Eins og við er að búast

Gjaldþrot auðmanna, sem þjóðin öll er pínd til að taka á sig, hefur í för með sér skerta þjónustu. Það fyrsta sem verður skorið niður eru framlög til listsköpunar.  Næst kemur heilbrigðisþjónusta, þá félagsþjónusta og jafnhliða henni íþróttir.

Ýmis önnur menningarstarfsemi, svosem fjárhættuspil, sprúttsala og vændi, mun hins vegar blómstra sem aldrei fyrr. Ég legg til að Þjóðleikhúsinu verði breytt í spilavíti.

mbl.is Litlar líkur á að takist að greiða niður uppsafnaðar skuldir

Það versta sem gæti gerst

Ætli slysavarnarfélagið myndi nú ekki drífa í þvi að skipta um stjórn ef stjórninni hefði orðið það á að valda stórslysi með glannaakstri.

Hvað er svona svakalegt við að efna til kosninga? Það versta sem getur gerst er að þjóðin fái óhæfa ríkisstjórn sem hún treystir í stað óhæfrar ríkisstjórnar sem hún treystir ekki. Eða er einhver verri útkoma möguleg?

mbl.is Kosningar ekki tímabærar

Ég æli á góðmennsku þína Benedikt

Það þarf hvorki stærðfræði- né læknisfræðikunnáttu til að sjá að líkurnar á því að róni brenni inni í yfirgefnu hreysi eru mun minni en líkurnar á því að hann verði úti eða fái allavega lungnabólgu ef hann hefur ekki húsaskjól.

Ástæðan fyrir því að gróðapungarnir sem komust upp með að kaupa Laugaveginn, vilja rífa þessi hús, er ekki umhyggja fyrir útigangsfólki, heldur einmitt sú að þeir vilja hreinsa miðbæinn af fólki sem þeim hugnast ekki.

mbl.is Vill rífa en má það ekki

Endurfjámögnun

Á Íslandi heitir það að skuldsetja sig upp fyrir haus, því virðulega nafni ‘endurfjármögnun’. Fyrir nokkrum árum dreif landinn í því ða endurfjármágna íbúðirnar sínar og losa sig í leiðinni við yfirdráttinn. Helst þurfti þá að nota tækifærið og taka nógu hátt lán til að eiga ‘afgang’ fyrir utanlandsferð eða nýju sófasetti. 3 mánuðum síðar var meirihluti þessa fólks komið með yfirdráttinn í botn aftur.

Nú á að ‘endurfjármagna’ bankakerfið. Eftir höfðinu dansa limirnir svo maður þarf víst ekkert að vera undrandi á fíflagangi landans. Ætli verði afgangur fyrir einhverju aukasukki handa bankastjórum?

mbl.is Djúp kreppa frá 2009 til 2010

Jæja …

„Nokkur ungmenni“ hljóta að hafa verið sérdeilis afkastamikil í kastinu fyrst  er svona mikið verk að þrífa húsið. Ég sá nú reyndar ekki betur en að flestir þeirra sem voru að kasta eggjum og grænmeti væru á þrítugsaldri og þetta voru tugir manns en ekki nokkrar hræður. En moggavefurinn er væntanlega alveg tilbúinn til að taka þátt í sögufölsun.

Þátttakan eykst með hverri viku og er það vel en ekki get ég séð að ráðamenn, hvað þá stjórn Seðlabankans taki það sérstaklega nærri sér þótt þúsundir manna hlusti á ræður á Austurvelli. Það þarf greinilega róttækari aðgerðir til að ríkisstjórnin og aðrir sem hlut eiga að máli, druslist til að axla ábyrgð á ástandinu.

mbl.is Þinghúsið þrifið