Persónugerum vandann

Þegar fólk missir vinnuna er það persónulegt vandamál.
Þegar fólk getur ekki borgað af lánunum sínum er það persónulegt vandamál.
þegar fólk þarf að útskýra fyrir börnunum sínum að þau geti ekki haldið áfram í fimleikunum, fengið skólamáltíðir og nýja úlpu, þá er það fokking persónulegt vandamál.

Klúður stjórnmálamanna og embættismanna hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir persónur, sem fá engan afslátt af sínum vandamálum út á það viðhorf að ekki megi persónugera vandann. Fólkið sem klúðraði efnahagskerfinu hefur nöfn, kennitölur og heimilisföng, alveg eins og við hin. Hversvegna í fjáranum ættu persónulegheit vandans ekki að ná til þeirra eins og annarra?

Berum kallinn út ef annað dugar ekki


Þessi maður
 er búinn að segja allt sem segja þarf um það hversvegna bankastjórar Seðlabankans eiga að fara.

Ég vil bæta því við að embættismaður sem segist hafa upplýsingar um það hversvegna hryðjuverkalögum var beitt gegn Landsbankanum, og gefur þar með í skyn að það mál sé eitthvað flóknara en vitað er, en neitar að upplýsa þjóðina um það, á ekki að vera deginum lengur við völd. Stærstu, og kannski öll, vandamál Íslendinga í dag stafa af því að almenningur fékk ekki upplýsingar sem hann átti siðferðilegan rétt á. Þessu leynimakki varðandi alla hluti verður að linna.

Og já, enn og aftur, er búið að upplýsa um alla skilmála IMF?

mbl.is Lýsir miklum vonbrigðum

Aðför og einelti

Í dag er nánast öll pólitísk óánægja skilgreind sem aðför og/eða einelti, öll uppreisn sem ofbeldi.

Ég hef litla trú á því að nokkur eigi í vandræðum með að sjá muninn á því þegar reiði þjóðarinnar beinist gegn valdamanni á borð við Davíð Oddsson og því þegar hrekkjusvínin sitja fyrir þeim varnarlausasta í bekknum á leiðinni heim úr skólanum og míga í skólatöskuna hans.

Þetta endalausa væl um aðför og einelti gegn Sjálfstæðismönnum er sambærilegt við það að kalla hrekkjusvínin þolendur þegar eineltisbörnin reyna að reka þau burt með ókvæðisorðum. Stjórnarflokkarnir eru ekki í neinni aðför gegn Sturlu, þeir eru bara að gefa Sjálfstæðisflokknum skýr skilaboð um að hann ráði ekki lengur. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki fórnarlamb eineltis, hann er hrekkjusvínið sjálft.

mbl.is Takmarkalaus valdagræðgi