Á ekkert að spyrja Þvaglegg sýslumann?

Af hverju er enn enginn íslenskur blaðamaður búinn að gefa almenningi upplýsingar um það hverju hinn landsþekkti lögregluafglapi Þvagleggur sýslumaður svaraði þegar þeir spurðu hversvegna ekki hefði verið lýst eftir árásamönnunum fyrr en tæpum mánuði eftir atvikið? Gleymdu þeir nokkuð að spyrja?

Hvernig gengur annars rannsókn þessa máls? Ætlar einhver blaðamaður að spyrjast fyrir um það.

Hvað gerir Ögmundur?

Þá er undirskriftasöfnuninni vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins lokið.

1190 undirskriftir söfnuðust og hafa nú verið sendar til Ögmundar. Ég bjóst við meiri þátttöku. Hélt einhvernveginn að flestum þætti skipta máli að búa við réttarkerfi sem viðurkennir mistök sín. Réttarkerfi sem viðurkennir ekki pyndingar sem rannsóknaraðferð og dæmir ekki menn án sönnunargagna.

En líklega er flestum sama. Kannski ekkert undarlegt. Þegar fólk býr hvorki við hvatningu né tækifæri til að hafa áhrif á umhverfi sitt og samfélag þá er ekki von að það taki ábyrgð heldur.

Ég hugsa að Ögmundur skipi rannsóknarnefnd. Hann getur ekki verið þekktur fyrir að gera ekkert og rannsóknarnefnd er voða dipló.

Síðasta tækifæri

Á næstu dögum mun Ögmundur Jónasson taka afstöðu til kröfu um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála.

Ögmundur getur ekki fyrirskipað endurupptöku en hann getur beitt sér fyrir henni með því að mælast til þess við hæstarétt og verði hæstréttur ekki við því getur Ögmundur skipað rannsóknarnefnd. Álit slíkrar nefndar hefur ekkert lagalegt gildi og máir sennilega ekki skítaglottið af smetti Valtýs Sigurðssonar en eitthvað gæti þó komið í ljós sem gefur enn eitt tilefnið til endurupptöku.

Snemma í fyrramálið verður þessi áskorun send Ögmundi. Þátttaka hefur verið dræm. Margir hafa skorast undan því að setja nafn sitt við þetta með þeim orðum að þeir viti ekki nóg um málið til að taka afstöðu. Sú afstaða er byggð á misskilningi. Með því að undirrita þessa áskorun er ekki verið að taka afstöðu til þess hvort dómfelldu voru sekir eða saklausir, heldur þá afstöðu að rannsókn málsins hafi verið gölluð og því sé ástæða til að kanna hvernig að henni hafi verið staðið og hvort hún hafi gefið tilefni til sakfellingar.

Ég hvet þá sem enn hafa ekki undirritað áskorunina til að gera það nú þegar.

Hér eru tenglar á umfjöllun Ísland í dag um málið.
Fyrri þáttur
Seinni þáttur.

Glæpamaður dagsins er Lárus Páll Birgisson

154b5e1bdb3b73aa4941a1280c4e4680

Handtekinn fyrir að standa með pappaspjald með þessum líka móðgandi skilaboðum á almennri gangstétt. Ákærður fyrir óhlýðni við lögreglu sem af einhverjum dularfullum ástæðum telur sig hafa vald til að banna fólki að standa á almennri gangstétt ef það fer í taugarnar á einhverjum hjá Bandaríska sendiráðinu.

Hernaðarandstæðingar sýna stuðning sinn við Lárus og andúð sína á hernaði með því að rölta Laufásveginn milli 12 og 17 í dag. Sumir þeirra kveðast jafnvel ætla að voga sér upp á hið hernumda svæði gangstéttarinnar. Ég hvet friðarsinna til að mæta í réttarsalinn kl 15 og/eða skreppa á Laufásveginn í dag og taka þátt í aðgerðum hernaðarandstæðinga eða allavega sýna þeim stuðning með viðveru sinni.

ea7288b57f1cc3652d51050dd8da3acf

Ekki að undra þótt lögruglan hafi ekki tíma til að eltast við menn sem sjálfir skilgreina sig sem krimma.

