Mér finnst að kurteis ætti að vera ritað kurteys. Af því að kurteysir eru þeir sem ausa kurti í allar áttir. (Þá væntanlega kurti og píi) Annars væru þeir kurtnir. Ég man allavega ekki eftir fleiri orðum með viðskeytinu -eis. Ekki einu sinni píeis.
Greinasafn eftir:
Ónýtt atkvæði
Mér finnst það sorglegt viðhorf að velja næstskársta kostinn, “svo atkvæðið mitt verði ekki ónýtt”.
Atkvæðið er ekki ónýtt þótt fólkið sem þú treystir komist ekki í meirihluta. Stjórnmálaflokkar þurfa tíma og stuðning til að vaxa, eins og allt annað. Það að bíða með að gefa litlum flokki, sem maður treystir, atkvæðið sitt þar til hann er orðinn stór, er svona álíka gæfulegt og að spara fóður við folald sem er efni í gæðing, af því að það getur hvort sem er ekki unnið landsmótið í þetta sinn.
Minnihluti stjórnar þjónar líka tilgangi og sterkur minnihluti skiptir þessvegna máli. Þar fyrir utan felur hvert atkvæði í sér skilaboð sem geta haft margskonar áhrif síðar, bæði á gengi flokkanna og stefnu þeirra í tilteknum málum, jafnvel þótt þinn flokkur nái engum manni inn í þetta sinn.
Atkvæðið þitt er ekki ónýtt þótt þú vinnir ekki kosningarnar. Það er hinsvegar ónýtt eða illa nýtt ef þú lætur þér standa á sama um það hverjir stjórna bænum þínum og landinu eða gefur villandi upplýsingar um afstöðu þína.
Þú átt það skilið
Svo langar mig að vita hvernig menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að ég og allir aðrir sjónvarpsnotendur, eigi alltaf skilið að fá súkkulaði. Ég hélt að til að verðskulda eitthvað þyrfti maður að gera eitthvað sérstakt og að í nútíma velmegunarsamfélagi gæti maður bara gúllað í sig óhollustu án þess nokkur væri að velta því fyrir sér hvort maður ætti það skilið.
Nú veit ég semsagt að ég á skilið að menga skrokkinn á mér með sykri. En ég veit ekkert hvers vegna.
Ég er búin að liggja yfir mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna en finn hvergi þetta ákvæði um að allir eigi rétt á flottu eldhúsi.
Nýr málsháttur
Rím og stuðlar láta málshætti hljóma vel en þeir auka ekki endilega sannleiksgildi þeirra. Geta jafnvel verið villandi.
Þetta veit hún Heiða mín, sem notar gjarnan málsháttinn margur er knár, án frekari skýringar, enda eru knáindi manna líkamsvexti þeirra óviðkomandi.
Oft er flagð undir fögru skinni er álíka sönn speki. Ég hef orðið vitfirringslega ástfangin af tveimur forljótum mönnum, sem hvor um sig gaf mér nýjan skilning á orðinu drullusokkur. Dreg af því þá ályktun að ankannalegt útlit sé engin trygging fyrir fjarveru fláræðis og flagðabragða. Gallinn er sá að oft er flagð er ekki góð setning. Margur er flagð, væri kannski betra. Eða ekki. Auk þess finnst mér málsháttur ekki réttur nema hann feli í sér stuðla eða eða rím.
Ég tek hér með upp nýjan málshátt og sannari til mótvægis við gamla bullið:
Margur er þrjótur, þótt hann sé ljótur.
Framsýnin ríkir í Páfagarði
Greinilegt að mikil framsýni ríkir í Páfagarði.
Mér þykir nú vænt um að páfi skuli með visku sinni og aðstoð heilags anda, ætla að finna út hvað skuli til ráða ef annað hjóna greinist með HIV. Það hlýtur að vera heppilegri lausn en að koma í veg fyrir smit með fulltingi smokksins. Páfi hefur hingað til lagt blátt bann við notkun smokksins. Mér hefur skilist að það bann hafi ekkert komið hans eigin duttlungum við, heldur hafi hann þvert á móti komist að þeirri niðurstöðu, fyrir tilstilli visku sinnar og leiðsagnar heilags anda, að smokkurinn sé verkfæri Satans. Ætli guðdómurinn sé eitthvað að velta fyrir sér möguleikanum á þvíað skipta um skoðun eða er viska hans Heilagleika kannski ekki óskeikul?
Gullkorn listamannsins
Ef maður syngur á íslensku tekur fólk meira eftir textanum. Og það er mjög erfitt fyrir mig að segja eitthvað af viti svo mér finnst auðveldara að bulla bara eitthvað á ensku.
Eitthvað í þessa veruna sagði einn af Nilfisk strákunum í sjónvarpinu rétt í þessu.
Það þarf nú venjulega töluvert til að gera mig kjaftstopp en hafi þetta átt að vera kaldhæðni þá hitti hún ekki í mark því það var einmitt ekkert vit í textanum.
Ég er annars þó nokkuð hrifin af stöðnun. Finnst öll þessi frumlega tónlist álíka skemmtileg og ryksuga.
Slugsar í HÍ
Í Mogganum í gær, færir Eiríkur Steingrímsson m.a. þau rök fyrir því að taka upp skólagjöld við Háskóla Íslands, að margir nemendur slugsi í náminu og mæti illa í tíma.
Nú leikur mér forvitni á því hvort slugsaháttur nemenda í háskólum sem leggja skólagjöld á stúdenta hefur verið rannsakaður, og ef svo er, hvort skólagjöld séu trygging gegn slíkri hegðun.