Hollráð um sölumannstækni

Ég held að það vanti eitthvað inn í tilfinningaskalann hjá mér. Er það ekki merki um að maður sé að verða of raunvísindasinnaður þegar stefnumót verður hvorki fugl né fiskur og maður lítur svo á að enn einn vinudagurinn sé búinn og nú sé pása til morguns.

Ef maður fer heim án væntinga, án gleði ekki með neitt dramakast í farteskinu heldur og segir sjálfum sér að í allri sölumennsku megi gera ráð fyrir að fá 9 nei á móti einu jái og því sé algerlega óréttlætanlegt að fara í fýlu yfir kærastaleysi fyrr en maður er búinn að fá 9 nei, jafnvel fleiri ef duttlungafullar fyrrverandi hjásvæfur eru í úrtakinu; Halda áfram að lesa

Skírlífur, Eilífur og Saurlífur

Vinur minn Skírlífur hefur bara ekkert haft samband. Kannski heldur hann að ég sé ekki þessi eina sanna. Ojæja, hann hefur frest alveg fram á miðvikudag greyskinnið, af því að hann er yngstur og fallegastur af þessum fjórum sem fylla markhópinn.

Eilífur hringdi hinsvegar á slaginu 9:30 í gærmorgun og vildi fá að vita hversvegna hann væri í úrtakinu.
-Af því að þú tilheyrir þeim fámenna hópi einhleypra karla sem er hvorki á framfæri Félagsþjónustunnar né í sárum eftir síðasta samband, svaraði ég og það virtist falla í kramið því hann bauð mér út að borða í kvöld. Halda áfram að lesa

Frí

Sunnudagur og ég er í fríi. Næstum búin að gleyma hvernig það er. Svaf út í morgun, alveg til 7:30 og sökum ofvirkni minnar tók ekki nema 5 klst að þrífa íbúðina. Herbergi yngissveinsins er að sjálfsögðu undanskilið enda húsagaþátturinn Allt í drasli á dagskrá sjónvarpsins í kvöld og standa vonir til að snertirinn hræði drenginn til að moka aðeins undan rúninu og ofan af hillunum. Halda áfram að lesa

Hjálpsamur yfirmaður

Eigandinn setti upp geiflu sem var einhversstaðar miðja vegu milli glotts og kátínubross þegar við hittumst á Nesjavöllum í gær. Kvaðst hafa lesið bloggið mitt og bauðst til að útvega mér nokkur símanúmer.

Ég veit nú ekki alveg hvort maður á að stóla á árangur af því. Eða hvernig hljómar þetta:
-Sæll Gísli/Eiríkur/Helgi, Eva heiti ég. Yfirmaður þinn las á blogginu mínu að ég væri að leita að fallegum hálfvita og gaf mér símanúmerið þitt. Ég var svona að velta fyrir mér hvort þú hefðir áhuga á að mæta í viðtal.

Allt í drasli

Ég ætlaði eiginlega að fagna þessum fyrsta frídegi frá páskum með því að gera ekkert af viti en sé ekki alveg fram á að það gangi upp. Ég hef tekið eftir því að á meðan ég er að heiman vex þvottur í óhreinatauskörfunni og tölvan mín dregur ekki að sér ryk eins og aðrar tölvur, heldur framleiðir hún það. Spurning hvort sé ekki hægt að græða eitthvað á því, stofna rykgerðina ehf.

Þegar Darri var lítill þurfti ég aldrei að ryksuga. Hann var nefnilega alltaf skríðandi í gólfunum og hann átti flíspeysu sem hann var mjög hrifinn af og hún dró að sér öll hundahárin og rykið. Á tímabili stofnaði ég fyrirtæki í kringum hann. Það var fyrirtækið Hárfinnur ehf. Darri var eini starfsmaðurinn og hafði ég töluverðar aukatekjur af því að leigja hann út. Svo kom fulltrúi barnaverndarnefndar í heimsókn og benti mér á að það samræmdist ekki samþykktum EES að láta börn skríða í gólfunum og draga að sér ryk og gæludýrahár í hagnaðarskyni. Fulltrúinn skipaði mér líka að þvo peysuna. Þá grét Hárfinnur og úrsurðaði peysuna ónýta. Síðan hef ég þurft að ryksuga sjálf og það í frítíma mínum. Svona er lífið erfitt.

Fuglasöngur

Mikið er nú dásamlegt að vakna við fuglasöng í stofunni. Sérstaklega eru það þessi háu, hvellu hamingjuóp sem gleðja mig. Ég er að hugsa um að leyfa reykingar inni hjá mér í von um að helvítið fái lungnakrabba.