Hvernig verða hugmyndirnar til?

Hvernig fékkstu eiginlega þessa hugmynd? sagði fíflið opinmynnt.

Jú sjáðu til. Það var nebblega þannig að einn daginn þegar sat ég og hugleiddi að vanda, opnaði ég skyndilega þriðja augað. Ég var með lokuð augun en horfði samt út um gat á enninu, rétt fyrir ofan nefið, Og hvað heldurðu að ég hafi séð? Einhvern svona gaur, sveipaðan fjólubláu ljósi. Sennilega hefur þetta verið Gvuð eða einhver álíka sköpunargaur. Halda áfram að lesa

Það sem mér bara sýnist

Ég ætlaði að verða lögfræðingur. Fyrirmyndin var úr bíómyndum, málsvari réttlætisins í ætt við Matlock. Ég ætlaði reyndar líka að verða skáld og trúði því ekki að annað þyrfti endilega að útiloka hitt.

Seinna komst ég að því að flestir lögfræðingar eru aðallega rukkarar og lögmenn þurfa iðulega að verja skíthæla. Ég komst líka að því að flest skáld hafa viðurværi sitt af kennslu eða blaðamennsku. Um svipað leyti rann upp fyrir mér að flestir málsvarar réttlætisins eru alls ekki lögfræðingar og að mörg þeirra kvæða sem sungin eru áratugum og öldum saman eru ekki eftir fólk sem hafði tekjur af því að skrifa.

Og þá fór ég að hugsa um hvort maður þyrfti endilega að verða eitthvað. Hvort það væri kannski valkostur í stöðunni að gera bara það sem manni sýnist hverju sinni.

Og það gerði ég.

Kallinn með dauðablettinn

skalli-688x451

Afi og amma áttu vin sem mér fannst athyglisverður. Hann talaði skringilega og á nauðasköllóttum hausnum á honum var dæld eins og á höfði ungbarns, nema á öðrum stað. Ég vissi að börn fæddust með svona op á milli höfuðbeinanna og að sá hluti höfuðsins var svo viðkvæmur að það gat verið stórhættulegt að snerta hann. Halda áfram að lesa

Eskimóaskíturinn

Ég held að ég hafi verið 8 ára þegar lítill strákur af inúítaættum var gestkomandi í þorpinu í nokkra daga. Einhverju sinni var ég að leika mér við heimili skólasystur minnar ásamt fleiri krökkum og við heyrðum köll berast úr næstu götu, það var greinilega verið að stríða einhverjum. Ein stelpnanna spratt á fætur, svona líka glöð.

Halda áfram að lesa

Kapítalismi er anarkismi

Ég er kapítalisti. Þ.e.a.s. mér finnst rugl að ríkið standi í því að reka framleiðslufyrirtæki. Ég vil heldur ekki að ríkið reki þjónustufyrirtæki fyrir utan heilbrigðis- mennta- og aðrar velferðarstofnarnir. Mér finnst eðlilegt að hlutir og þjónusta umfram nauðsynjar kosti það sem fólk er tilbúið til að borga. (Hinsvegar held ég að upplýst samfélag sé ekki tilbúið til að borga ósanngjarnt verð.) Ég vil að fyrirtæki skili arði og mér finnst hvorki æskilegt, né tel ég gerlegt að allir lifi við sömu kjör.

Eins mikla óbeit og ég hef á framkvæmd kapítalismans, get ég ekki annað en kyngt því að þessar skoðanir gera mig að kapítalista. Og nú myndu flestir sem þekkja mig segja að ég sé að misskilja hugtakið því allt sem ég stend fyrir sé í eðli sínu barátta gegn kapítalisma,

Málið er að það er bara ekkert rétt. Barátta vinstri manna og anarkista gegn einkavæðingu og stórfyrirtækjum er nefnilega fyrst og fremst gegn vondu siðferði. Þótt mér finnist rugl að ríkið reki símafyrirtæki eða sjái landanum fyrir afþreyingarefni, álít ég líka að frelsi markaðarins takmarkist af rétti annarra. Af rétti fólks til að nýta landið sem það býr á til að sjá sér farborða og búa við heilsu og öryggi. Af rétti komandi kynslóða til að taka við jörðinni í nýtingarhæfu ástandi. Af rétti okkar allra til að njóta óspilltrar náttúru því hreint loft, hreint vatn og fegurðin sjálf eru sannarlega lífsgæði. Um fyrirtæki á semsagt að gilda sama lögmál og um fólk; enginn hefur rétt til að skaða aðra.

