Varúð gegn forsjá

Allir vilja velmegun.
Allir vilja þjónustu.
Allir vilja menningu.
Fáir vilja vinna í álveri.

Krakkarnir á Reyðarfirði ætla ekki að vinna í álveri.
Krakkarnir sem ég kenndi austur á Héraði eru flestir komir suður.
Hvað í ósköpunum fær fólk til að halda að ungt fólk sem ólst upp á Húsavík muni pakka niður og fara heim aftur ef álver verður reist þar?

En við skulum nú ekkert vera að tala um það núna.
Er á meðan er, enjoy the ride on the tiger!

Opnun eða afgreiðsla

Mér finnst opnunartími vera skrýtið orð. Opnun hlýtur að tákna þá aðgerð að opna. Ef opnunartíminn er frá 9-17, tekur þá 8 klst að opna dyrnar?

Ég geri mér engar vonir um að opnunartímar verði aflagðir og afgreiðslutímar teknir upp í staðinn en ólíkt þykir mér nú afgreiðslutíminn þjálla orð og fegurra.

Nú ég ekki skilja gnarr

Mér fannst Ágústa virkilega flott á sviðinu og ef þjóðin vill endilega dissa júró þá verð ég manna síðust til gráta það. Þar fyrir er þessi fígúra sem hún leikur ósköp einhæf og þreytandi.

Jón Gnarr segir í Fréttablaðinu í dag að RUV hafi brugðist því hlutverki sínu að vernda íslenska tungu með því að vanrækja dagskrárgerð fyrir unga fólkið. Hann stingur upp á því að RUV bæti úr þessu með því að fá Silvíu Nótt til að sjá um áramótaskaupið.

Fyrirgefðu seinvirkni fattara míns Jón en hvernig í ósköpunum sérðu Silvíu Nótt fyrir þér sem verndara íslenskar tungu og menningar?

Er íþróttaálfurinn útsendari Orkuveitunnar?

Ég hef ekki kynnt mér þetta orkuátak íþróttaálfsins sérlega vel en ég veit að það er mikil orka í súkkulaði en engin í vatni. Þessvegna finnst mér svolítið skrýtið að börn fái orkustig fyrir að drekka vatn en ekki fyrir að gúlla í sig sælgæti. Ætli sé kannski reiknað með því að vatninu sé hvolft ofan í þau og fallþungi þess nýttur til raforkuframleiðslu?

Aldrei hef ég heyrt neinn tala um orkuátak þegar fullorðið fólk forðast óhollan mat og hreyfir sig. Venjulega er svoleiðis átak kallað megrun eða þjálfun. Markmiðið er að brenna orku, byggja upp vöðva og auka úthald. Sé þessu haldið áfram lengur en nokkrar vikur heitir það heilsusamlegt líferni.

Markmið Latabæjar er væntanlega að hvetja til heilsusamlegs lífernis með nokkurra vikna hreyfingar- og hollustuátaki (þótt reyndar sé vafasamt að allt sem gefur orkustig sé hollt). Hversvegna í ósköpunum það er kallað orkuátak er mér hulin ráðgáta.

Sonur minn Byltingin telur það vísbendingu um að íþróttaálfurinn sé á mála hjá Orkuveitu Reykjavíkur og öðrum útsendurum Stóriðjudjölufsins. Ég efast um það. Held að þetta sé bara venjulegt málfarsklúður.

Þetta var málfarsnöldur dagsins. Titillinn er bara eyrnakrækja.

leytast eftir kinlýfi

Í dag er það orðatiltækið að leita eftir eða að leitast eftir sem ég ætla að nöldra yfir.

Við leitum að hlutum eða sækjumst eftir þeim og leitumst við að finna bestu lausnina.

Ennþá hroðalegri útgáfa af þessu klúðri er algeng á vefnum einkamal.is. Þar er nokkuð um að giftir mennn og graðir, sætir og saklausir eða feitir og forvitnir séu að leytast eftir kinlýfi. (Gjarnan með börnum ef eitthvað er að marka Kompás.)

Afhverju er samkynja samband betra?

Ég átta mig nú ekki alveg á þessu. Af hverju ætti fólk frekar að vilja pappírshjónaband við einhvern af sama kyni? Varla skiptir máli þetta lagaákvæði um að það þurfi að “liggja fyrir” að hjónabandið hafi verið “fullkomnað”? Ef fólk er tilbúið til að giftast einhverjum fyrir ríkisborgararétt, er það þá ekki alveg eins tilbúið til staðfesta að slík “fullkomnun” hafi átt sér stað? Varla getur það “legið fyrir” á annan hátt.

Annars finnst mér voða skrýtið þetta orðalag að hjónabandið hafi verið “fullkomnað”. Ég held að í hinum vestræna heimi amk sé algengast að fólki fullkomni með sæg manna og/eða kvenna sem það er ekki gift.

Ég var einu sinni gift manni. Það var svosem ágætt hjónaband en mjög langt frá því að vera fullkomið. Samt eignaðist ég tvö börn með honum.

Íþróttapresturinn er auglýsingaskrumari

Mikið finnst mér gott mál að einhver skuli nenna að gagnrýna þetta orkuátak Latabæjar. Mér finnst íþróttaálfurinn hundleiðinleg fígúra (eins og allir predikarar) og fjandans frekja að troða þessari sjálfsskipuðu lífsstílslöggu inn á heimilin án þess að foreldrar séu spurðir álits.

Snjallræðislygi hjá markaðsstjóranum að orkuátakinu sé ekki ætlað að skila hagnaði. Öll kynning fyrirtækis sem er stofnað í þeim tilgangi að búa til peninga, hefur þann tilgang að skila hagnaði og orkuátakið er kynning fyrir Latabæ, kynning sem ekki er nokkur möguleiki fyrir börn að komast hjá því að verða fyrir áhrifum af.