Og þó á vináttan í raun
eitthvað skylt við tunglsljósið.
Stundum hvarflar hugur minn
til ástríðublíðra handa þinna
-enn.
Og þó á vináttan í raun
eitthvað skylt við tunglsljósið.
Stundum hvarflar hugur minn
til ástríðublíðra handa þinna
-enn.
Heitt vax
er ekki endilega meðfærilegt
þótt það bráðni í deiglunni.
Storknar að sönnu fljótt
á köldu stáli
en mótast að eigin geðþótta.
Víst gæti ég lifað þér til yndis,
í stöðugri myndbreytingu,
fingraför þín
greypt í eðli mitt
ef það er það sem þú vilt.
En þótt ég úthelli hjarta mínu
yfir steðjann
mun engin sleggja
slá þér nothæfar skeifur úr því.
Nei.
Þú líkist sannarlega engu blómi.
Ekkert sérlega fallegur.
Ekki ilmandi
með stórum litríkum blómum.
Nei.
Þú ert öllu heldur kínverskur graslaukur.
Dálítið tætingslegur jafnvel.
En grænn.
Og ferskur.
Og bragðið sérstakt.
Milt.
Sætbeiskur keimurinn situr eftir.
Lengi.
Ekki hef ég saknað þín
öll þessi ár
þótt eflaust
brygði andliti þínu fyrir
í draumi um ylhljóða hönd
lagða á öxl
þegar haustfuglar
hópuðust til farar.
Lítið hef ég saknað þín
og ég játa
kreppta hnefa
hvikul augu
og fyrirheit umfram væntingar.
En hér er ég mætt
til draums eða veruleika
og ég opna lófana,
loka augunum
legg höfuð mitt í keltu þína
og segi „jæja“.