Firring

Verðið á lítilli leiguíbúð hefur tvöfaldast á aðeins fjórum árum og íbúðarkaup eru að verða óraunhæf fyrir flest venjulegt fólk.

Fyrir fjórum árum kostaði þrjú og fimm að fylla bílinn minn. Í dag fara rúm fimmþúsund á tankinn.

Þeir sem áður versluðu í Nóatúnum fara nú í Bónus.

Eitt hefur þó staðið í stað. Verðið á fegrunaraðgerðum.

Ömurlegt gildismat dómstóla

Enn ber ég í bakkafullan lækinn með tuggunni um undarleik þess að dæma menn í 9 ára fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning á sama tíma og ofbeldismenn fá skilorðsbudið „skamm bara, svona gerir maður ekki.“ Af hverju viðgegnst svona réttafar þegar það stríðir augljóslega gegn siðferðisvitund meirihlutans. Jú það er vegna þess að meirihlutinn tekur þetta ekki nógu nærri sér til að gera eitthvað róttækara en að blogga um það.

Hér er kona sem kveðst tilbúin til að taka lögin í sínar hendur ef hún eða hennar fólk verði fyrir frekari árásum.

Viðeigandi

Merkir ekki sögnin að náða það sama og að fella niður refsingu eða milda hana? Dálítið seint í rassinn gripið verð ég að segja. Væri ekki nær að gefa þessu fólki uppreisn æru? Kirkjan gæti svo játað sekt sína fyrir þessar hroðalegu mannfórnir og gert yfirbót með því að gefa allar eigur sínar til samtaka sem berjast gegn valdi trúfélaga.

Afstæðiskenning dagsins

Grey Hannes fær miklu minna en kjellingin. Það er ljótt að gera svona upp á milli.

Mér finnst eitthvað sjúkt og rangt við að strákur, jafnaldri minn, geti verið svona fáránlega ríkur. Á hinn bóginn býst ég við að um alla veröld sé fólk sem finnst ég vera ósiðlega rík. Réttlætistilfinning mannskepnunnar er yfirleitt háð því sem hentar MÉR, NÚNA.

Upp á bak í beinni

Ég hefði haldið að „pólitísk staða“ gamla, góða Villa væri á hreinu.

Villi minn. Þú ert búinn að gera upp á bak í beinni. Þinn eigin flokkur vill ekki sjá þig. Póltísk staða þín er í skársta falli staða vorkunnarverðrar boðflennu. Það eina sem þú getur gert til að bjarga andlitinu er að draga þig í hlé og bíða eftir að einhver annar skandaliseri svo illilega að samanburðurinn verði þér hagstæður.

Habbðu mín ráð gæskur. Gráttu smávegis opinberlega, taktu þér svo frí.

Spaug

Gálgahúmor höfðar ekkert sérstaklega til mín. Ég sé sjaldan neitt fyndið við stórslys, sjúkdóma, kynþáttahatur eða ofbeldi. Það eru helst Fóstbræður sem hafa hitt í mark hjá mér með ósmekklegheitum, mér fannst t.d. þátturinn þar sem fór fram kennsla í heimilisofbeldi sprenghlægilegur.

Mér fannst síðasti Spaugstofuþáttur lélegur. Það er svosem ekkert við því að búast að hver einasti þáttur sé akkúrat við mitt hæfi svo ég er nú svosem ekkert aftaka sorrý yfir því. Ég skil hinsvegar ekki alveg hversvegna fólk sem finnst bráðfyndið að gera grín að rónum, blindum, föngum, asíubúum, stjórnmálamönnum, misþroskuðum og öðrum undirmálshópum fer á límingunum ef geðsjúkir eru gerðir að aðhlátursefni.

Nýyrðasmiðir allra landshluta sameinist

Það vantar íslensk orð yfir ‘bionics’ í staðinn fyrir þessa 5 lína skýringu í orðabókinni, sem er aukinheldur svo flókin að mér dettur ekki í hug að læra hana nema eiga kost á prófskírteini út á það.

Plíííís, þið sem takið að ykkur að finna nýtt orð, látið það ríma á móti rassgat. Eða elska. Þátturinn gæti þá kallast krassgataða konan (það stuðlar m.a.s.) eða belskaða konan. Sko ég er m.a.s. komin með orðin svo nú þurfið þið nýyrðasmiðir bara að finna góð rök fyrir þeim.