Blessað frelsið

Einn af málsvörum frelsisins gagnrýnir umfjöllun Stöðvar 2 um reynslu Hauks í Palestínu. Ég hef séð betur unnar fréttir frá henni Lóu en alveg finnst mér ótrúlegt að láta að því liggja að það sé allt eins líklegt að frásögn Hauks sé uppspuni.

Auðvitað er sjálfsagt að fréttamenn leiti staðfestinga þegar verið er að fjalla um einstaklinga og/eða vinkvæm málefni en ef fréttamenn greindu aldrei frá neinu og tækju aldrei viðtöl nema sýna um leið óyggjandi sannanir, væri upplýsingaflæði til almennings frekar fátæklegt.

Meira blóð!

Elías (ekki Elías minn, heldur Elías hinn) þarf áreiðanlega ekki að birta nýju netslóðina sína á gömlu síðunni til að ná athygli.

Ég er ekki hrifnari af barnaperrum en hver annar og finnst mun meiri ástæða til að taka svona kóna úr umferð en að verja tíma lögreglu í skýrslutökur af fólki sem gerði sig sekt um þann stórglæp að brjóta fánalög á lýðveldisdaginn. Vér mótmælum allir slíkri forgangsröð.

Alveg finnst mér það samt dæmigert að í stað þess að undrast aðgerðaleysi lögreglunnar, skuli nú lýðurinn beina allri sinni orku að því að krefja Elías um nöfn. Það er svosem ekkert skrýtið. Það eru margar vikur, ef ekki mánuðir síðan við höfum fengið fjölmiðlaaftöku til að rúnkast á.

Heimska

Greind er hæfileiki til að leysa verkefni. Allt annað sem fellur undir skilgreininguna er angi af því. Að tileinka sér þekkingu er t.d. verkefni. Að færa rök fyrir máli sínu er að leysa verkefni.

Það er öllu erfiðara að skilgreina heimsku. Hér er gott dæmi um heimsku sem er alls ótengd vanhæfni til að leysa vandamál.

Stæðilegir menn óskast

Jæja, þá er ég búin að setja smáauglýsingu í Fréttablaðið. Ég ákvað að stofna ekki söfnunarreikning fyrr en réttu mennirnir eru fundnir. Ég hef reyndar ekki ennþá fengið nein viðbrögð við auglýsingunni (enda ekki langt liðið á daginn) en ég var að fá tölvupóst þar sem ég var spurð hversvegna ég vildi ekki frekar láta rassskella bankaráð.

Ég hefði reyndar ekkert á móti því og ef nægar fjárveitingar fengjust væri eflaust hægt að hafa 3-4 menn í fullri vinnu við lagafæra siðferðið hjá ýmsum höfðingjanum. Ég hef þó ekki bolmagn til að taka alla í gegn sem eiga það skilið og alveg finnst mér dæmigert að þeir sem ekki eru tilbúnir til að standa í neinum aðgerðum sjálfir, skuli telja sig rétta fólkið til þess að segja þeim fáu sem sýna viðleitni fyrir verkum.

Smá viðbót í sparibaukinn

Ég býst svosem ekki við því að bankastjóragreyin muni mikið um þennan 200.000 kall. Þeir borga svo hroðalega skatta af þessu blessaðir mennirnir. Hvernig væri að hækka frekar örorkubætur og lægstu laun um sömu upphæð? Það fólk fyndi þó allavega fyrir hækkuninni jafnvel þótt það hefði nógu lítið vit á fjármálum til að greiða tekjuskatt í stað fjármagnstekjuskatts.

Ég boða yður mikinn fögnuð

Eftir nokkrar mínútur hefst merkilegur dagur. Réttur þeirra sem þola ekki tóbaksreyk til að sækja veitingastaði hefur verið viðurkenndur. Reyndar hefði ég viljað að mannréttindi barna til reyklauss heimilis hefðu fyrst verið tryggð. Börn hafa náttúrulega ekki kosningarétt svo sjálfhverfir foreldrar fá líklega að níðast á öndunafærum þeirra án afskipta ríkisvaldsins þar til einhver fanatíkusinn sem ekki gúterar rétt foreldra til að eitra fyrir börnum sínum gerir það sem best virkar; að verða bara gjörsamlega brjálaður.

Mér skilst að Kormákur og Skjöldur ætli að benda á Siv (líklega nokkuð snúðiglega) ef nágrannar kvarta undan hávaða frá tóbaksfíklum sem svala fíkn sinni á götum úti. Sennilega er þetta þarfasta verkið sem sú lufsa hefur unnið í sinni ráðherratíð svo ég vona nú að fáir gerist svo vitlausir að telja hana ábyrga fyrir skrílslátum einhverra fíkla. Ég kann gott ráð við nágrannakvörtunum; göngum bara skrefinu lengra og bönnum þennan viðbjóð á almannafæri.