur maðurinn þinn;

-sagt þér að hann elski þig?
-sagt þér það að fyrra bragði?
-sagt þér að þú sért falleg án þess að þú gæfir í skyn að þú vildir heyra það?
-fært þér blóm eða gjöf?
-fært þér blóm eða gjöf að tilefnislausu (undanskildu afmæli, konudaginn o.þh.)
-gert eitthvað annað rómantískt fyrir þig?
-hlustað með athygli þegar þú segir frá einhverju sem skiptir þig máli?
-sýnt vinnunni þinni áhuga?
-sýnt áhugamálum þínum áhuga?
-tekið virkan þátt í áhugamálum þínum?
-horft með þér á kvikmynd sem þig langaði meira að sjá en hann?

-lagt áherslu á að líta vel út og lykta vel fyrir ÞIG?
-kysst og kelað við þig án þess að þurfa endilega kynlíf?
-sýnt þér meiri tillitssemi en sjálfum sér í rúminu?
-átt frumkvæði að því sem þér finnst best í rúminu?

-eldað mat? (það er ekki að elda mat þótt hann hafi pantað pizzu)
-vaskað upp?
-búið um rúm?
-brotið saman þvott?
-skúrað?
-þrifið klósettið?
-sinnt garðyrkju, bílskúrstiltekt minniháttar viðgerðum eða viðhaldi heima eða þrifið bílinn? (áhugamál úti í bílskúr ekki tekin með)
-gert eitthvað af ofangreindu óbeðinn?

Hversu oft á síðustu tveimur mánuðum hefur þú;

-beðið hann um nákvæmlega sama hlutinn og þú gerðir daginn áður og 3 dögum áður og tveimur vikum fyrr, án árangurs?
-nöldrað í honum fyrir að vanrækja þig eða ganga illa um heimilið?
-reiðst honum og látið reiði þína í ljós?
-reiðst honum án þess að láta reiði þína í ljós?
-velt því fyrir þér hvað þú sást eiginlega við hann?
-efast um að þú hafir valið rétt?
-hugleitt möguleikann á því að kynnast einhverjum öðrum?
-daðrað við karlkyns vin eða vinnufélaga?
-haldið framhjá honum í huganum?
-haldið fram hjá honum í raunveruleikanum?

-Hvaða ástæður hefurðu til að halda þessu áfram?
-Hvaða ástæður hefurðu til að slíta þessu?
-Hvernig yrði líf þitt ef þú slitir sambandinu?
-Hvernig verður það ef ekkert breytist?
-Ertu sátt við það?

-Heldurðu í alvöru að hann geri eitthvað í þessu?
-Hvað ætlar þú að gera í þessu?