Berjumst fyrir mannréttindum fjölskyldunnar

Þetta er sennilega eina fjölskyldan á Íslandi sem ekki getur séð sér farborða en á samt ekki neinn rétt á bótum úr félagslega kerfinu. Það er engin sanngirni í því að Sigurjón sitji uppi með fjölda ómaga, atvinnulaus maðurinn og þurfi að grafa undan sjálfum sér með því að leysa út lífeyrissparnaðinn sinn.

Allir á Austurvöll, krefjumst mannréttinda fyrir bankastjóra og fjölskyldur þeirra.

mbl.is Líkir láni bankastjóra við almenn lífeyrissjóðslán

Ekki nóg að einhver nefnd fái upplýsingar

Það er ekkert annað en sjálfsagt að þeir sem eiga að borga brúsann, þ.e. almenningur í landinu, fái að sjá samninginn og vitanlega ætti að vera þjóðaratkvæðagreiðsla um hann.

Einhverjum finnst kannski að mér ætti að vera sama þar sem ég er hætt að taka þátt í íslenska efnahagsruglinu en synir mínir búa enn á Íslandi og mér finnst frekar súrt til þess að vita að börnin mín og hugsanleg barnabörn geti ekki búið á minni fósturjörð án þess að vera neydd til að borga sukk óviðkomandi skíthæla. Það er lágmark að þeir sem eru þvingaðir til að ábyrgjast skuldir annarra eftir á, fái að vita hvað það er sem annað fólk undirritar fyrir þeirra hönd.

mbl.is Ekki ríkisábyrgð á leynisamning

 

Af hverju rífa þeir ekki húsið?

Þegar lögreglan var send á Vatnsstíginn til að binda endi á pólitíska hústöku, þá hreinlega rifu þeir húsið utan af fólkinu. Væri ekki rökrétt að gera það líka núna? Eða getur verið að lögreglan hafi meðvitað gengið erinda húseiganda við Vatnsstíginn fremur en að það hafi verið nauðsynlegt að eyðileggja húsið?

mbl.is Kallað eftir liðsauka

Íræði við greiðsluvandanum

Hvernig er það úrræði að hneppa fólk í skuldaánauð til lífstíðar? Jú, fólk sem sér fram á að verða húsnæðislaust sér það kannski sem lausn á sama hátt og það er lausn fyrir götubörn á Indlandi að gangast inn á skilmála þrælahaldara til að fá mat og húsaskjól.

Sjálfsagt duga þessi ‘úrræði’ flestum til að halda heimilum sínum. En er það lausn að greiða þegar upp er staðið tífalt verð fyrir íbúðina miðað við verðgildi hennar fyrir hrun, en fá svo lægra verð fyrir hana en hún var keypt á? Mér sýnist það nú frekar vera í ætt við að festast í gildru en að losna. Ég legg því til að ríkisstjórnin hætti að tala um ‘lausnir og úrræði’ á greiðsluvanda heimilanna og tali frekar um ‘festir og íræði’.

mbl.is Aðgerðirnar eru taldar duga flestum

Taktu afstöðu

Einu sinni leit ég á kosningadag sem hátíð. Að fara á kjörstað varð athöfn. Kaffihús á eftir, vakað yfir sjónvarpinu í góðra vina hópi, a.m.k. þar til úrslit þóttu ljós og stundum til síðasta atkvæðis.

Í dag finnst mér þessi dagur frekar standa fyrir blekkingu og undirokun en lýðræði og frelsi. Það er nákvæmlega sama hvað ég kýs eða hvort ég kýs, ég fæ alltaf það sama, valdapýramída, þar sem nokkrir menn faldir á bak við stórfyrirtæki, ríkja yfir fjöldanum og bera svo bara við ‘trúnaði’ þegar Jón almúgi vill fá að vita á hvaða hátt er verið að ráðskast með örlög hans. Það eina sem við getum hugsanlega haft áhrif á, er hverjir sjá um að tilkynna okkur að okkur komi það ekki við hvernig auðlindir landsins séu nýttar og í þágu hverra eða hver gerði hverjum vinargreiða og hvað hann fékk að launum.

Kosningar snúast ekki um það hvernig landinu er stjórnað, heldur hverjir fái að vera háttvirtir þingmenn og hæstvirtir ráðherrar. Að sniðganga kosningar, skila auðu eða ógildu nú eða éta kjörseðilinn, felur ekki í sér afstöðuleysi, heldur afstöðu gegn kerfi sem byggir á valdníðslu stórfyrirtækja, spillingu embættismanna og fáfræði og sinnuleysi almennings.