-Áttu leyndarmál? segi ég við Elías.
-Allir eiga leyndarmál, svarar hann.
-Ég á ekki við þessi venjulegu leyndarmál sem konur segja bara einum í einu og karlar bara kærustunni sinni eða besta vininum heldur alvöru leyndarmál sem þú segir engum.
-Allir eiga eitt eða tvö svoleiðis.
-Ekki ég.
-Nú lýgurðu.
-Nei, ég lýg ekki. Ég er sögupersóna og sögupersónur eiga ekki leyndarmál.
-Viltu að ég segi þér leyndarmál?
-Já takk.
-Finnst þér þá að þú eigir meira í mér?
-Nei. Þá finnst mér eins og þú sért af mínum heimi, sögupersóna eins og ég. Sem þarf engin leyndarmál. Halda áfram að lesa
Greinasafn fyrir flokkinn: Sápuópera
Kæri Sáli
Kæri Sáli horfði á mig samúðarfullu augnaráði og spurði hvort gæti verið að harmleikur sálar minnar ætti rætur í höfnun eða áföllum í bernsku. Ég svaraði því til að ég þekkti nú reyndar enga manneskju sem hefði ekki orðið fyrir áföllum í æsku en flestu fólki tækist nú samt, eftir rækilegan lestur á meira en 200 sjálfsræktarbókum, að plata sjálft sig til að verða ástfangið af einhverjum sem vildi eitthvað með það hafa. Halda áfram að lesa
Tölvan úr viðgerð
Tölvan mín er endurheimt! Nú veit ég hvernig karlmanni líður þegar hann fær bílprófið aftur eftir að hafa misst það í 3 mánuði. Í augnablikinu get ég ekki gert upp við mig hvort ég elska heitar; tölvuna eða þann sem læknaði hana. Ég er allavega búin að kyssa þau bæði.
Líkami minn er gáfaðri en ég
Líkami minn er gáfaðri en ég sjálf. Hann virðist allavega ætla að standa sig prýðilega í því að hafa vit fyrir mér hvað varðar val á félagsskap. Fyrst hafnar hann Manninum sem drakk ekki konuna sína frá sér heldur reið hana frá sér á fylliríi (væntanlega á þeirri forsendu að hann sé líklegri til að sýkja mig af þunglyndi en að gera mig að þjóðskáldi, þetta tvennt þarf víst ekki endilega að fara saman) og nú er hann búinn að ákveða að einn liður í viðleitni minni til að verða fallegt lík sé sá að hætta algerlega að umgangast reykingafólk. Ég get a.m.k. ekki túlkað skilaboð hans á annan veg.
Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta gerræði. Vildi gjarnan geta hitt annað fólk af og til án þess að hósta gengdarlaust og engjast í andnauð næstu nótt. Greind er stórlega vanmetið fyrirbæri og spurning hvort ég eigi ekki að reyna að verða mér úti um heimskari líkama.
Ryk
Sameignarryksugan er biluð og stigagangurinn orðinn -úff. Sjálf á ég enga ryksugu, bara drullusokk og hann gerir jöskuðum gólfmottum ekkert gagn. Þótt ryksuguskortsdrama mitt sé einmitt öfugt við ryksugudrama Langa Sleða finn ég til djúprar samkenndar með honum þessa dagana. Ég held nefnilega að ryksogsleysi lífs míns sé í raun táknrænt jin sem fellur nákvæmlega að hinu ryksogna jangi í lífi Sleðans. Ég er búin að biðja hann að giftast mér en hann vill það ekki. Ég skildi rökin ekki alveg en þau tengjast held ég Íslendingabók. Halda áfram að lesa
Í fréttum er þetta helst
Í fréttum er þetta helst:
Tölvan mín er veik. Með einhvern ógeðsvírus og þar sem tölvulæknirinn minn hefur, sökum félagslegara aðstæðna, takmarkað leyfi til fjarveru frá heimili sínu hef ég setið uppi með sjúklinginn alls ónothæfan síðan á mánudagskvöld.
Síðustu helgi smíðaði ég 40 vatnsnema og setti í eina þvottavél. Afleiðingarnar eru ástand. Næstu helgi verð ég á Nesjavöllum. Spurning hvort ég eigi ekki bara að panta Heiðar og co strax? Halda áfram að lesa
Búrið
Elskan mín og Ljúflingur
Allt sem þú vilt geturðu fengið, spurningin er bara þessi eilífa; hvað má það kosta? Líklega verður þetta lögmál rauði þráðurinn í ævisögu minni þegar upp er staðið.
Það er fyrst núna sem hugmyndin um að eitthvað kunni að breytast, (aðstæðurnar eða viðhorf hans eða að ég sjálf sjái skyndilega hlutina í allt öðru ljósi) vekur mér engar væntingar. Ég er komin yfir sorgina og tilbúin til að halda áfram. Kannski veit maður aldrei almennilega hversu háu verði maður er reiðubúinn að greiða hamingju sína en ég veit allavega hvað ég vil ekki. Halda áfram að lesa