Er íþróttaálfurinn útsendari Orkuveitunnar?

Ég hef ekki kynnt mér þetta orkuátak íþróttaálfsins sérlega vel en ég veit að það er mikil orka í súkkulaði en engin í vatni. Þessvegna finnst mér svolítið skrýtið að börn fái orkustig fyrir að drekka vatn en ekki fyrir að gúlla í sig sælgæti. Ætli sé kannski reiknað með því að vatninu sé hvolft ofan í þau og fallþungi þess nýttur til raforkuframleiðslu?

Aldrei hef ég heyrt neinn tala um orkuátak þegar fullorðið fólk forðast óhollan mat og hreyfir sig. Venjulega er svoleiðis átak kallað megrun eða þjálfun. Markmiðið er að brenna orku, byggja upp vöðva og auka úthald. Sé þessu haldið áfram lengur en nokkrar vikur heitir það heilsusamlegt líferni.

Markmið Latabæjar er væntanlega að hvetja til heilsusamlegs lífernis með nokkurra vikna hreyfingar- og hollustuátaki (þótt reyndar sé vafasamt að allt sem gefur orkustig sé hollt). Hversvegna í ósköpunum það er kallað orkuátak er mér hulin ráðgáta.

Sonur minn Byltingin telur það vísbendingu um að íþróttaálfurinn sé á mála hjá Orkuveitu Reykjavíkur og öðrum útsendurum Stóriðjudjölufsins. Ég efast um það. Held að þetta sé bara venjulegt málfarsklúður.

Þetta var málfarsnöldur dagsins. Titillinn er bara eyrnakrækja.