Hefndarráð

Frá því að við opnuðum Nornabúðina hef ég ítrekað verið beðin um góða uppskrift af hefndargaldri gegn drullusokkum. Vissulega eru slíkir galdrar til og sjálfsagt að beita þeim ef ástæða er til. T.d. getur hefndargaldur verið hentugur ef viðkomandi kann ekki að skammast sín, þarf sennilega marga mánuði eða ár af ógæfu til að læra það og maður vill ekki eyða orku sinni í að terrorisera hann um lengri tíma. Í slíku tilviki er gott að beita galdri svo maður geti haldið áfram að lifa sínu eigin lífi í vissu um að hann sjái um að refsa sér sjálfur. Halda áfram að lesa

Tvær persónur

Mér þykja karlmenn dæmalaust hrífandi verur. Alveg eins og nykurinn og önnur kynjadýr. Áratugalangar rannsóknir mínar á þessari sérstöku dýrategund hafa leitt mig að ýmsum merkum niðurstöðum um eðli og hegðunarmynstur tegundarinnar en þó eru enn fjölmörg atriði sem ég botna ekkert í.

Eitt af því sem vefst verulega fyrir mér er skilningur karlmannsins á dindli þeim er framan á honum hangir. Flestir menn virðast alls ekki líta á skottið sem líkamshluta, heldur fremur sem sjálfstæðan karakter.

Tungumálið endurspeglar þessa hugsun. Ekki einasta tala karlar um það sem „hann vill“ og það sem „honum finnst“, heldur notum við líka rósamál á borð við Jón á neðri hæðinni, vinurinn, félaginn, (Willie í ensku) o.s.frv. um kynfæri karla en ekkert sambærilegt er almennt notað um kynfæri kvenna.

Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann persónugera handlegginn á sér eða vélindað. Ég hef heldur aldrei heyrt konu ræða um dindilhosu sína eins og hún hefði sjálfstæðan vilja og hugmyndir.

Því spyr ég, fávís konan; hvers vegna tala karlmenn svo oft um sprellann á sér sem sjálfstæðan persónuleika?

Ljóturöskun

Í gær gerðist pínu skrýtið.

Við Darri ákváðum að fara í þrjúbíó og á leiðinni út varð mér litið í spegil en fannst eitthvað undarlegt við andlitið á mér. Ég var smástund að átta mig á því en ég hafði gleymt að mála mig. Samt æptu augnpokarnir ekkert á mig. Ég var semsé í þessari óvenjulegu, eiginlega flippuðu stöðu, að vera ómáluð en samt ekkert ljót. Halda áfram að lesa

Ný klukka – skrýtnir hlutir sem ég fíla og fíla ekki

Nesk skoraði á mig að segja frá einhverjum 5 atriðum sem ég er hrifin af þótt flestir aðrir séu það ekki og öfugt. Mér skilst að þetta sé eitthvað út frá klukkleiknum. Þar sem sápuópera tilveru minnar er þessa dagana of dramatísk til að teljast birtingarhæf (eins og svo oft áður) ætla ég að taka áskoruninni. Halda áfram að lesa

Galdrar virka

Frétti að Húsasmiðurinn væri búinn að ná sér í konu. Ljóta konu og lifaða er mér sagt. Það gleður mig ákaflega mikið.

Ég þarf endilega að fara að losa karlgreyið við bækurnar mínar sem ég hef enn ekki druslast til að sækja. Það er ekki sanngjarnt að nota bókahillur á heimilum annarra í meira en ár. Svo hef ég líka á tilfinningunni að heitkonan eigi rykfallnar Bing&Gröndal styttur sem myndu gjörsamlega rústa samræminu í stofunni hjá honum.

Ég vona að hún eigi kött og þyki heimilislegt að hafa hann upp í rúmi.

Úr engu

Prrr…kalt í dag.

Ekkert að gera í búðinni og Spúnkhildur veik heima. Smábátur flýr kuldann inn í hlýtt hálfrökkur Nornabúðarinnar, horfir á mig fletta spilum og segir mér frá verkefnum sem hann er að vinna fyrir skólann.

Svo þegjum við saman smástund.

-Það er eitt sem ég hef aldrei almennilega skilið, segir hann svo skyndilega upp úr eins manns hljóði, þetta með það hvernig heimurinn varð til úr engu. Hvernig getur hafa verið ekkert?

Ekki hef ég svörin þrátt fyrir 30 ára aldursmun og skeggleysið hindrar hann ekkert í því að skeggræða endaleysu- og eilífðarmálin. Hann er spakur drengurinn en ætli hann eigi ekki eftir að komast að sömu niðurstöðu og flest okkar; að það sé örugg leið til að missa vitið að reyna að finna svörin.

Ástkæra ylhýra

-Ég var að frétta að það gengi svona æðislega vel hjá ykkur.
-Jájá. Við fengum virkilega gott start, fína kynningu í fjölmiðlum.
-Já hvað segirðu. Og eruð þið þá bara að græða á hæl og hnakka?
-Kannski ekki alveg á hæl og hnakka. Meira svona á hæl og fingri.
-Nú? Á maður að segja hæl og fingri? Æ ég er svo vitlaus í þessu.