Bílastæðasjóður er mikil dásemdarstofnun og hefur á að skipa hugmyndaríku starfsfólki sem kann bráðsnjallar lausnir bílastæðavandanum í miðborginni.
Vinkona mín sem býr við Vesturgötuna á íbúakort en lendir samt iðulega í því að þurfa að leita lengi dags að hentugu bílastæði. En nú er lausin fundin. Hinir ráðsnjöllu útsendarar bílastæðasjóðs dreifðu nýverið miðum, þar sem þeir bentu íbúum við Vesturgötuna, þ.m.t. vinkonu minni og hennar fjölskyldu, á þann möguleika að leggja bílnum við Skúlagötuna. Þetta fannst vinkonu minni stórgóð hugmynd. Það eru heilar þrjár vikur síðan hún gekk í gegnum keisaraskurð og því tilvalið að fá sér daglega spássitúra milli bæjarhluta með krílið á öxlinni í þessu yndislega íslenska sumarveðri.
Mér finnst þetta næstum því jafn snjöll lausn og símastæðin svokölluðu. Nú eru liðnar rúmar 3 vikur síðan grasakona Nornabúðarinnar pantaði og greiddi símastæði fyrir okkur báðar. Númerið virkar reyndar ekki og á þessum 3 vikum hefur ekki náðst í neinn sem hefur til að bera vald, vit og vilja til að kippa því í liðinn. Það er því ekkert hægt að nota þessi stórfenglegu símastæði, sem við erum þó löngu búnar að borga fyrir -en hugmyndin er góð.