Hlerunarmaðurinn fundinn?

Réttarhöldin voru ekki eins spennandi og í Boston Leagal en þó komu athyglisverðir hlutir í ljós. T.d. virðist ófreskigáfa nokkuð algeng meðal varða laganna. Þannig hefur nokkuð hátt hlutfall þeirra lögreglumanna sem gáfu vitnisburð í gær, þann sérstæða hæfileika að vita hvað er að gerast á stöðum þar sem þeir eru fjarstaddir. Allavega treystu ótrúlega margir sér til að staðfesta orðaskipti sem höfðu átt sér stað áður en þeir mættu á svæðið.

Einnig ber á ofurhæfileikum. Eitt vitna (lögregluþjónn) segist þannig hafa heyrt, af jörðu niðri, óm af orðaskiptum tveggja manna sem voru staðsettir, eftir því sem vitnið ber, efst uppi í 70 metra háum byggingakrana. Það ætti að vera alger óþarfi að nota dýran tæknibúnað til að hlera síma, þegar yfirvöld hafa manni með annan eins hæfileika á að skipa.