Hollráð um sölumannstækni

Ég held að það vanti eitthvað inn í tilfinningaskalann hjá mér. Er það ekki merki um að maður sé að verða of raunvísindasinnaður þegar stefnumót verður hvorki fugl né fiskur og maður lítur svo á að enn einn vinudagurinn sé búinn og nú sé pása til morguns.

Ef maður fer heim án væntinga, án gleði ekki með neitt dramakast í farteskinu heldur og segir sjálfum sér að í allri sölumennsku megi gera ráð fyrir að fá 9 nei á móti einu jái og því sé algerlega óréttlætanlegt að fara í fýlu yfir kærastaleysi fyrr en maður er búinn að fá 9 nei, jafnvel fleiri ef duttlungafullar fyrrverandi hjásvæfur eru í úrtakinu;

ef ég bæti því svo við að þar sem ég sjálf geti (miðað við að ég sé meðaljónína) reiknað með að gefa 10. hverjum af vænlegum kostum séns, geti ég reiknað með að þurfa að hitta 100 menn áður en til verður þetta 10 manna úrtak karla sem gætu haft áhuga á mér og þar af megi reikna með einum sem höfðar til mín;

ef ég hugsa svona, er það þá ekki sölumannshugsun? Er það að spyrja karlmann hreint út hvort hann vilji athuga möguleikann á nánu vináttusambandi og „afgreiða“ hann eftir viðbrögðum hans, er það ekki einmitt sölumennska?

Jú. Þetta er nefnilega allt saman sölumennska. Hann Eilífur útskýrði fyrir mér í kvöld hvar feill minn lægi. Í stuttu máli var merkingin þessi:

Allt lífið snýst um kaup, sölu og markaðssetningu. Það er raun ekkert rangt við sölumannsviðhorfið hjá mér, bara aðferðin sem virkar ekki. Segir Eilífur allavega. Tilvonandi kúnni má nefnilega helst ekki átta sig á því að þú sért að reyna að hafa áhrif á hann, fá hann til að kaupa eitthvað af því að þú viljir græða eitthvað á því. Hann á að halda að þú bjóðir honum vöru eða þjónustu af einskærri velvild við hann sjálfan af því að hann sé svo æðislegur. Helst áttu aldrei að þurfa að bjóða honum það sem þú ert að selja. Hann á að rekast á auglýsingar eins og fyrir tilviljun, sannfærast um að hann vanti hið auglýsta og koma til þín og biðja um það af fyrra bragði.

Mundu að fólk er fífl og það hættir við að kaupa hluti og þjónustu sem það vantar (þótt það vanti sárlega) ef það áttar sig á því að seljandinn vill fá kaupanda, þarfnast kaupanda og vill selja þér, af því þú átt eitthvað sem hann vantar, í flestum tilfellum peninga. Það er svo sterkt í mannseðlinu að verða hræddur um að það sem þú lætur af hendi sé dýrmætara en það sem þú færð í staðinn. Auk þess vantar fólk ekki helminginn af öllu sem það kaupir. Fólk kaupir hamingju. Ekki reyna að selja kúnnanum kók, seldu honum hamingju.

Ástin er söluvara eins og allt annað og eins og með vöru og þjónustu verðum við að höfða til dýpri þarfar, selja hamingju. Gættu þess að segja aldrei við viðföng ástaróra þinna eitthvað á borð við; það er fullt af allskonar dásamlegu í mér sem ég vil sýna þér og ef ég má gefa þér eitthvað af því vil ég fá í staðinn eitthvað af þessu dásamlega sem ég sé í þér. Ef þú gerir þetta heldur viðfangið að þú ætlir að selja því eitthvað, troða einhverju sambandi upp á það gegn vilja þess, ræna það tilfinningalega. Þú ætlir að nota það sem þræl og banna því að borða óhollan mat eða vera í druslulegum fötum og að það eina sem það fái í staðinn sé kynlíf tvisvar í viku ef þú ert ánægð. Þú verður líka að gera þér grein fyrir að flestir kaupendur eru konur þótt karlar séu oft greiðendur. Karlar eru því óvanir að velja það sem þeir kaupa og fara oft þá leið að láta næstu konu bara velja fyrir sig. Það er ekki víst að hann hafi ekki áhuga á þér þótt hann sýni litla framtakssemi. Sennilega er hann að bara að bíða eftir að mamma hans, vinkona eða einhver önnur kona taki ákvörðun um að hann eigi að kaupa þig. Hann er svo vanur því sjáðu til.

