Söngur sauðkindarinnar

Í gulum skátagöllum
í gegnum snjóél hörð
í október við brutumst
til að bjarga týndri hjörð.
Þá undan fótum okkar
svo ámátlegt barst jarm
sem nísti gegnum nef og hjarta
og nið’rí endaþarm.

#Ég kvalin er kind
ég kvalin er kind
mig gangnamenn eltu
um grundir og tind.
ég stakk af en stormur
og stórhríðin blind
í staðinn mig hremmdu
Ég kvalin er kind.#

Fast á fimmtu viku
í fönninni ég lá
ósjálfbjarga, innilokuð
ekkert hey að fá.
Ég heyrði lömb mín hljóða
af hungri dag sem kvöld
og harmi slegin hef ég nagað
hræin þeirra köld.

Við hjuggum gat í harðskafann
því heyrt hef ég það sé
ólöglegt með öllu
að eta sjálfdautt fé.
Á skátabílnum brunuðum við
beint í sláturhús
og ég mun éta hangikjöt
um jólin, ásamt mús.

Af menningarslysförum æsku minnar

Ég var algjört lúðabarn. Mig skortir ennþá tískuvitund en ég hlýt að hafa slegið öll met í hallærislegum útgangi á síðustu árum grunnskólagöngu minnar. Aðrar stelpur gengu í þröngum gallabuxum og háskólabolum. Ég vildi helst ganga í gömlum kjólum af móður minni og hýjalínsmussum. Náttföt hinna stelpanna voru stuttir bómullarnáttkjólar með áprentuðum myndum en ég gekk í síðum drottningarserkjum með pallíettum og pífum. Ég átti einn sem líktist þessum á myndinni.  Halda áfram að lesa

Sukkjöfnunarkálbögglar

Mér tókst þokkalega upp með afgangasukkjöfnunarmáltíð gærkvöldins en uppistaðan í henni voru smjörbaunir og hvítkál.

Hvítkál er ekkert sérstaklega spennandi matur en það er hitaeiningasnautt og ódýrt, geymist lengi og bragðið er frekar hlutlaust. Það er fínt að  nota það í súpur og pottrétti, eða skera það í fínar ræmur og steikja í smjöri eða ólívuolíu ásamt öðru grænmeti.  Kál lyktar illa ef það er ofsoðið og verður þá slepjulegt áferðar og bragðverra en ef maður gætir þess að ofsjóða það ekki er það alveg ágætt. Það er líka sniðugt að nota það í kálböggla því það ofsoðnar síður ef maður klárar eldunina í ofni. Halda áfram að lesa