Þegar Glitnir auglýsti námsmannaþjónustu sína með því að ráðleggja ungu fólki að taka yfirdráttarlán til þess að eiga bæði fyrir bjór og bakkelsi gekk fram af mér. Þann 9. september 2006 sendi ég Glitni, því skítafyrirtæki svohljóðandi bréf: Halda áfram að lesa
Greinasafn eftir:
Uppreist
Sumt er ekki hægt að laga. Ekki einu sinni þótt maður sé í réttum flokki.
Sá sem hefur fengið á sig dóm, verður aldrei framar vammlaus. Ekki nema málið sé tekið upp og sakleysi hans teljist sannað.
Hann getur hlotið fyrirgefningu yfirvalda, jafnvel almennings en æra hans verður ekki „reist upp“. Hann getur fengið leyfi til að bjóða sig fram til þingmennsku en þó svo han fái þingsæti verður hann alltaf þingmaðurinn sem laug, stal og misnotaði aðstöðu sína. Vonandi í þátíð en þáið er eins og skugginn í ævintýri H. C. Andersens, það lifir sjálfstæðu lífi.
Hann getur útskrifast úr fangelsi og risið úr fremur eymdarlegri aðstöðu en æra hans rís ekki upp. Ekki nema á pappírum.
Að gæsast
Ég get ekki gert upp við mig hvort mér finnst hroðalegra, nafnorðið „gæsun“ eða sögnin „að gæsa“. Það liggur í orðanna hljóðan að með slíkum athöfnum sé verið að gera einhverja að gæs – ekki beint viðeigandi rétt fyrir brúðkaup. Fyrir utan að „gæsaðar“ konur eru iðulega gagnkynhneigaðar og færi því betur á að karlmenn tækju að sér að „gæsa“ þær.
Orðskrípin „steggjun“ og „að steggja“ snerta svosem ekki hjartans hörpustrengi heldur en þó finnst mér einhvernveginn skárra að kalla karlmann stegg en konu gæs. Mín kynslóð ólst upp við þá hugmynd að það væri fremur jákvætt að vera steggur. Orðið gæs var hinsvegar notað um stúlkur sem voru lítt vandar að virðingu sinni í vali á bólfélögum og átti það jafnt við um fjölda og mannvirðingu þeirra sem þær hleyptu uppí til sín.
Merking orða breytist í tímans rás og kannski gæti ég vanist því að kalla konur sem ég kann vel við gæsir. Ég mun hinsvegar aldrei fella mig við „að gæsa“ konu eða taka þátt í gæsun. Vinkonur mínar verða sjálfar að bera ábyrgð á því ef þær gerast gæsir, eða láta gæsast.
Hvað sem því líður vil ég endilega láta beygja þessa sögn þannig:
gæsa -gæsti -gæst.
Víst beita þeir valdi
Var það í Mogganum í gær eða fyrradag sem lögreglan birti yfirlýsingu um óánægju með einhliða umfjöllun fjölmiðla um framgöngu laganna varða austur á Kárahnjúkasvæðinu?
Í yfirlýsingunni kemur fram að valdbeiting geti reynst óhjákvæmileg en lögreglan beiti ekki valdi að nauðsynjalausu.
Sorrý löggimann en það eru bara til myndir sem sýna dæmi um vinnubrögðin ykkar. Við höfum séð myndir af því þegar lögreglan ræðst inn í tjöld á landi í almenningseign og dregur friðsamt fjölskyldufólk út með ofbeldi. Við höfum séð mynd af því þegar nautið hann Óskar Bjartmarz ræðst á, ekki mótmælanda, heldur myndatökumann sjónvarps. Að vísu eru ekki margar myndir til, því lögreglan hefur þá venju að handtaka fyrst myndatökufólk, en ekki þá sem taka þátt í beinum aðgerðum.
Ég efast ekki um að flest starfsfólk lögreglunnar er ósköp almennilegt fólk en innan um er einn og einn vitleysingur á páerflippi og því miður þá virðast þeir stundum veljast til þess að stjórna starfi lögreglunnar. Eða kannski er það kerfið sjálft sem er rotið?
Forðið okkur háska frá
Þótt þrívíddardrullusokkarnir í stjórn Landsvirkjunar hafi nú þegar, með dyggum stuðningi ríkisstjórnarinnar, unnið hálendi Íslands óbætanlegan skaða er ennþá hægt að afstýra miklum voða.
Ekki fylla lónið!
Auðvitað er grautfúlt að hafa lagt svona mikið fé og vinnu í framkvæmdir og ljúka þeim svo ekki, en það hlýtur samt að vera skárra að viðurkenna mistök sín á þessu stigi en að þurfa að svara fyrir þau þegar stíflan brestur.
Tilgangur mótmæla
Spurt er: Af hverju geta þessir mótmælendur ekki bara haldið sig á þeim svæðum sem þeim hefur verið úthlutað til að mótmæla á?
Svarið: Af því að tilgangur mótmæla er ekki sá að skemmta sér við að veifa borða, heldur að knýja fram breytingar og vekja athygli á viðhorfum sem valdhafar og stórfyrirtæki komast upp með að valta yfir án nokkurra raka, af því að það hentar þeim. Mótmælendur ÆTLA að trufla starf og valda skaða. Það er yfirlýstur tilgangur, af því að það er eina aðferðin sem nokkurntíma hefur skilað nokkrum árangri. Það væri einfaldlega fáránlegt að mótæla einhverju í góðu samstarfi við fyrirtækin og stofnanirnar sem verið er að mótmæla og eftir forskrift frá þeim. Mótmælendur fyrir austan hafa ekki beitt nokkurn mann ofbeldi. Þeir eru hinsvegar, af mjög einbeittum brotavilja að leggja sig fram um að valda náttúruspillandi skítafyrirtækjum eins miklum skaða og mögulegt er. Verst hvað hið mesta mögulega er sorglega lítið.
Skondið
Sumir túristar halda að „ástatrú“ hafi einhver orðsifjaleg tengsl við „astro“.