Ef þú ætlar að verða þér úti um mann, verður þú að markaðssetja sjálfa þig sem tákn fyrir hamingju hans. Og það gerirðu með því að hugsa út frá sjónarhóli kúnnans/mannsins. Hvernig eru karlmenn og hvað vilja þeir? Hverjar eru frumstæðustu hvatir þeirra? í hverju felst hamingja þeirra?

Karlmenn eru:
a) veiðimenn.
Til að spila inn á þann þátt og gera manninum grein fyrir því að hann vanti í rauninni bráð, skaltu vera svona á tilgangslitlu vakki í kringum hann sem oftast og alls ekki gefa honum mikinn gaum, hann þarf á fá kikkið við að halda að hann hafi náð í veiðibráð en ekki hafa á tilfinningunni að hann sé lentur í sölumanni.
Ef hann er uppburðarlítill eða latur að eðlisfari má auka kjark hans og veiðigleði með því að gera eitthvað sætt og svolítið fíflalegt. Dæmigerður karlmaður verður t.d. alveg eins og hundur í „sækja spýtu“ leiknum þegar hann sér konur borða bleikt og gult dísætt nammi, ganga í öklasokkum með mynd af sætum kisum og flissa eins og smástelpur þegar hann birtist. Það er þessvegna sem þeir reyna mest við ungar stelpur, þær eru ennþá nógu spenntar fyrir karlmönnum til að nenna að spila sig heimskari en þær eru og enn ekki búnar að átta sig á því að leikurinn snýst í raun ekki um að hafa spýtuna heldur það að eltast við hana.

b)kynverur.
Karlar hugsa með kynfærunum. Konur gera það reyndar líka en konur geta hugsað um svo marga hluti í einu. Það geta karlar ekki og þessvegna er auðvelt að hafa áhrif á dómgreind þeirra og fá þá til að gera eitthvað mjög heimskulegt t.d. að eignast barn, fara í sambúð eða kaupa dýra hluti gegn vilja sínum með því einu að fylla höfuð þeirra af kynferðislegum hugsunum. Það er ekki af neinni tilviljun sem konur ráða 80% allra fjárfestinga fjölskyldunnar í stóru sem smáu. Til að stjórna karlmanni fullkomlega þarf því ekkert annað en að kveikja á kynlífshugsunarstöðinni og nota hana til að draga athygli frá þér eða fá samþykki mannsins fyrir einhverju bulli með því að nota kynlíf sem gulrót. Þar sem karlar eru almennt ekki beinlínis heimskir heldur bara dálítið takmarkaðir, hafa margir þeirra áttað sig á þessu. Þeir hafa þegar tapað heilmiklu á þessum veikleika sínum og eru því á varðbergi gagnvart kvenlegum klækjum. Þessum mönnum þýðir ekkert að ætla að stjórna með því að bjóða drátt. Þar sem þrá og ótti eru sterkustu hvatir mannsins, er miklu auðveldara að hafa áhrif á þá með því að gefa til kynna hvað þeir gætu hugsanlega fengið einhverntíma seinna þegar þeir eru búnir að vinna til þess. Ef þú býður honum kynlíf af fyrra bragði missir maðurinn sennilega áhugann nema hann haldi að hann sé að gera þér greiða og menn sem halda að þeir séu búnir að vinna fyrir verðlaununum sínum, geta sagt nei og svissað yfir á aðra stöð ef þeir eru viðbúnir. Svona eru þeir nú agaðir. Þeir verða í þessu sem öðru að halda að þeir eigi hugmyndina sjálfir, enda spilar veiðimannseðlið líka inn í.
Til þess að fá manninn til að gangast undir skuldbindingar gagnvart þér, verðurðu að gæta þess að hann hugsi ekki um böggið og kröfurnar sem fylgja sambúð, heldur aðeins og eingöngu um það klámmyndalíf sem bíður hans ef hann geri bara allt eins og þú vilt. Til að tryggja þetta skaltu halda áfram vappi þínu í námunda við hann (mundu áhrifamátt endurtekningarinnar í auglýsingum)gera af og til eitthvað fíflalegt svo hann haldi að þú sért nógu mikill bjáni til að hann eigi séns í þig og jafnframt viðhalda sívirkni klámstöðvarinnar í heila hans með því t.d. að ganga á háum hælum, í stuttu pilsi og fylltum brjóstahaldara, gefa honum ástríðuþrungið augnaráð og reka upp smáskræki með flissívafi sem merkja „ííí, hvað þú ert grófur en þú ert nú samt svo fyndinn að ég gæti bara orðið til í tuskið ef við byggjum saman en ég skal samt alltaf láta mömmu þína halda að mér finnist þetta einum of dónó“ til merkis um að þú sért í raun hin mesta lostabykkja en munir þó halda því leyndu fyrir umheiminum, honum til heiðurs af því að hann sé svo æðislegur.

