Grasekkja

Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað ég er háð Orðsifjabókinni, fyrr en ég lánaði Magga hana. Þessar 3 vikur hefur varla liðið dagur án þess að ég finni hjá mér sérstaka þörf fyrir að fletta henni.

Í augnablikinu er það orðið grasekkja sem þvælist fyrir mér. Er hún grasekkja af því að hún nennir ekki að elda þegar karlinn er að heiman og hefur bara salat í matinn? Eða kannski hugsunin sé sú að karlinn sé nú meiri grasasninn að tolla ekki heima hjá sér?

Tjásur:

Halda áfram að lesa

Matur drepur!

Saltkjöt er bráðdrepandi.
Grillmatur er krabbameinsvaldandi.
Rauðar M&M kúlur líka.
Kleinur valda kransæðastíflu.
Og kokteilsósa.
Kaffi veikir ónæmiskerfið.
Sykur veldur offitu, geðveiki og sykursýki.
Aspartam er gríðarlega hættulegt.
Líka MSG.
Og nú Tófú.

Ég held ég sé að ná þessu. Fólk deyr af völdum fæðu. Hver munnbiti sem þú kyngir, færir þig nær sjúkdómum og dauða.

Hlýðni við yfirvöld er skaðleg

Múgurinn er nánast heiladauður af þeirri gnægð brauðs og leika sem honum er tryggður. Hann myndi vissulega vakna ef öllum pizzastöðum yrði lokað á einu bretti og skrúfað fyrir alla „raunveruleikaþætti“ um leið. Hinn raunverulegi raunveruleiki snertir hann hinsvegar ekki. Ekki á meðan þessum frumþörfum hans er fullnægt.

Það er verið að eyðileggja jörðina okkar. Þeir sem eru ábyrgir fyrir því hafa nöfn og kennitölur og við vitum hvar þeir búa. Það sem okkur vantar er ekki hlýðni við yfirvöld heldur röggsamur meindýraeyðir.

Dugar ekki

Ég er ánægð með Svandísi þótt þetta breyti svosem engu. Það er með öllu óþolandi að eigendur fyrirtækisins séu leyndir upplýsingum um orkuverð. Þetta er klassískt dæmi um pólitíska ákvörðun sem hefur það eina markmið að tryggja völd og hagsmuni ákveðins forréttindahóps.

Krafa Svandísar um að leyndinni verði aflétt og ákvörðun hennar um að ganga út, fremur en að liggja á upplýsingum, mun engu breyta í sjálfu sér en getur kannski orðið til þess að vekja einhverja til umhugsunar. Mótmæli á Austurvelli munu heldur ekki breyta neinu. Til þess að við fáum að sjá tölur þarf beinar aðgerðir.

Fólk ER fífl!

Moggabloggsumræðan sem skapaðist um þessa frétt er eitt lítið dæmi sem staðfestir þá skoðun mína að heimska mannanna sé uppspretta stórra vandamála.

Eru virkilega svona margir sem vita ekki að slysatryggingin nær ekki til réttindalausra ökumanna? Eða er kannski til sérstök hrokatrygging fyrir þá sem telja sig og sína vera undanþegna slysum og óhöppum?

Blessað frelsið

Einn af málsvörum frelsisins gagnrýnir umfjöllun Stöðvar 2 um reynslu Hauks í Palestínu. Ég hef séð betur unnar fréttir frá henni Lóu en alveg finnst mér ótrúlegt að láta að því liggja að það sé allt eins líklegt að frásögn Hauks sé uppspuni.

Auðvitað er sjálfsagt að fréttamenn leiti staðfestinga þegar verið er að fjalla um einstaklinga og/eða vinkvæm málefni en ef fréttamenn greindu aldrei frá neinu og tækju aldrei viðtöl nema sýna um leið óyggjandi sannanir, væri upplýsingaflæði til almennings frekar fátæklegt.

Meira blóð!

Elías (ekki Elías minn, heldur Elías hinn) þarf áreiðanlega ekki að birta nýju netslóðina sína á gömlu síðunni til að ná athygli.

Ég er ekki hrifnari af barnaperrum en hver annar og finnst mun meiri ástæða til að taka svona kóna úr umferð en að verja tíma lögreglu í skýrslutökur af fólki sem gerði sig sekt um þann stórglæp að brjóta fánalög á lýðveldisdaginn. Vér mótmælum allir slíkri forgangsröð.

Alveg finnst mér það samt dæmigert að í stað þess að undrast aðgerðaleysi lögreglunnar, skuli nú lýðurinn beina allri sinni orku að því að krefja Elías um nöfn. Það er svosem ekkert skrýtið. Það eru margar vikur, ef ekki mánuðir síðan við höfum fengið fjölmiðlaaftöku til að rúnkast á.