Ástarljóð

Nei.
Þú líkist sannarlega engu blómi.

Ekkert sérlega fallegur.
Ekki ilmandi
með stórum litríkum blómum.
Nei.

Þú ert öllu heldur kínverskur graslaukur.
Dálítið tætingslegur jafnvel.
En grænn.
Og ferskur.
Og bragðið sérstakt.
Milt.

Sætbeiskur keimurinn situr eftir.
Lengi.

Ummyndun

Þú varst mér allt, þú varst mér lífið
sólarskin í daggardropa
logn í regni, rökkurblíðan
haustið rautt á greinum trjánna
tungl í myrkri, mönnum ofar
falskur eins og fjallabláminn

Ding!

Ding!!!

Ding! syngur veröldin,
ding!
Klingir þakrenna í vindinum,
ding!
Þaninn strengur við fánastöng,
ding!

Hringja bjöllur
í elskendaálfshjörtum
ding, ding!

Sett í skúffuna í febrúar 1991

Draumur

Stjörnum líkur
er smágerður þokki þinn.
Ég vildi vera ævintýr
og vakna í faðmi þínum,
kyssa fíngerð augnlok þín
og líða
inn í drauma þína
undir dökkum bráhárum.

Sett í skúffuna í janúar 1991