c)tilfinningaverur
Karlmenn eru alveg jafn miklar tilfinningaverur og konur en kannski hafa þeir ekki eins gaman af því að ræða þær. Þótt ótrúlegt megi virðast felst hamingja karlmanna ekki í kynlífinu heldur í tilfinningalegu jafnvægi. Tilfinningalegt jafnvægi beggja kynja felst í réttum hlutföllum af öryggi og spennu og umfram allt þeirri hugmynd að þú sért eitthvað. Hégómagirnd manneskjunnar er það sem heldur henni gangandi. Ef fólk hættir að trúa þeirri firru að það sé betra, skemmtilegra, fallegra, þroskaðra, klárara, ríkara eða bara einhvern andskotann -ara á nokkrum sviðum og helst meðal þeirra -ustu eða -astu, bestu eða mestu á allavega einu sviði, verður það óhamingjusamt og fær aumingjasjúkdóma. Það er þessvegna sem svo margir líta í spegilinn á morgnana og segja „ég er frábær“. Að vísu eru einhverjir nógu miklir fábjánar til að trúa því en flestir setja lygaramerki á tærnar og hafa þetta yfir eins og skyldubæn af tómri skynsemi. Hugsa sem svo „ég er náttúrulega alveg sami plebbinn og systkini mín og vinir en eina leiðin til að verða einhverntíma eitthvað meira en skítaklessan í næsta húsi er sú að trúa því sjálfur (ekki gera aðrir það svo mikið er víst), best að fara með heilaþvott dagsins og kyngja lyginni, vííí! ég er frábær!“

Þar sem karlmenn eru sömu fávitarnir og við; að halda að það rýri eitthvað manngildi þeirra ef þeir eru ekki eitthvað -ari, þurfa þeir stöðugt klapp á bakið, hrós og verðlaun til að halda hamingju sinni. Mundu að þar sem karlmaðurinn er stöðugt að hugsa um kynlíf (stundum af þínum völdum)og getur ekki hugsað um tvennt í einu, er útilokað að hann ráði við það að vera stöðugt að ljúga því að sjálum sér að hann sé frábær, eða amk pínulítið -ari.
Og þarna erum við komnar með lykilinn að því hvernig á að ná sér í mann. Leyfðu honum að eltast við þig, vertu hóflega heimskuleg, óhóflega sexý og segðu honum í sífellu að hann sé -ari. Einnig er gott að mæna á hann hundslegum aðdáunaraugum sem sannfæra hann um að hann sé æðislegur og þú sért blíð og varnarlaus vera sem hann þurfi að vernda. Þannig verður þú og þá sérstaklega hið kvenlega og kynþokkafulla við þig, tákn þess að hann sé -ari. Þú verður að leyfa honum að vera -ari en þú, nema þá í þeirri kvenlegu listgrein að hengja upp þvott en einnig reyna að telja honum trú um að hann sé -ari en aðrir karlar (það er einfalt því þeir eru yfirleitt tilbúnir til að trúa því). Ef þú beitir þessari sölumannstækni kaupir hann kókið sitt með skuldbindingu og öllu saman. Og ef hann ætlar eitthvað að vera nískur á ástúð og athygli, hluttekningu og ábyrgð, allt þetta sem þú ætlaðir að fá í staðinn; nú þá bara ferðu í joggingbuxur svo hann geti stillt af klámstöðinni í smástund. Eða afhverju heldur þú að konur sem eiga að baki löng og í grunninn hamingjurík hjónabönd gangi í joggingbuxum? Það er nefnilega ástæða fyrir öllu.