Köld vakir mold í myrkri
mildum hún höndum heldur
raka að heitum rótum.
Reyr mínar rætur
og vertu mér mold.
Greinasafn fyrir flokkinn: Allt efni
Spegilbrot
Spegilbrot – 1
Svala að sumri
svella við vetrarins kul
blár þinna brúna
♠
Spegilbrot – 2
Lít eg þig augum
les þér úr hári og hug
örlagaþræði.
♠
Spegilbrot – 3
Fjórleikur augna
orðalaus snerting við sál
faðmi þér fjarri.
♠
Spegilbrot – 4
Hljóð hefur farið
dauða um hendur mér, köld
hvítmyrkurþoka.
Andhverfur á kvöldi
Kvakar þögn við kvöldsins ós.
Keikir myrkrið friðarljós.
Vekur svefninn vonarró.
Vermir jökull sanda.
Blakar lognið breiðum væng.
Bláa dregur kyrrðarsæng,
húmið yfir auðnarskóg,
eirir dauðum anda.
Hrafn og dúfa
Flýgur í hring yfir haug
hugar við dögun og húm
ætis að eilífri leit.
Hrafn er minn hugur
og hungrar í þig.
Hvít svífur dúfa yfir dal.
Flytur hún lofgjörð um líf,
friðsemdar fegursta mynd.
Svæfir þín sála
mitt sársaukabál.
Heyrirðu hrísla
Heyrirðu hrísla
kynjalækinn hvísla
djúpir hyljir drekkja
þeim sem illa hann þekkja
en ef hann aðra okkar
að sér laðar lokkar
stiklum við á steinum
systir mín í meinum
og þegar fjárans fljótið
flæðir yfir grjótið
brúar þín blíða
ávallt strauminn stríða.