Vísur handa manninum sem átti ekki tíkall

Víst ég er í vanda stödd
viti firrt og láni
Fyrir þinni flauelsrödd
féll ég eins og kjáni.

Ótal konur elska þig
engri trúr þótt reynist.
Það er líkt um þær og mig,
þræll í hverri leynist.

Satinhörund, silkihár,
söngur hreinn og þýður.
Frjór í hugsun, fyndinn, klár,
frekjan í þér sýður.

Úávið þótt frjáls og fús
fegri eg þína bletti,
oft mér líður eins og mús
undir fjalaketti.

Hvað sem allri skynsemi líður

Enn mig getur girndin blekkt
hún gengur frá mér bráðum
mér var aldrei eiginlegt
að ansa hugans ráðum

því vanann skortir voðans yl
nú veit ég ekki bara,
hvað mig langar, hvað ég vil
né hvert ég er að fara.

Dýra lífsins drullumall!
Dró mig til þín leiðinn.
Fyrir rauðan rugludall
rauf ég skírlífseiðinn.

—-
Ekki finnst í orðasafni þínu,
tillitsemi, ábyrgð, tryggð
og trúlega ekki nokkur dyggð.
Mig langar víst til að rústa lífi mínu.

Hefnd

Upphaflega var það hugsað sem hefnd, það viðurkenni ég fyrir þér núna. Hefnd fyrir að hafa skeint þig á tilfinningum mínum, refsing fyrir að hafa afneitað mér gagnvart öðrum, rétt eins og það væri skammarlegt að hafa sofið hjá mér. Þú áttir að komast að raun um að þú hefðir einmitt haft rétt fyrir þér, ég væri í raun og veru vampíra. Þú áttir að gera þér ljóst að þú værir, á einhvern yfirnáttúrulegan hátt bundinn mér það sem þú ættir ólifað. Halda áfram að lesa

Kveðja til gæsabónda

Uppáhaldskennarinn minn í háskóla var athyglisverður fræðimaður og rómað kvennagull og var enginn meðvitaðri um það en hann sjálfur. Einhverju sinni hitti ég hann í fremur snobbuðu samkvæmi þar sem fagrar meyjar höfðu að venju safnast í kringum hann. Þegar ég óverðug náði loksins tali af goðinu tjáði hann mér í þreytulegum trúnaðartón að hann væri dauðþreyttur á þessum „gaggandi gæsahóp“ sem elti hann á röndum. Halda áfram að lesa

Lausn

1. Jakob

Víólan hefur vitund. Hún skynjar það sem býr í djúpinu og hún neyðir það til að brjótast fram. Djúpið býr yfir hundrað hættum. Þar býr skelfingin, þar býr ofsinn, þar býr líka ástin og fegurðin. Djúpið er ógnvænlegt. Ég skelfist það. Ég skelfist það vegna þess að ég ræð ekki við það. Ég næ ekki fram því sem best á við hverju sinni, ég get heldur ekki haldið því í skefjum þegar víólan ákveður annað. Ég óttast djúpið því ég ræð ekki við það; ég hata víóluna, því hún knýr það fram. Halda áfram að lesa