Skírlífur, Eilífur og Saurlífur

Vinur minn Skírlífur hefur bara ekkert haft samband. Kannski heldur hann að ég sé ekki þessi eina sanna. Ojæja, hann hefur frest alveg fram á miðvikudag greyskinnið, af því að hann er yngstur og fallegastur af þessum fjórum sem fylla markhópinn.

Eilífur hringdi hinsvegar á slaginu 9:30 í gærmorgun og vildi fá að vita hversvegna hann væri í úrtakinu.
-Af því að þú tilheyrir þeim fámenna hópi einhleypra karla sem er hvorki á framfæri Félagsþjónustunnar né í sárum eftir síðasta samband, svaraði ég og það virtist falla í kramið því hann bauð mér út að borða í kvöld.

-Ég er bara að hugsa um að kynnast þér betur, ekki neina rómantík takk svo við þurfum ekki að gera neitt sem kostar mikið, viltu ekki bara koma heim í kaffi, sagði ég.
Hann sagðist ekki viss um að sér litist almennilega á það fyrst hjónabandssælan væri búin og þótt ég byðist til að steikja ástarpunga vill hann samt frekar fara út.

Þá er það sumsé ákveðið, ég er að fara út með karlmanni sem er svosem eilíflega til staðar þótt ég hafi ekki haft samband við hann árum saman og ekkert reynt að kynnast þótt hann sé á allan hátt frambærilegur. Stundum dettur mér í hug að ég geti kennt andvaraleysinu í sjálfri mér um einlífi mitt. Það er samt ekkert ákveðið annað en það að við ætlum að borða saman og þar sem ég ætla að viðhafa vísindalega aðferð, hringdi ég líka í mann sem áður hefur komið hér við sögu. Til hagræðingar og uppá skemmtanagildið mega lesendur ímynda sér að hann heiti Saurlífur.

Saurlífur er „hustler“ sem er stöðugt að þykjast vera „drifter“ af því að hann heldur að það sé eitthvað virðingarverðara. Hann er sennilega það heilbrigðasta sem ég hef sofið hjá og sýnir það standad minn í þeim efnum í hnotskurn. Enda þótt við eigum sýnilega fátt sameiginlegt fannst mér sjálfsagt að hafa hann í úrtakinu (það er ekki svo stórt) því það verður að viðurkennast að sá tími sem við höfum varið saman hefur ekki farið í sérlega djúpar og einlægar samræður svo rökfræðin segir mér að líklega sé enn eitthvað ókannað og áhugavert í fari hans. Hárið á honum vex ennþá út úr hausnum en ekki eyrunum og þótt hann sé haldinn þeirri fötlun að vera karlmaður svona almennt, er hann hvorki alkólisti né heimskingi og svo er hann sætur og það telur, á barn og það er stórt atriði.

Saurlífur er einn af mínum tryggustu lesendum held ég. Hann var alveg með erindið á hreinu og sagði mér, ekki beint í vingjarnlegum tón en þó ekki fjandsamlegum heldur (meira svona nöldurtón) að fara til Andskotans. Ég sagði honum þá að hjá því sataníska kynþokkaknippi væri ekkert í boði sem ég hefði ekki þegar fengið hjá honum en Kölski væri þó skrárri að því leytinu að hann hefði látið það ógert að senda mér ósmekkleg sms skilaboð á Valentínusardag. Við það koðnaði Saurlífur niður, sagði að mér væri velkomið að verma bæli hans ef ég vildi en hjónabandssæla væri ekki í boði.

-Ég var nú ekki að hugsa um flytja inn. Var meira svona að velta því fyrir mér hvort væri grundvöllur fyrir vináttu, sagði ég.
-Hrmpff! sagði Saurlífur fýlulega.
Ég sagði honum að ég yrði laus á fimmtudagskvöldið, til viðtals en ekki bólfara og gaf honum frest fram á mánudagskvöld til að taka boðinu eða hafna því. Hann hringdi ekki.

Þá er bara einn úr markhópnum sem ég á eftir að hafa samband við. Mun vonandi grafa upp íverustað hans í dag. Ég ætlaði reyndar að hafa Tollheimtumanninn í úrtakinu líka því hann er sannkallað góðmenni en ég sé ekki fyrir mér að markmið mitt um að finna allar löglegar leiðir (sama hversu ósiðlegar þær eru) til að komast hjá skattgreiðslum, myndu falla í kramið hjá manni sem hefur atvinnu af því að pína fólk til að greiða skattana sína. Auk þess myndi hann aldrei afbera blogggleði mína.