Rún dagsins er Vend

Vend er happarúnin, sú sem vendir böli í gæfu og kallar fram gleði, skemmtun og nýjar hugmyndir. Vend er skemmtilegasta rúnin og í galdri er hún notuð til að bæta úr slæmu ástandi og kalla fram heppni sem hvetur mann til dáða. Ekkert illt hlýst af notkun hennar.

Í rúnalestri táknar Vend að erfiðleikaskeiði er að ljúka eða nýtt og skemmtilegt tímabil að hefjast. Einnig getur hún boðað óvænt happ fremur en varanlega gæfu. Spyrjandinn ætti að vera opinn fyrir þeim möguleika að happ sem í fyrstu virðist ómerkileg tilviljun sé fyrirboði um hrinu heppilegra tilviljana sem hann getur nýtt til góðs.

Rún dagsins er Gjöf

Gjöf er mesta gæfurúnin í norræna rúnarófinu. Í galdri er húr notuð til að kalla fram gæfu í hverskyns aðstæðum og sér í lagi í samskiptum. Gjöf er rún ástar, vináttu og þakklætis og alltaf er óhætt að nota hana í galdri því útilokað er að gera neitt illt með því hugarfari sem hún táknar.

Í rúnalestri táknar Gjöf að spyrjandinn á von á góðu. Hún getur falið í sér vísbendingu um að það sé spyrjandanum til mikillar gæfu að sýna örlæti og vinarhug. Þakklæti er einnig tengt rúninni. Í víkingasamfélaginu táknaði það gagnkvæma hollustu að færa einhverjum gjöf og er Gjöf einnig tákn giftingar og góðra viðskipta.

Rún dagsins er Kaun

Kaun er rún erfiðleika og sársauka. Í galdri er hún notuð til hefndar en eins og títt er um forneskju er hætt við að það bitni verst á norninni sjálfri og því mælt með að leita frekar annarra ráða til að jafna metin, sé þess þörf.

Í rúnalestri tákar Kaun að spyrjandinn geti búist við erfiðleikaskeiði þar sem reynir á þolgæði hans og vilja til að takast á við sjálfan sig. Kaun er tákn fæðingarhríða svo mundu að þótt sársaukinn geti virst óbærilegur verður engin fæðing án hríða. Heilmikill sköpunarkraftur er falinn í rúninni fyrir þann sem lærir af reynslunni.

Rún dagsins er Reið

Reið er rún ferðalaga og ævintýra. Í galdri er hún notuð til að finna ný og spennandi tækifæri og efla hugarflug og sköpunargleði. Eins er hún notuð til verndar í óvæntum og ískyggilegum aðstæðum. Reið er engin stöðugleikarún og varfærni er þörf við notkun hennar.

Í rúnalestri táknar Reið að spennandi tímar séu framundan. Allt getur gerst, svo það hvernig til tekst og hvaða þætti þarf að varast er komið undir því hvaða rúnir koma upp með henni. Reið gefur engin fyrirheit um að ferðalagið verði auðvelt en víst er að spyrjandanum mun ekki leiðast á þeirri ferð.