Ég var algjört lúðabarn. Mig skortir ennþá tískuvitund en ég hlýt að hafa slegið öll met í hallærislegum útgangi á síðustu árum grunnskólagöngu minnar. Aðrar stelpur gengu í þröngum gallabuxum og háskólabolum. Ég vildi helst ganga í gömlum kjólum af móður minni og hýjalínsmussum. Náttföt hinna stelpanna voru stuttir bómullarnáttkjólar með áprentuðum myndum en ég gekk í síðum drottningarserkjum með pallíettum og pífum. Ég átti einn sem líktist þessum á myndinni.
Ég sá fyrir mér að á fullorðinsárum myndi ég líða um í náttslopp með loðnum köntum, á háhælainniskóm með fjaðraskrauti og nota langt sígarettumunnstykki. Það gekk ekki eftir. Ég hef aldrei lært að reykja og fer á hæla að jafnaði einu sinni á ári og þá aðeins stutta stund í senn.
Þegar bekkjarsystur mínar fermdust keyptu þær sér teinótt jakkaföt og lakkrísbindi. Mér fannst það sérdeilis ljótur klæðnaður en ég held að þeim hafi þótt rómantísku blúndublússurnar mínar alveg jafn hryllilegar.
Á skólamyndinni frá 8. bekk lít ég út eins og fimmtugur dreifbýlisbankagjaldkeri, með framsóknarkvennahárgreiðslu og í gráum rúllukragabol. Aukinheldur ábúðarfull á svip eins og ég telji víst að minnsta brosvipra geri út af við virðulegt yfirbragðið sem eiturgrænn augnskugginn átti að ljá mér ef ég man rétt. Það er aðeins lýtalaus húðin sem kemur upp um aldur minn. Ég man reyndar ekki betur en að ég hafi verið feit, bólugrafin, með risavaxið nef, bláa bauga og augnbrúnir út um allt andlit en þau lýti koma allavega ekki fram á myndinni.
Þegar ég var að byrja í 9. bekk sendi móðir mín mig í bæinn með pening. Ég átti að kaupa mér buxur fyrir veturinn. Ég kom heim með tvenna sokka, síðan siffonnáttkjól og fimm ljóðabækur eftir einhver ungskáld sem ég hef aldrei fyrr né síðar heyrt nefnd. Afgangurinn hafði ekki dugað fyrir einu buxunum sem mér þóttu koma til greina, sem voru mittisháar pokabuxur sem ég hafði fundið í sömu kerlingabúðinni og náttkjólinn. Mamma dæsti.
Ég lá á hleri þegar hún klagaði í vinkonu sína daginn eftir.
„Þetta voru bara útsölubækur svo þetta voru ekkert stórkostleg fjárútlát en hana vantaði allt nema náttföt og svo fer það bara í taugarnar á mér að hún skuli alltaf ganga eins og kvenfélagskerling til fara“, sagði hún.
Vinkonunni fannst þetta bara ekki hægt, hún hefði orðið brjáluð ef dóttir hennar hefði gert þetta sagði hún. Mamma var reyndar oft brjáluð yfir ýmsu en ekki í þetta sinn. Sagði að stelpurófan teldi sig víst hafa meira gagn af bókum en tískufatnaði og það væri nú kannski ekki rétt að skamma hana fyrir það. Hún væri náttúrulega dálítið sérstök. Ég gat ekki betur heyrt en að hún væri dálítið impóneruð í aðra röndina og gerði mér fyllilega grein fyrir því að viðbrögðin hefðu orðið allt önnur en lágvært dæs ef ég hefði keypt tískufatnað fyrir peninga sem voru ætlaðir til bókakaupa.
Satt að segja dauðsá ég eftir kaupunum. Ég var búin að renna í gegnum bækurnar og komast að þeirri niðurstöðu að það væri mjög góð ástæða fyrir því að þjóðskáldin seldust ennþá á mun hærra verði en þessir andans menn, sem þrátt fyrir djúpan skilning sinn á mannshuganum og hégómleika heimsins, snertu engan streng í hjarta mínu. Ég huggaði mig við að ég hefði allavega fengið staðfestingu á því að sjálf væri ég meira efni í þjóðskáld en nokkur þessara útsöluhöfunda. (Ég held það ennþá en er því miður ein um þá skoðun.) Ég hefði þó fyrr farið í teinótt jakkaföt en að viðurkenna að ég hefði fjárfest í fimm bókum af rusli og það hentaði mér svosem ágætlega að vera álitin of menningarlega sinnuð til að hægt væri að skamma mig.
Nokkrum árum síðar bætti ég mér upp kattarkaupin með því hanga drjúga stund í fornbókabúð og lesa fyrstu útgáfuna af ljóðabók Indriða G Þorsteinssonar, Dagbók um veginn spjaldanna á milli áður en ég skutlaði henni í sekkinn. Ég held svei mér þá að ég hafi enn þann dag í dag ekki keypt ljóðabók eftir skáld sem ég kannast ekkert við nema skanna hana fyrst.
Ég lærði tvennt af þessari misheppnuðu verslunarferð: Annarsvegar að sérviska er tæk afsökun ef er hægt að ljá henni gáfulegt yfirbragð og hinsvegar að list er ofmetin.
Ég er löngu hætt að kaupa bækur nema á rafrænu formi enda eru fáar bækur þess virði að lesa þær oftar en einu sinni og pappírsframleiðsla er ofbeldi gagnvart trjám. Í dag kaupi ég hinsvegar fatnað og á það jafnvel til að brosa framan í myndavélina. Svona hefur nú menningarvitund minni hrakað á rúmum 30 árum.