Eitt lítið rannsak

Ég hef velt því fyrir mér undanfarið hversvegna virðist ekki vera samræmi á milli lesturs og viðbragða á þessari vefbók.

Öll þessi ár sem ég hef haldið út bloggi hafa þær færslur sem fjalla um umhverfismál fengið frekar lítinn lestur. Ég hef því ekki verið neitt undrandi þótt fáir hafi kommentað á þær. Ég er heldur ekkert hissa á því að fólk kommenti ekki á mjög persónulega texta eða skáldskap, það er bara yfirleitt ekki neinu við slíkar færslur að bæta. Ég furða mig hinsvegar á því að þegar ég hef skrifað um mannréttindamál, sérstaklega þegar nafngreindir einstaklingar eiga í hlut (þá á ég við mál Miriam Rose, sem ég skrifaði mikið um á sínum tíma og nú síðustu vikuna Paul Ramses) þá fjölgar heimsóknum til muna en engu að síður eru fáir sem tjá sig á kommentakerfinu.

Um daginn velti ég þessari spurningu upp, án þess að þó að auglýsa beint eftir viðbrögðum (Hugz hefur líklega yfirsést sú lína í færslunni því hann hamrar á því að hann hafi svarað til að uppfylla ósk mína um það). Að sjálfsögðu er fólki velkomið að kommenta á færslur hjá mér og ég hef ósköp gaman af því, sérstaklega þegar fólk er mér ósammála, en það sem ég er að hugsa um er aðallega þessi ráðgáta, af hverju er ósamræmi milli áhuga og viðbragða? Hugz setti fram þá tilgátu að þeir sem væru mér sammála nenntu ekki að svara og hvað hina varðaði þá ræði maður ekki trúmál við trúaða. Þessi kenning hljómar reyndar mjög sannfærandi en ég held að málið sé flóknara. Moggabloggheimurinn bendir allavega til þess að fólk sé almennt ekkert latt við að taka undir skoðanir sem geðjast því og ef marka má margra ára umræðu á þessum vef, og þessum, þá eru þeir allmargir sem leiðist hreint ekki að ræða, og jafnvel þrasa um trúmál við trúaða.

Endur fyrir löngu gat fólk ekki kommentað (ég auglýsi hér með eftir þjálu, íslensku orði yfir að kommenta) á moggablogg nema vera skráð með moggabloggsíðu sjálft. Ég skráði mig inn, til að geta svarað færslum en hef aldrei notað þá síðu til að blogga sjálf. Ég tók þessa síðu í notkun í gærkvöld, til að birta færslur um pólitík enda vil ég síður angra Hugz og aðra góða gesti með vinstri grænni rétthugsun á borð við þá að mannréttindi skuli virt. Nú hlakka ég til að sjá hvort mynstrið breytist, þ.e. hvort lesendur moggabloggins muni sýna meiri viðbrögð við mikið lesnum færslum. Ef það gerist þá má ætla að lesendahópur sápuóperunnar skeri sig á einhvern hátt úr fjöldanum. Ef ekkert breytist þá er það eitthvað við minn ritstíl sem gerir það að verkum að fólk finnur ekki hjá sér hvort til að taka undir eða svara.

Best er að deila með því að afrita slóðina

1 thought on “Eitt lítið rannsak

 1. ——————————————
  Sæl Eva,
  ég hef lesið sápuóperuna þína dyggilega í heillangan tíma en hef aldrei skilið eftir athugasemd (sumir kalla þetta tjásu, þar sem fólk er að tjá sig), sennilega vegna minnar eigin feimni við að „gægjast“ inn í dagbókarfærslur ókunnugs fólks.

  Ég er oft sammála þér en þegar ég er það ekki vekur þú mig til umhugsunar og það þykir mér alltaf jákvætt.

  Með kveðju,
  Iðunn

  Posted by: Iðunn | 7.07.2008 | 10:57:16

  ——————————————

  Ég held að það sé lesendahópurinn, ekki ritstíllinn. Svo er bara að bíða og sjá :o)

  Posted by: Sigga | 7.07.2008 | 12:14:43

  ——————————————

  Tjása! Æðislegt orð. Kærar þakki fyrir þetta Iðunn. Hér með er orðið tjása, bæði sem nafnorð og sögn, tekið upp sem hluti af virkum orðaforða mínum.

  Posted by: Eva | 7.07.2008 | 17:13:39

  ——————————————

  þegar ég uppgötva skemmtileg blogg sem er gaman að lesa aftur í tímann þá nenni ég eiginlega aldrei að stoppa til að segja hvað sumt er ískyggilega vel gert og ígrundað 😉
  p.s ég fíla reyndar ekki að þurfa að skrifa mammon.

  Posted by: Anna Karen | 11.07.2008 | 11:12:04

Lokað er á athugasemdir.