Sé ekki fram á

Sé ekki fram á að blogga af neinum krafti á meðan ég er í þessari vélsmiðjuvinnu. Það er reyndar stórfínt að komast í smá hamagang um tíma, veitir ekki af að koma hreyfingu á blóðið. Auðvitað er svona vinna í eðli sínu leiðinleg en það er ákveðin hvíld í því að hlaupa í eitthvað sem er hægt að gera hratt og krefst engrar vitrænnar hugsunar og maður finnur ekki fyrir því hvað þetta er gelt og firrt þegar maður veit að þetta eru bara nokkrar vikur. Svo erum við Sigrún líka svo helvíti fínar saman að karlmennin hafa ekki við okkur þannig að með aðrar eins valkyrjur gæti þetta jafnvel tekið ennþá styttri tíma en reiknað er með.

Ég er búin að koma heimasætunni í skóla, hún byrjaði í dag og líst bara vel á sig.

Fríið búið

Snúin heim frá fyrirheitna landinu þar sem ég dvaldist í góðu yfirlæti um páskana, að vísu ekki í bleikum kastala heldur rauðu múrsteinshúsi í útlandasveitinni. Og nú hefur fjölgað í fjölskyldunni. Ekki svo að skilja að Byltingamaðurinn hafi keypt sér silkiterríer, heldur flutti ég heimasætuna í Hullusveit með mér til föðurlandins. Og hún er sko enginn silkiterríer þótt hún sé hættulega falleg. Á morgun ætla ég að fara með hana til lýtalæknis og láta græða stórt kýli á nefið á henni.

Gæludýrapæling

Eftir nokkra klukkutíma legg ég af stað til systur minnar sem býr í útlandinu, að vísu ekki í bleikum kastala en allavega í loftkastala. Hef ekki séð hana í heilt ár og það er alltof langur tími því hún er ein þeirra fágætu sálna sem ættu að vera á launum fyrir að vera yndislegar.

Sonur minn tröllavinurinn ætlar að halda matarboð fyrir nokkra aðra tröllavini að mér fjarstaddri og segir mér svo hugur um að mannaþefur verði í helli mínum fram yfir páska. Ég bind þó vonir við að matgæðingurinn verði búinn að taka til í herberginu sínu þegar ég kem aftur og helst vildi ég að hann yrði líka búinn að verða sér úti um silkiterríer með bleika slaufu. Vera má að það séu meiri óþrif af smáhundum en kærustum en ef hvolpur fæðist yrði einfaldara að takast á við foreldra kjölturakkans en kærustunnar. Mamma Sykurrófunnar þolir ekki tröllavininn og ég býð ekkert í vesenið ef þau taka upp á því að fjölga mannkyninu.

Ég hef aldrei átt smáhund og er að vona að sonur minn fái sér einn svo ég geti kynnst svoddan kvikindi án þess að bera ábyrgð á því. Ég átti reyndar einu sinni stóran íslenskan hund. Á sama tíma átti ég lítinn, mjúkan mann og hann fór ekki nærri eins mikið úr hárum og hundurinn. Hann hljóp heldur aldrei geltandi á eftir köttum sem verður líka að teljast kostur og þegar hann stakk af lokaði hann á eftir sér en það gerði hundspottið ekki. Á hinn bóginn kom hundurinn alltaf aftur.

Ég er annars að verða vitlaus á þessari eilífu ástleitni Leníns. Hann hreinlega lætur mig ekki í friði. Er stöðugt að róta í hárinu á mér, narta í augnlokin og tísta í eyrun á mér. Hann reynir m.a.s. að elta mig á klósettið. Fyrir nú utan óþrifin af þessu. Það verður reyndar að viðurkennast að það kemur fyrir að Pysjan þrífur eftir hann óbeðinn. Engin hætta á að það fari fram hjá manni því til að tryggja að maður taki eftir afrekunum snýr hann nokkrum af postulínsbrúðunum mínum til veggjar þegar hann er búinn að þurrka af. Versta helvíti hvað páfagaukar lifa lengi og jafnvel þótt hafi komið fyrir að við gleymum að loka glugga, virðist hann ekki haldinn minnsta votti af því karlmennskuheilkenni að láta sig hverfa.

Váá

Hlutirnir þróast stundum á annan hátt en maður ætlaði. Þegar ég hóf þessa sápuóperu ákvað ég að hafa bara tengla á þá sem koma við sögu og annað sem ég sjálf skrifa. Það hefur ekki alveg gengið eftir og ég er komin að þeirri niðurstöðu (allavega í bili) að þessi stefna mín sé alls ekki sniðug nema þeir sem koma við sögu bloggi eins og vindurinn.

Ég hef haft tengla á annað efni frá mér en hef ekki hugmynd um hvort einhver les það en auk þess hef ég ekki verið dugleg að uppfæra þær síður. Ákvað að taka þá tengla út en setja þá frekar inn aftur þegar er eitthvað nýtt að sjá þar. Halda áfram að lesa

Skrýtið

-Myndirðu flokka það sem pervasjón að bíta? spurði Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni.
-Ætli það fari nú ekki eftir samhenginu. Það er tiltölulega saklaust að natra í öxlina á konunni þinni með upplýstu samþykki hennar en ef þú t.d. stundar það að koma aftan að gömlum körlum í Kringlunni og glefsa grimmdarlega í rassinn á þeim, þá ertu að ofbjóða velsæmiskennd annarra og svoleiðis gerir maður ekki. Halda áfram að lesa

Vinur minn næringarfræðingurinn

-Hvort ætti ég að hafa bakaðar kartöflur eða franskar? sagði ég.
-Það fer eftir því hvort þú vilt að börnin þín nái fertugu eða hvort þér finnst þrjátíu og fimm ára alveg nóg, sagði Endorfínstrákurinn og bætti því við að ef hann tæki einhverntíma þá ákvörðun að svipta sig lífi, ætlaði hann að gera það með því að vera í mat hjá mér í 3 vikur. Halda áfram að lesa

Uppfinningamaðurinn kom í heimsókn

Uppfinningamaðurinn kom í heimsókn í dag, með konfekt. Þar með eru báðir vinnuveitendur mínir búnir að gefa mér konfekt á sama sólarhringnum. Ætli sé í gangi samsæri um að fita mig?

Fékk upphringingu frá eldgömlum elskhuga sem bað mig um að lesa fyrir sig próförk. Það kom mér ekki á óvart. Átti von á að hann færi að hafa samband hvað úr hverju. Hef ekki fengið handritið afhent ennþá en hef á tilfinningunni að feli í sér einhverskonar skilaboð. Þótt við eigum ekkert óuppgert. Sumt fólk verður alltaf á einhvern hátt hluti af lífi manns líkt og uppistöðuþáttur í vef. Maður getur skipt út efni, lit og mynstri en allt sem maður spinnur við líf sitt vefst um þessa sömu, fáu þætti sem ráða örlögum manns. Það er tilgangslaust að hafa skoðun á þeim og útilokað að klippa þá frá.