Skrýtið

-Myndirðu flokka það sem pervasjón að bíta? spurði Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni.
-Ætli það fari nú ekki eftir samhenginu. Það er tiltölulega saklaust að natra í öxlina á konunni þinni með upplýstu samþykki hennar en ef þú t.d. stundar það að koma aftan að gömlum körlum í Kringlunni og glefsa grimmdarlega í rassinn á þeim, þá ertu að ofbjóða velsæmiskennd annarra og svoleiðis gerir maður ekki.
-Þetta snýst semsagt um velsæmiskennd?
-Já. Er það ekki? Hvað ertu að hugsa um?

-Stelpa sem vinnur með mér beit mig um daginn. Í hálsinn. Dálítið fast. Hún gaf þá skýringu að henni þætti gott að bíta. Mér fannst þetta rosalega skrýtið en það særði velsæmiskennd mína ekki rassgat.
-Hefurðu yfirhöfuð velsæmiskennd?
-Já og tek því illa ef henni er misboðið en ég er ekki viðkvæmur. Er svona að pæla í því hvort ég sé kannski óeðlilega laus við að vera viðkvæmur eða hvort þetta var bara ekkert perr, heldur eitthvað annað.
-Varstu sáttur við það?
-Ég fékk ekkert kikk út úr því en mér fannst heldur ekkert eins og hún væri að áreita mig. Í alvöru.

-Myndirðu láta það viðgangast að hún gerði þetta fyrir framan konuna þína?
-Ég? Ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Það myndi enginn gera neitt þessu líkt fyrir framan hana.
-Þá geturðu miðað við það. Það sem fólk þorir ekki að gera fyrir framan maka þinn er ekki í lagi.
-Ef út í það er farið þá þora stelpur ekki einu sinni að tala við mig fyrir framan hana svo þetta er nú ekki skotheld regla.
-Ókei, ef þér finnst það skrýtið þá er það sennilega rétt hjá þér. Maður gerir bara einfaldlega ekki eitthvað skrýtið.

Þá horfði hann á mig andartak, settist svo niður og öskraði af hlátri.
Ég hef á tilfinningunni að honum finnist ég vera eitthvað skrýtin.