ABBB maðurinn

A maðurinn á heimilinu (sem fór líka „snemma“ að sofa í gær) en kominn á fætur, eldsnemma uppúr 10. Hann segist reyndar bara vera ABBB maður í dag. Ígær kom hann fram 10 mín í 10 en það er nú kannski fullbratt. ABBB maðurinn er geyspandi en ekki þó slagandi.

A maðurinn

Einar er kominn á fætur!

Hann fór snemma í rúmið (um eittleytið) í gærkvöld með þeim ásetningi að gerast A-maður. Miðað við framgöngu hans í eldhúsinu á þeirri stundu sem þetta er skrifað gæti maður haldið að hann væri fullur en ég er nokkuð viss um að svo er ekki. Og er þaðan runninn málshátturinn: Betra er að vera A maður en AA maður.

Í ólestri

Aðalnámskrá grunnskólanna er full af frösum um lýðræði, sjálfbærni, jafnrétti og fleiri gildi sem er ekki hægt að kenna nema með því að lifa eftir þeim. Þar er hinsvegar sáralítil áhersla á lestur.

Kennarar mótmæla því að áherslan á lestur sé lítil enda sé hún grunnþáttur menntunar skv aðalnámskrá. Ojæja. Einn af sex „grunnþáttum“ og sá eini sem er hægt að mæla. Ég held reyndar að lestrarkunnátta sé nauðsynleg – ennþá – en hvaða Guð ákvað að 300 orð á mínútu væri hæfilegt?

Ef sá hinn sami getur gert okkur öll sjálfbær og heilbrigð og lýðræðiseitthvað og allt það, þá skal ég trúa því að hann geti lika gert okkur hraðlæs og hamingjusöm. En á meðan ekkert bendir til þess að skólarnir skili af sér fólki sem er skrár innrætt en fyrri kynslóðir, þá gef ég ekkert fyrir svona markmiðaræpu, hvort heldur markmiðin varða lestur eða göfgi mannsandans.

Voru landnámsmennirnir útrásarvíkingar?

Öndvegissúlur Ingólfs rak á land í Reykjavík og þar með hófst landnám Íslands. Frelsisþráin rak göfugustu menn Noregs til þess að sigla til eyjarinnar bláu í norðrinu og nema þar land. Þræla höfðu þeir vitaskuld og þá helst írska, en þeir fengu nú fljótt frelsi, í það minnsta fer litlum sögum af þrælahaldi nema hjá fyrstu kynslóð í landinu. Og höfðingjarnir stofnuðu Alþingi og fóru í víking og ortu drápur á milli þess sem þeir dunduðu sér við að höggva nágranna sína í herðar niður, ekki síst að undirlagi kvenskörunga, skráðu sögur og fræði á kálfskinn og urðu þjóð. Halda áfram að lesa

Ef amma mín hefði verið Óttar

Amma mín sáluga sem var dóttir útgerðarmanns, flokksbundinn Sjálfstæðismaður og hlustaði aldrei á neitt ferskara en Álftagerðisbræður, var nær því að vera pönkari en Óttarr Proppé.

Fyrir utan það að vera yfirlýst Sjálfstæðiskona var hún fyrirmyndar húsmóðir og kona afa míns sáluga sem var kommúnisti og áskrifandi að Þjóðviljanum.

Hún lét engan segja sér fyrir verkum og afi hefði ekki einu sinni reynt það. Ef hún hefði verið í sporum Óttars hefði hún nýtt sér stöðuna til fulls, tekið Sjálfstæðisflokkinn til bæna og gerst aftursætisráðherra í fjámálaráðuneytinu.

(Hún hefði líka sent Óttarr í klippingu en það er kemur þessu máli ekki við.)

 

Vanhugsuð málsókn gegn Kjararáði

Það er ekki eins og hækkanir fyrir þá sem þurfa þær ekki sé eitthvað nýtt

Nú er boðað til mótmæla gegn ákvörðun sem Kjararáð tók í samræmi við lög og pólitíska stefnu þeirra stjórnmálaafla sem meirihlutinn hefur fengið völd til að halda áfram að reka stefnu sem miðar að æ meiri misskiptingu auðs. Þvílík kómitragedía.

Fólk virðist ekki átta sig á samhenginu: Stéttaskiptingin er ekki Kjararáði að kenna heldur þeim stjórnmálaöflum sem lengst af hafa haft völd. Þar með er ég ekki að segja að þeir sem sitja í Kjararáði séu sérstakir sómamenn, en hættum að einblína á þessa birtingarmynd misskiptingarinnar, rótin er ekki þar.

Nú hefur Jón Þór hótað að draga Kjararáð fyrir dóm. Gott og vel, það er hugsanlegt að  Kjararáð hafi brotið gegn almenningi í landinu og þá bara gott að fá það á hreint. En þetta er ekkert einfalt. Setjum sem svo að komi í ljós að þessi hækkun hafi verið ólögmæt – hvað ætla menn þá að gera í þessu með sambærilega launahækkun sem dómarar fengu fyrir 3 gullfiskaferðum um fiskabúrið? Taka hana af þeim líka? Láta þá endurgreiða það sem þeir hafa fengið? Sorrý Jón Þór en þetta er bara ekki að fara að ganga upp.

Eitt þessu tengt sem mig langar að nefna: Þegar rætt er um laun Alþingismanna heyrist gjarnan „auðvitað eiga þingmenn að vera á góðum launum – en …“ Get ég fengið skýringu á því hvað er svona auðvitað við það að þingmenn eigi að vera á góðum launum? Af hverju er það sjálfsagðara en að t.d. starfsfólk sjúkrahúsa og þeir sem vinna við matvælaframleiðslu séu á góðum launum?

 

 

Margt er líkt með þeim sama

Í dag sá ég mann sem leit út nákvæmlega eins og kunningi minn nema 10 árum eldri. Merkilegt hvað fólk er hvert öðru líkt hugsaði ég og vandaði mig við að glápa ekki á hann. Það var ekki fyrr en hann heilsaði mér sem rann upp fyrir mér að hann var ekki líkur neinum nema sjálfum sér, ég hafði bara ekki séð hann í 12 eða 13 ár.