Það gefur auga leið að fyrirtæki sem virða rétt annarra geta aldrei vaxið svo mikið að þau verði að voldugu skrímsli. Hagkerfi sem fygldi þessari einföldu siðferðisreglu gæti aldrei orðið stórt. Það gæti aldrei mokað mjög miklu fé undir mjög fáar manneskjur. Hinsvegar myndu þeir snjöllu og duglegu bera dálítið meira úr bítum en þeir værukæru og það yrði alltaf einhver hvati til að auka hagkvæmi og þægindi. Á endanum myndi slíkt samfélag bera svo sterkan keim af anarkisma að það yrði hægt að henda hinu ógeðfellda fyrirbæri ríkinu og reyndar þyrfti bara að gera það sem allra fyrst því ríkið hefur sannarlega stutt stórfyrirtæki í því að öðlast æ meiri völd og misnota þau, í stað þess að veita þeim aðhald.

Sumir myndu segja að áhersla mín á að allir eigi rétt á mat, húsaskjóli, heilsugæslu og menntun, geri mig að krata eða jafnvel sósíalista. Það má leiða rök að hvorutveggja en þar sem hrifning vinstri manna á ríkisvaldinu vekur mér beinlínis óbeit get ég miklu fremur flokkað mig sem hægri mann. Bæði kratismi og sósíalismi gætu hinsvegar skilað ágætu samfélagi ef réttur fólks til að stjórna sér sjálft væri virtur. Þar með yrði ríkisbáknið óþarft því hlutverk þess í huga vinstri manna er að hafa vit fyrir almenningi.

Ég held reyndar að hvaða stjórnmálastefna sem er gæti dugað til þess að byggja upp nokkuð mannúðlegt og gott samfélag svo fremi sem menn virtu rétt annarra til frelsis og afkomu. Og reyndar held ég að allar stefnur endi í anarkisma ef réttur annarra er virtur. Það er vegna þess að anarkismi er í kjarna sínum sú skoðun að annað fólk sé hvorki yfir þig hafið né undir þig sett. Þessi einfaldi sannleikur er þegar upp er staðið það eina sem greinir anarkisma frá öllum öðrum stjórnmálakenningum og það eina sem gæti gert einhverja þeirra nothæfa.

———-

Umræður:

„..þar sem hrifning vinstri manna á ríkisvaldinu vekur mér beinlínis óbeit“. Skoðaðu þenslu ríkisbáknsins í tíð Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna og berðu saman við þessar fáu vinstri stjórnir sem einhverju hafa fengið að ráða á þessu landi. Staðreyndirnar tala sínu máli um meinta „hrifningu“ vinstri manna á bákninu miðað við íhaldið.

Posted by: baun | 20.05.2010 | 19:39:25

Almennt hef ég töluvert meiri óbeit á Sjálfstæðisflokknum og Framsókn en á Vg, enda eru báðir þessir flokkar spillingarbæli einhverra jakkafatafasista. Umsvif ríkisins hafa eflaust verið meiri í tíð þessara flokka sem hafa það efst á sinni óopinberu stefnuskrá að meira sé aldrei nóg en forræðishyggjan er mest áberandi hjá vinstri grænum.

Af öllum illum kostum vil ég helst hafa Vg við stjórn, vegna þess að enginn annar flokkur hefur sýnt áhuga á mannúðar- og umhverfismálum. Helst vildi ég þó leggja niður allt sem heitir ríki og yfirvald. Það er sjálfsagt álíka daunhæfur draumur og að fólk stundi viðskipti án þess að valta yfir meðbræður sína.

Posted by: Eva | 21.05.2010 | 6:53:22

Ég er ekki kapítalisti, því mér finnst við eigum að reka þetta allt saman öll saman. Og hætta að búa til gerviþarfir. Gerast nægjusöm og sátt hvert við annað. Álíka raunhæfur draumur og þinn…

Posted by: Kristín í París | 22.05.2010 | 9:03:29

Mér hundleiðast þessir merkimiðar allir. Held að hægri og vinstri séu úrelt hugtök, jafn líkleg eða ólíkleg til að tryggja réttlæti. Ég held samfélag þar sem almenn stemning er fyrir því að fólk láti hvert annað í friði nema til þess að sýna vinsemd og samábyrgð, geti af sér nægjusemi og örlæti. Þetta er kannski bara spurning um hvort eggið eða hænan kemur á undan.

Posted by: Eva | 23.05.2010 | 0:45:22