Leikur

Drukknuð í rauðhærðu faðmlagi,
hef ég unað mér á freknubeit við axlir þínar.
Þambað vitleysuna af vörum þér
og prrrððrað þríhendu í hálsakotið.

Og leggi ég eyra við nafla þinn
má greina söng sálarinnar í fjarska:
„Allar vildu meyjarnar eiga hann,
hæfaddírífaddirallala og amen“.

Sting að lokum Litla Bleik í vettlinginn
og ríð til þings,
falleruð af ljóðlöngu falleríi forfeðra
sem súrraðir út úr rykugum deginum
vitja mín í hlátri.

Áætlun 1

Enga höll hef ég ennþá reist mér fyrir austan sól,
aðeins lítið hús fyrir austan fjall
og garðurinn í óttalegri órækt.

Enga sigurför hef ég farið á hvítum hesti á enda veraldar,
tel það nokkuð gott að aka út í Kaupfélag,
hef ekki einu sinni rænu á að þrífa bílinn.

En dag nokkurn mun ég að standa upp
og axla bakpoka áhættunnar.
Leggja leið mína yfir fjöllin sjö
þangað sem nornir sitja ennþá og spinna mér örlagaþráð.

Og ég mun hrifsa þann þráð úr höndum þeirra
og setja upp minn eigin vef
og slá hann af krafti,
til hallarbygginga og sigurfara,
sjálf.

Þegar ég er búin að koma garðinum í þokkalegt stand
og bóna bílinn.

Allt fer þetta einhvernveginn

Þetta verður allt í lagi
sagði ég sannfærandi
og lét sem ég tæki ekki eftir efanum
sem seytlaði niður í hálsmálið
og rann í köldum taum niður bakið.

Þetta bjargast áreiðanlega
sagði ég ákveðin
og þóttist ekki finna hvernig ég kipptist til
þegar kvíðinn skreið upp í buxnaskálmina
og nartaði í hnéð.

Allt fer þetta víst einhvernveginn
tautaði ég
og bauð hættunni heim
á meðan uggurinn gróf sig undir hörundið
og bjóst til vetursetu.

Og þegar allt fór á versta veg
og angistin skaut rótum
á bak við þindina
sá ég ekki ástæðu til að líta í spegilinn.
Allt fór þetta jú einhvernveginn
og ég varð ég ekki einu sinni hissa.

Elena

 

Ég þýddi þennan texta fyrir Begga bróður minn. Síðasta erindið er til í tveimur útgáfum, poison arms og broken arms. Mér finnst poison gefa ljóðinu merkingarauka sem ég reyni að undirstrika í þýðingunni. Lesendur geta svo skemmt sér við að giska á hvaða karlmannsnafn ég hefði notað í stað Angeles ef ég hefði þýtt textann fyrir sjálfa mig. Halda áfram að lesa

Ryk

Rykið hefur gert sér hreiður undir rúmi mínu,
gotið ljósgráum rykhnoðrum
sem fjölga sér stöðugt.

Stundum skríður það undir sængina
í leit að æti.
Kitlar nasirnar
Ertir hálsinn.
Dregur úr koki mér
máða vini,
ósögð ástarorð,
hálfköruð ljóð
og fóðrar unga sína.

Af og til
sæki ég kúst
og sópa rykhreiðrinu undan rúminu.

Í þetta sinn
hef ég sópað því undir mottu.