Og þessu treystir fólk í blindni

Af öllum ofbeldisstofnunum ríkisvaldsins er lögreglan sú sem mest samskipti hefur við almenning og er mest í fréttum. Almenningur veit því töluvert mikið um lögregluna, vihorf hennar og vinnubrögð.

Af einhverjum dularfullum ástæðum lætur þessi hinn sami almenningur það yfir sig ganga að vera undir valdi stofnunar sem getur hvað eftir annað varið tíma og peningum til að eltast við friðarsinna með pappaspjald en neitar hinsvegar að aðhafast þegar um er að ræða:

Morðmál.

Barnslát vegna afglapa heilbrigðisstarfsfólks.
Dreifingu barnakláms í gegnum netaðgang saklausrar manneskju.
Týnd börn.
Dularfull mannshvörf.
Brot á nálgunarbanni vegna heimilsofbeldis.
Ofbeldi gegn dýrum.
Atvinnuglæpamenn sem m.a.s. viðurkenna opinberlega að standa í ólöglegri starfsemi.
Líflátshótanir.
Rökstuddan grun um þrælahald.

Gefur engar skýringar á ótrúverðugu „sjálfsvígi“ manns í vörslu lögreglunnar.
Lítur á harðræði sem getur jafnvel haft í för með sér heilsubrest eða dauða sem sjálfsögð vinnubrögð.
Gengur fram með ofbeldi.
Beitir ólöglegum rannsóknaraðferðum.
Og lýgur til um vinnubrögð sín.

Getur einhver útskýrt fyrir mér hversvegna almenningur sættir sig við þetta?

Föðurlandsþversögnin

Svo merkilegt sem það er þá er barátta aðgerðasinna gegn þjóðernishyggju sprottin af föðurlandsást. Baráttan gegn Kárahnjúkavirkjun beindi sónum okkar að mannréttindabrotum álrisa og virkjanafyrirtækja, mannréttindabaráttan gerði okkur meðvituð um ömurlegar aðstæður flóttafólks, vandi flóttamanna sprettur af hugmyndinni um þjóðríkið.

Áherslurnar hafa breyst og aðgerðasinnar á Íslandi eru fáir. Þeir hafa ekki ráðist gegn Landsvirkjun og álrisunum af neinni alvöru um hríð en það merkir ekki að þeim sé ekki ennþá jafn annt um náttúru landsins. Nýlegar fréttir af hörmulegum áhrifum virkjunarinnar á lífríki Lagarfljóts ýta við okkur því þótt okkur hafi ekki tekist að afstýra Kárahnjúkavirkjun er langt frá því að stóriðjuskrímslið hafi fengið nægju sína. Varla er sú lækjarspræna á landinu sem ekki þykir vænlegur virkjanakostur og þörfin fyrir umhverfisaktivisma er síst á undanhaldi.

Nokkrar spurningar til Árna Þórs Sigmundssonar

Mig langar að fá svör Árna Þórs Sigmundssonar við nokkrum spurningum sem vöknuðu hjá mér við lestur þessarar fréttar

-Hvernig getur rannsókn á máli stúlkunnar verið lokið ef þið voruð ekkert að rannsaka hennar mál?
-Af hverju var hennar mál ekki rannsakað?
-Hvernig getur það verið ósaknæmt að greiða manneskju 300 kr á tímann fyrir yfirvinnu? Er búið að afnema lög um lágmarkslaun eða hvað?
-Telur lögreglan sér bera skyldu til að rannsaka málið ef upp kemur grunur um þrælahald eða aðra nauðung?
-Hafið þið einhverja sérstaka ástæðu til að ætla að það hafi verið tungumálavandræði fremur en blekkingar sem komu stúlkunni í þessa aðstöðu?

Og svo ein tvíliða spurning til blaðamanns DV:
-Lagðir þú þessar spurningar fyrir yfirmann lögreglunnar? Ef svarið er já, hverju svaraði hann? Ef svarið er nei, hversvegna gerðirðu það ekki?

Einnig má spyrja hvernig það komi heim og saman að lögreglan hafi mál stúlkunnar til rannsóknar eins og Árni Þór segir hér  og það sem hann segir núna, að þeir hafi verið að rannsaka starfsleyfi gistiheimilisins.