Davíð segir að launahækkanir hinna lægst launuðu muni líklega espa verðbólgugrýluna, þar sem hækkanirnar skríði upp allan launastigann. Nú er til mjög einföld og sanngjörn lausn á því, sem hægri menn virðast ekki hafa hæfileika til að heyra eða skilja. Allir fá sömu hækkun, í KRÓNUM talið. Hvað getur hugsanlega verið ósanngjarnt við það?
Greinasafn eftir:
Af hugviti starfsmanna bílastæðasjóðs
Bílastæðasjóður er mikil dásemdarstofnun og hefur á að skipa hugmyndaríku starfsfólki sem kann bráðsnjallar lausnir bílastæðavandanum í miðborginni.
Vinkona mín sem býr við Vesturgötuna á íbúakort en lendir samt iðulega í því að þurfa að leita lengi dags að hentugu bílastæði. En nú er lausin fundin. Hinir ráðsnjöllu útsendarar bílastæðasjóðs dreifðu nýverið miðum, þar sem þeir bentu íbúum við Vesturgötuna, þ.m.t. vinkonu minni og hennar fjölskyldu, á þann möguleika að leggja bílnum við Skúlagötuna. Þetta fannst vinkonu minni stórgóð hugmynd. Það eru heilar þrjár vikur síðan hún gekk í gegnum keisaraskurð og því tilvalið að fá sér daglega spássitúra milli bæjarhluta með krílið á öxlinni í þessu yndislega íslenska sumarveðri.
Mér finnst þetta næstum því jafn snjöll lausn og símastæðin svokölluðu. Nú eru liðnar rúmar 3 vikur síðan grasakona Nornabúðarinnar pantaði og greiddi símastæði fyrir okkur báðar. Númerið virkar reyndar ekki og á þessum 3 vikum hefur ekki náðst í neinn sem hefur til að bera vald, vit og vilja til að kippa því í liðinn. Það er því ekkert hægt að nota þessi stórfenglegu símastæði, sem við erum þó löngu búnar að borga fyrir -en hugmyndin er góð.
Drekkjum Álgerði – ekki Valgerði
Þrjúþúsund manns safnast saman til friðsamlegra mótmæla gegn stóriðjustefnunni.
-Fréttastofa sjónvarps sér ekki ástæðu til að geta þess í kvöldfréttum.
Fjórir piltar taka sig saman um að bera eitt spjald með ósmekklegri áletrun. Iðnaðarráðherra bregst ókvæða við og ÞAÐ ratar í Kastljósið.
Það þarf ekki háa greindarvísitölu til að álykta að áletrunin „Drekkjum Valgerði“ hafi beinst gegn stefnunni sem Valgerður stendur fyrir en ekki henni sjálfri. Engu að síður var alger óþarfi að hafa hana svona persónulega. „Rústum Álgerði“ hefði verið mun smekklegra. Auk þess hefði enginn reynt að snúa því upp í morðhótun til að draga athyglina frá tilgangi göngunnar.
En það er líklega rétt hjá snáðanum sem sat fyrir svörum; þeir sem berjast gegn tækifærissinnuðum stjórnvöldum þurfa að að ofbjóða fjöldanum til að ná athygli fjölmiðla.
Það er hálfömurlegt, en málefni seljast ekki. Stór orð seljast.
Tilfinningarök
Annars er náttúrulega óþolandi að tilfinningarök skuli alltaf smita alla umræðu.
-Það má ekki virkja Gullfoss af því að hann er svo fallegur.
-Konur eiga ekki að fá lægri laun en karlar af því að það er óréttlátt.
-Það má ekki lemja litla bróður sinn “bara pínulítið og ekkert mjög fast” af því að það er ljótt að lemja.
-Það má ekki nota þroskahefta sem tilraunadýr af því að hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum.
-Við þurfum að finna fleiri leiðir til að græða af því að það er gaman að vera ríkur.
Það sér hver maður að svona rök byggja alfarið á huglægu mati misviturra manna á ómælanlegum hugtökum eins og rétt, gott, fallegt og skemmtilegt. Hvar er tölfræðin? Hvar er eðlisfræðin á bak við svona hugmyndir? Er ekki kominn tími á að sleppa þessari endalausu tilfinningasemi og taka upp almennilega lógík í staðinn?
Nafnlausir boggarar
Nafnlausar athugasemdir fara ekkert í taugarnar á mér nema þær feli í sér persónulegar árásir en því verð ég sjaldan fyrir.
Ég get alveg tekið afstöðu til ábendingar eða röksemdar á hennar eigin forsendum, ég þarf ekki að vita nafnið á bak við kenninguna til að ákveða hvað mér finnst um hana.
Hinsvegar skil ég ekki hversvegna sumt fólk skrifar ekki undir nafni. Ég skil vel það að hafa gaman af því að leika hlutverk og geri það gjarnan sjálf en hversvegna í ósköpunum vill sumt fólk ekki gangast við manneskjunni á bak við vefkarakterinn?
-Óttast það að aðrir taki ekki mark á því ef nafnið kemur fram?
-Heldur það að aðrir muni taka orð þess úr samhengi og dæma það út frá því litla sem kemur fram í skrifum þess?
-Hefur þetta fólk áhyggjur af því að vinir og kunningjar muni sjá í gegnum það ef þeir lesa það sem það skrifar?
-Eða heldur það að nafnleysið skapi því leyndardómsfulla ímynd og að bloggheimur liggi andvaka af spenningi yfir því að komast að því hver hann er þessi dularfulli maður sem segir svona margt gáfulegt?
Ja, maður spyr sig.
Ofbeldi leysir vandamál
Einhver alvitlausasta rökvilla nútímans er sú að ofbeldi leysi engin vandamál. Ofbeldi leysir vandamál. Það er þessvegna sem það nýtur hvílíkra vinsælda.
Að vísu skapar ofbeldi oft fleiri vandamál en það leysir en það eru oftast:
a) vandamál sem einhver annar þarf að leysa
b) síðari tíma vandamál
c) tilbreyting frá vandamálinu sem varð til þess að gripið var til ofbeldis.
Ofbeldi er hagnýt lausn sem veitir útrás og páerkikk. Eina ástæðan til að nota tímafrekari aðferðir til að fá sínu framgengt er sú að ofbeldi er ómannúðlegt og elur af sér sjálfsbjargarleysi, grimmd og óhamingju.
Pólitísk krísa
Ég er í pólitískri krísu. Sem ég lendi reyndar í fyrir hverjar einustu kosningar.
Ég er flokksbundin í VG af tveimur ástæðum:
a) Ég treysti heilindum forystumanna flokksins -ennþá.
b) Enginn annar flokkur er verulega heitur í þeirri afstöðu að náttúran hafi réttindi, óháð því hvort einhver nennir að góna á hana eður ei og enginn annar setur sig gegn veru okkar í Nató.
Umhverfismálin eru mitt hjartans mál. Að sjálfsögðu vil ég líka að við séum góð við gamla fólkið og veiku börnin en það ætla nú allir flokkar að gulltryggja. Að flestu leyti er ég hægri krati, let´s face it, en ég myndi aldrei fórna umhverfisstefnu og heilindum fyrir stefnuskrá sem að öllu öðru leyti væri algerlega eftir mínu höfði.
Samfylkingin hefur margsinnis sýnt að þar á bæ ræður hentistefna ferðinni, frjálslyndir bjóða ekki fram í Hafnarfirði. Auk þess treysti ég þeim ekki rassgat og þar fyrir utan finnst mér hreinasta rugl að endurvekja sveitir landsins.