Heldurðu að ég viti ekki hvað ég er að gera?

Pysjan er kominn með leyfi til æfingaaksturs. Finn hvernig ég breytist í teiknimyndafígúru um leið og hann rykkir af stað. Finnst eins og hárið á mér sé vírbursti, augun glennast ósjálfrátt upp og ég yrði ekki hissa þótt kæmi í ljós að þau séu fest í tóttirnar með gormum, munnurinn hrepist saman og ég hreinlega ræð ekki við röddina, æpi upp þvert gegn ásetningi mínum þegar hann, svellkaldur, lætur sig vaða inn í hringtorg þvert fyrir ljósgráan Pajero, hreinan og með virðuleg jakkaföt við stýrið. Ég hef ekki orðið svona hrædd síðan ég sat í bíl með Borghildi systur minni síðast.

-Hvað er þetta manneskja, heldurðu kannski að ég viti ekki hvað ég er að gera? spyr Pysjan og hvernig á maður að svara þessu án þess að vega að karlmennsku hans? Hann varð nú 16 ára í febrúar og er með loðnari leggi en ég.
-Fyrirgefðu lætin í mér elskan en ég er almennt bílhrædd og þú ert auk þess óvanur, þetta var svolítið glannalegt.

-Óvanur! segir snáðinn sármóðgaður og drepur á bílnum rétt áður en hann kemur að grænu ljósi, hey, ég er sko búinn að fara í 10 ökutíma og svo hef ég líka oft ekið traktor í sveitinni, (rykkir af stað í 2. gír).

Ég tauta eitthvað um að það þurfi nú meira en 10 tíma í innanbæjarakstri til að verða öruggur og þetta gangi nú bara vel svona í ljósi takmarkaðrar reynslu og
-Arrrg… viltu gæta að þér, hjólin mín megin eru komin alveg upp í kantinn! (rykkir bílnum út á vinstri akrein.

Jamm. Ég hef nú aldrei hugleitt að gerast fíkniefnasali en ætti kannski að bjóða upp á ökuferð með Pysjunni sem hluta af meðferð fyrir spíttfíkla. Adrenalínvíman entist mér allavega langt fram eftir kvöldi. Hins vegar er spítt líklega ekki eins hættulegt.