Sukkjöfnunarkálbögglar

Mér tókst þokkalega upp með afgangasukkjöfnunarmáltíð gærkvöldins en uppistaðan í henni voru smjörbaunir og hvítkál.

Hvítkál er ekkert sérstaklega spennandi matur en það er hitaeiningasnautt og ódýrt, geymist lengi og bragðið er frekar hlutlaust. Það er fínt að  nota það í súpur og pottrétti, eða skera það í fínar ræmur og steikja í smjöri eða ólívuolíu ásamt öðru grænmeti.  Kál lyktar illa ef það er ofsoðið og verður þá slepjulegt áferðar og bragðverra en ef maður gætir þess að ofsjóða það ekki er það alveg ágætt. Það er líka sniðugt að nota það í kálböggla því það ofsoðnar síður ef maður klárar eldunina í ofni.

Ég átti 300 gr af soðnum smjörbaunum og 150 gr af köldum kartöflum. Ég maukaði þetta saman í fars með kartöflustappara, ásamt einum niðursoðnum tómat sem varð afgangs fyrir nokkrum dögum. Annars er líka hægt að bleyta í svona mauki með eggi eða afgangi af súpu eða graut. Ef maður notar kjúklingabaunir eða linsur til að búa til fars, er sniðugt að nota matvinnsluvél en smjörbaunir verða bara ekki eins góðar ef maður notar of mikinn kraft og þær eru svo mjúkar að það er auðvelt að stappa þær með gömlu aðferðinni. Ég saxaði lauk, ca 150 gr og kryddaði með 3 hvítlauksrifjum, cajunpipar, oregano, smá múskati, salti og grænum og hvítum pipar. Þar sem mig vantaði krukku og átti næstum tóma hnetusmjörskrukku, skóf ég innan úr henni, aðallega til að losa krukkuna. Það var tæp matskeið og ég efast um að hún hafi breytt neinu svo ég ætla að sleppa henni næst, enda margar fitueiningar í hnetusmjöri. Saman við þetta setti ég 40 grömm af feitum osti.

Ég notaði þetta fars sem fyllingu í kálböggla. Til að búa til kálböggla tekur maður kálið varlega í sundur, blað fyrir blað og sker stilkana úr. (Ekki samt henda stilkunum því þá fer maður til Helvítis, það er alltaf hægt að nota þá í súpur eða buff síðar.) Maður sýður vatn og setur blöðin í það 2-4 í senn, bara í smástund, veiðir þau svo upp úr. Ég set ekki salt í vatnið því mér finnst eins og blöðin dragi þá í sig meira vatn, ég er samt ekki alveg viss um hvort það er bara ímyndun í mér en það er engin þörf fyrir saltið ef er salt í fyllingunni. Ég setti 2-3 msk af farsinu í hvert blað, eftir stærð, lokaði bögglunum og raðaði þeim í eldfast mót. Penslaði þá með einni msk af bræddu smjöri. Í ísskápnum voru 30 gr af fetaosti sem var á síðasta snúningi og ég skar hann í litla bita og gluðaði yfir ásamt dálítlum parmesan, ekki meira en 10 grömmum. Bakaði þetta svo á 230 gráðum í svona 25 mínútur.

Þetta urðu 15 kálbögglar, ca 70 hitaeiningar í hverjum þeirra. Tveir urðu afgangs, sem segir mér að þetta var alveg nógur matur til að við yrðum södd og þótt hann jafnist ekkert á við gráðostafylltar svínalundir var hann allavega ætur.  Reyndar borðum við alltaf grænmetissalat á undan matnum og Eynar er mjög matgrannur, en ég reikna með að fyrir flest fólk yrði þetta hæfilega stór máltíð ásamt léttum forrétti eða með smá kúskúsi eða hrísgrjónum.

Ég notaði hvorki gulræturnar né paprikuna, allt í lagi með það því hvorttveggja er nýtt og geymist í marga daga en annars hefði ég brytjað   eða hvorttveggja og mýkt í örbylgjuofni (þarf smá vatn ef maður mýkir gulrætur þannig) og sett saman við farsið. Ég gæti best trúað að það sé gott að setja hnetur í fyllinguna líka en þar bætist náttúrulega við slatti af hitaeiningum.