Að gæsast

gæsÉg get ekki gert upp við mig hvort mér finnst hroðalegra, nafnorðið „gæsun“ eða sögnin „að gæsa“. Það liggur í orðanna hljóðan að með slíkum athöfnum sé verið að gera einhverja að gæs – ekki beint viðeigandi rétt fyrir brúðkaup. Fyrir utan að „gæsaðar“ konur eru iðulega gagnkynhneigaðar og færi því betur á að karlmenn tækju að sér að „gæsa“ þær.

Orðskrípin „steggjun“ og „að steggja“ snerta svosem ekki hjartans hörpustrengi heldur en þó finnst mér einhvernveginn skárra að kalla karlmann stegg en konu gæs. Mín kynslóð ólst upp við þá hugmynd að það væri fremur jákvætt að vera steggur. Orðið gæs var hinsvegar notað um stúlkur sem voru lítt vandar að virðingu sinni í vali á bólfélögum og átti það jafnt við um fjölda og mannvirðingu þeirra sem þær hleyptu uppí til sín.

Merking orða breytist í tímans rás og kannski gæti ég vanist því að kalla konur sem ég kann vel við gæsir. Ég mun hinsvegar aldrei fella mig við „að gæsa“ konu eða taka þátt í gæsun. Vinkonur mínar verða sjálfar að bera ábyrgð á því ef þær gerast gæsir, eða láta gæsast.

Hvað sem því líður vil ég endilega láta beygja þessa sögn þannig:
gæsa -gæsti -gæst.

Víst beita þeir valdi

logganVar það í Mogganum í gær eða fyrradag sem lögreglan birti yfirlýsingu um óánægju með einhliða umfjöllun fjölmiðla um framgöngu laganna varða austur á Kárahnjúkasvæðinu?
Í yfirlýsingunni kemur fram að valdbeiting geti reynst óhjákvæmileg en lögreglan beiti ekki valdi að nauðsynjalausu.

Sorrý löggimann en það eru bara til myndir sem sýna dæmi um vinnubrögðin ykkar. Við höfum séð myndir af því þegar lögreglan ræðst inn í tjöld á landi í almenningseign og dregur friðsamt fjölskyldufólk út með ofbeldi. Við höfum séð mynd af því þegar nautið hann Óskar Bjartmarz ræðst á, ekki mótmælanda, heldur myndatökumann sjónvarps. Að vísu eru ekki margar myndir til, því lögreglan hefur þá venju að handtaka fyrst myndatökufólk, en ekki þá sem taka þátt í beinum aðgerðum.

Ég efast ekki um að flest starfsfólk lögreglunnar er ósköp almennilegt fólk en innan um er einn og einn vitleysingur á páerflippi og því miður þá virðast þeir stundum veljast til þess að stjórna starfi lögreglunnar. Eða kannski er það kerfið sjálft sem er rotið?

Forðið okkur háska frá

illvirkjunÞótt þrívíddardrullusokkarnir í stjórn Landsvirkjunar hafi nú þegar, með dyggum stuðningi ríkisstjórnarinnar, unnið hálendi Íslands óbætanlegan skaða er ennþá hægt að afstýra miklum voða.

Ekki fylla lónið!

Auðvitað er grautfúlt að hafa lagt svona mikið fé og vinnu í framkvæmdir og ljúka þeim svo ekki, en það hlýtur samt að vera skárra að viðurkenna mistök sín á þessu stigi en að þurfa að svara fyrir þau þegar stíflan brestur.

Tilgangur mótmæla

SISpurt er: Af hverju geta þessir mótmælendur ekki bara haldið sig á þeim svæðum sem þeim hefur verið úthlutað til að mótmæla á?

Svarið: Af því að tilgangur mótmæla er ekki sá að skemmta sér við að veifa borða, heldur að knýja fram breytingar og vekja athygli á viðhorfum sem valdhafar og stórfyrirtæki komast upp með að valta yfir án nokkurra raka, af því að það hentar þeim. Mótmælendur ÆTLA að trufla starf og valda skaða. Það er yfirlýstur tilgangur, af því að það er eina aðferðin sem nokkurntíma hefur skilað nokkrum árangri. Það væri einfaldlega fáránlegt að mótæla einhverju í góðu samstarfi við fyrirtækin og stofnanirnar sem verið er að mótmæla og eftir forskrift frá þeim. Mótmælendur fyrir austan hafa ekki beitt nokkurn mann ofbeldi. Þeir eru hinsvegar, af mjög einbeittum brotavilja að leggja sig fram um að valda náttúruspillandi skítafyrirtækjum eins miklum skaða og mögulegt er. Verst hvað hið mesta mögulega er sorglega lítið.

Skondið

Sumir túristar halda að „ástatrú“ hafi einhver orðsifjaleg tengsl við „astro“.

Einföld lausn

fishingDavíð segir að launahækkanir hinna lægst launuðu muni líklega espa verðbólgugrýluna, þar sem hækkanirnar skríði upp allan launastigann. Nú er til mjög einföld og sanngjörn lausn á því, sem hægri menn virðast ekki hafa hæfileika til að heyra eða skilja. Allir fá sömu hækkun, í KRÓNUM talið. Hvað getur hugsanlega verið ósanngjarnt við það?

Af hugviti starfsmanna bílastæðasjóðs

Bílastæðasjóður er mikil dásemdarstofnun og hefur á að skipa hugmyndaríku starfsfólki sem kann bráðsnjallar lausnir bílastæðavandanum í miðborginni.

Vinkona mín sem býr við Vesturgötuna á íbúakort en lendir samt iðulega í því að þurfa að leita lengi dags að hentugu bílastæði. En nú er lausin fundin. Hinir ráðsnjöllu útsendarar bílastæðasjóðs dreifðu nýverið miðum, þar sem þeir bentu íbúum við Vesturgötuna, þ.m.t. vinkonu minni og hennar fjölskyldu, á þann möguleika að leggja bílnum við Skúlagötuna. Þetta fannst vinkonu minni stórgóð hugmynd. Það eru heilar þrjár vikur síðan hún gekk í gegnum keisaraskurð og því tilvalið að fá sér daglega spássitúra milli bæjarhluta með krílið á öxlinni í þessu yndislega íslenska sumarveðri.

Mér finnst þetta næstum því jafn snjöll lausn og símastæðin svokölluðu. Nú eru liðnar rúmar 3 vikur síðan grasakona Nornabúðarinnar pantaði og greiddi símastæði fyrir okkur báðar. Númerið virkar reyndar ekki og á þessum 3 vikum hefur ekki náðst í neinn sem hefur til að bera vald, vit og vilja til að kippa því í liðinn. Það er því ekkert hægt að nota þessi stórfenglegu símastæði, sem við erum þó löngu búnar að borga fyrir -en hugmyndin er góð.