Eldsnemma að morgni

Klukkuna vantar 20 mínútur í 7 á laugardagsmorgni og ég er á leiðinni á Nesjavelli. Ekki skrýtið að fólk haldi að ég sé galin. Ekki nóg með að ég ætli að eyða laugardeginum, þessum eina í vikunni, við að skrúfa saman hommarör (hvað sem það nú er) heldur ætla ég líka að hætta lífi mínu með því að sitja í bíl með Sigrúnu. Ojæja einn laugardagur Mammoni til heiðurs og hinum fríða flokki karlmanna sem er vistaður þarna uppfrá til yndisauka er víst ekkert óyfirstíganlegt.

Ég er búin að komast að því hvað varð um ostinn minn. Þarf bara að yfirstíga eina hindrun svo ég komist til að sækja hann en það er ekki bara verkefni heldur raunveruleg hindrun. Samkvæmt Brian Tracy er hindrun víst öruggt merki þess að maður sé á vegi velgengninnar. Það er kannski bull í kallinum en ég ætla allavega að hafa það.

Er að bíða eftir henni

Í gær uppgötvaði ég ákveðna fordóma hjá sjálfri mér. Ég á kunningja, sætan strák sem ég vissi ekki betur en að væri algjör drusla. Auk þess er hann alki svo það er engin hætta á að ég verði ástfangin af honum. Hann var þessvegna um hríð ofarlega á lista yfir þá fjölmörgu karlmenn sem ég hafði í hyggju að forfæra en fyrst dróst það sökum anna og svo komst ég að því að hann var ekki nærri jafn vitlaus og hann leit út fyrir að vera. Það varð til þess að ég lagði plön mín um að táldraga hann til hliðar, ég hef það nefnilega fyrir reglu að sofa aldrei hjá neinum sem hefur ekki fallið á greindarprófi. Nema náttúrulega að ég ætli að giftast honum, þá má hann slaga upp í meðalgreind en samt ekki vera klárari en ég. (Enda sjaldan nokkur hætta á því og er ég þó mun vitlausari en ég lít út fyrir að vera) Undantekningin er doktorsnefnan sem hefur aldrei viljað mig, hann er miklu klárari en ég en ég myndi samt alveg giftast honum. Af því ég veit að hann verður góður við konuna sína. Halda áfram að lesa

Passa þig

-Mig vantar leikfélaga, strák til að spila skrabbl og fara með mér í leikhús og á myndlistarsýningar og svoleiðis.
-Varstu ekki búin að finna einhvern?
-Hélt það kannski jú en hann hefur aldrei samband að fyrra bragði. Sennilega hræddur við mig.
-Ég er ekki hræddur við þig.
-Ég veit, afhverju heldurðu að ég sé að hringja?
-Þú ert hinsvegar hrædd við mig.
-Glætan. Nenni bara engu rugli og þú ert ekki jafnoki minn í skrabbli.
-En hvað? Allt er hey í harðindum?
-Þeir fiska sem róa.
-Við erum góð. Ættum að gefa út málsháttabók. Halda áfram að lesa

Auglýsing

Hér með auglýsist:

Vegleg laun í boði handa hverjum þeim sem vill taka að sér að myrða helvítis páfagaukinn (hvern ég hata), gangast við morðinu og baka sér þannig ævilanga óvild sonar míns (hvern ég elska og vil helst ekki að flytji úr móðurhúsum sökum morðæðis móður sinnar áður en hann útskrifast úr grunnskóla).

Daylight come and we wan’ go home

Úlnliðirnir á mér eru svo aumir að ég get ekki einu sinni pikkað á lyklaborðið án þess að verkja upp í olnboga, auk þess kvefuð og hef gengið á íbúfeni og norskum brjóstdropum síðustu daga. -Þetta var sjálfsvorkunn vikunnar, þá er það afgreitt.

Plastið er rafmagnað. Fyrstu dagana vorum við líkust stjörnuljósum en svo lagðist Sigrún í eðlisfræðirannsóknir og síðan hefur hún vökvað smiðjugólfið reglulega. Neistaflugið er minna, en þegar sjúkraliðinn mætir með slegið hár, rís það líkt og strákústur upp í loftið þegar hún lyftir böggunum. Halda áfram að lesa

Afturbati?

-Hvernig stafsetur maður Krókháls? spurði Haffi og stakk pennanum í annað munnvikið.

Andartak hélt ég að hann væri að reyna að vera fyndinn en ráðaleysið í svipnum var ekta og hann ER skelfilegur í stafsetningu.
-Eins og það er sagt. Með stóru kái… sagði ég án þess að gera mér almennilega grein fyrir því hverju hann væri að fiska eftir. Halda áfram að lesa