Eftir lokun

Herbergi starfsfólksins verst.
Þefur af kampavínsælu,
svitastokknu næloni
og reykmettuðu sæði.

Borðtusku rennt
framhjá notuðum fimmþúsundkalli
sem gleymdist á borðinu,
hvítt duft loðir við gulan hor á upprúlluðum endanum.

Moppunni rennt
framhjá notuðu nærbuxnainnleggi
sem gleymdist á gólfinu,
hvítt yfirlag, atað gulum vessum.

Að lokum er tuskan undin
og vagninum rennt
framhjá haug af hvítum eldhússpappír,
klístruðum gulum blettum.

Hendur þvegnar og
augunum rennt
framhjá notaðri dansmey
gulri
sem að líkindum hefur gleymst
á hvítum sófanum.

Kastali Drottningarinnar

Kastali minn stendur á hæðinni.
Ljós í efsta turnglugga
og úlfar varna óboðnum inngöngu.
Gerði þyrnirósa umkringir.
Flýgur hrafn yfir.

Silkiklædd tek ég á móti þér
með veldissprotann reiddan til höggs,
dyngja mín tjölduð flauelsdúk
er þú krýpur mér að fótum.
Meðan þú dvelur hlekkjaður í turni mínum
og hlustar á hringlið í keðjunum
grunar þig síst
að bak við virkisvegginn
blakti veruleikinn
strengdur yfir snúru í formi Hagkaupsbols.