Lobbi rekinn

Guðmundur Ólafsson er víst ekki lengur velkominn á sorphaug íslenskrar fjölmiðlunar.

Þótt Guðmundur sé algerlega á öndverðum meiði við mig í stóriðjumálum, hef ég metið hann að verðleikum sem einhvern hugrakkasta og sannsöglasta fjölmiðlamann Íslands. En það er svosem ekki við því að búast að fólk sem þorir að viðra óþægilegar staðreyndir falli í kramið. Ég óska Guðmundi til hamingju með að hafa fengið það staðfest að hann eigi ekki heima á þessum vettvangi íslenskra heimskingja.

Álfar

Af hverju er sú mýta að Íslendingar trúi á álfa svona lífseig? Hið rétta er að hátt hlutfall Íslendingar aðhyllist óskilgreindan spíritistma. Þeir skýra undarlegar tilviljanir gjarnan með aðkomu framliðinna en þar sem þeir eru hreint ekki vissir í sinni sök, finnst þeim hroki að fullyrða að það geti ekki allt eins verið álfar eða aðrar náttúruvættir sem eiga í hlut. Það merkir þó ekki að þeir trúi á álfa. Ég efast um að meira en 1% fullorðinna Íslendinga trúi á huldufólk.

Dauðarefsingar

Ég heyri oft það viðhorf að þegar enginn vafi leiki á um sekt einhvers hræðilegs ofbeldismanns og morðingja, þá sé dauðarefsing rökrétt. Enginn er tekinn af lífi í Bandaríkjunum sé talið að minnsti vafi leiki á sekt hans. Því miður þá gerist það samt æði oft að þrátt fyrir að dómskerfið telji sekt manns hafna langt yfir skynsamlegan vafa, er saklaust fólk líflátið. Bara möguleikinn á að það gerist dugar til þess að sannfæra mig um að dauðarefsingar megi aldrei eiga sér stað.

Af hverju er verðbólga?

Ég veit afskaplega lítið um fjármál. Ég veit heldur ekki mikið um dularfull fyrirbæri en veit þó að helsta einkennið sem greinir þau fra öðrum fyrirbærum er einmitt það að vera dularfull, eitthvað sem er illskýranlegt og lýtur ekki röklegum lögmálum.

Um árabil var verðbólgan á Íslandi skýrð með hinni gífurlegu þenslu í efnahagslífinu og ég hélt að ef þensla ylli verðbólgu, þá hlyti samdráttur að valda verðhjöðnun. Það hefur ekki gerst og þykir mér það dularfullt. Verðbólga á hinsvegar alls ekki að vera dularfull. Það ku vera hægt að skýra hana, reikna út og rannsaka og því ætti varla að vera flókið mál fyrir þá sem skilja efnahagsmál að fletta ofan af verðbólgudraugnum.

Getur einhver útskýrt fyrir mér á einfaldan og aulaheldan hátt af hverju er ennþá verðbólga á Íslandi?

Hlerunarmaðurinn fundinn?

Réttarhöldin voru ekki eins spennandi og í Boston Leagal en þó komu athyglisverðir hlutir í ljós. T.d. virðist ófreskigáfa nokkuð algeng meðal varða laganna. Þannig hefur nokkuð hátt hlutfall þeirra lögreglumanna sem gáfu vitnisburð í gær, þann sérstæða hæfileika að vita hvað er að gerast á stöðum þar sem þeir eru fjarstaddir. Allavega treystu ótrúlega margir sér til að staðfesta orðaskipti sem höfðu átt sér stað áður en þeir mættu á svæðið.

Einnig ber á ofurhæfileikum. Eitt vitna (lögregluþjónn) segist þannig hafa heyrt, af jörðu niðri, óm af orðaskiptum tveggja manna sem voru staðsettir, eftir því sem vitnið ber, efst uppi í 70 metra háum byggingakrana. Það ætti að vera alger óþarfi að nota dýran tæknibúnað til að hlera síma, þegar yfirvöld hafa manni með annan eins hæfileika á að skipa.

Skíthæll fordæmir drullusokk

sveppurBandaríkjamenn á fullu að fordæma Norður Kóreumenn fyrir að sprengja atómbombu. Ef þeir gerðu það þá. En það er kannski ekki aðalmálið. Aðalmálið er að Kaninn hafi einhvern til að fordæma.

Hverjir eru það nú aftur sem hafa sprengt flestar kjarnorkusprengjur?

Tímabundin óvissa

Alltaf skulu pólitíkusar reyna að slá ryki í augun á fólki með því að nota orðið ‘tímabundinn’. Hvern fjáran merkir þetta eiginlega. Allt ástand er bundið tíma. Það væri út í hött að tala um varanlega óvissu. Hversu löngum tíma þessi óvissa er bundin, það höfum við ekki hugmynd um. Það gætu þessvegna orðið mörg ár.

Ég trúi því að ekki sé hægt að losna við Davíð og hina bankastjórana nema kosta til þess óheyrilegum fjárhæðum en ég segi, látum þá fjúka samt. Borgum þeim bara ekki, þótt þeir eigi rétt á því. Þeir geta þá bara dundað sér við að fara í mál við ríkið, sem getur hvort sem er ekki borgað. Hvað ætla þeir að gera í því? Setja ríkið í skuldafangelsi?

Þessi færsla gefur reyndar veika von um að hægt sé að komast ögn skár frá þessu. Ég vona að það sé rétt.

mbl.is Vildu lækka vexti en ekki IMF