Hákarl

Markmið, markmið, heimurinn æpir markmið. Það er töfrabragð nútímans. Ef þú veist ekki hvert þú ætlar, þá kemstu ekki þangað. Ef þú vilt ekkert, þá færðu ekkert. Ef þú hefur ekki framtíðarplan mun nokkuð hræðilegt henda þig -nefnilega ekkert!

Ég var tvítug þegar afi Bjarni sagði mér þennan mikla sannleika. Og ég hef svosem nýtt mér þessar vitaskuldir að einhverju marki. Maður hreinlega verður að gera það til að geta alið upp börn, haldið úti vefbók, lokið verkefnum og staðið í skilum. Markmið dagsins er að lesa eina próförk, pússa glerskápinn, fara á tónleika og gera þetta allt saman með ánægju, að vísu mismikilli ánægju en ekki óánægju þó. (Ég geri sjaldan neitt sem ég get ekki haft einhverja ánægju af nema afleiðingarnar af því að sleppa því feli í sér aukin útgjöld eða önnur óþægindi.) En ég játa; ég hef engin skýr og metnaðarfull langtímamarkmið. Ég sé ekki fyrir mér hvernig líf mitt verður eftir 5 ár, eða 10.

Það sem ég veit að ég vil og ætla á næstu 10 árum yrði seint talið metnaðarfullt. Ég mun verja einhverjum mánuðum í hjálparstarf, sennilega í Palestínu, ég verð æðisleg amma (bæði af því að mér finnst það skemmtilegt og mikilvægt hlutverk og af því að börn eiga rétt á einni slíkri) ég held áfram að gera nokkurnveginn það sem mér bara sýnist, umgangast áhugavert fólk og lifa skemmtilegu lífi. Ég veit líka ómerkilega hluti um það sem ég vil ekki. Ég veit að ég ætla aldrei að elska alkóhólista, ég verð aldrei fátæk, ég verð aldrei feit og festist aldrei í óhamingjusömu ástarsambandi.

Ég hef oft haft dálitlar áhyggjur af vanhæfni minni til að sjá framtíðina fyrir mér og geri mér alveg grein fyrir því að sú afstaða mín að grípa augnablikið og vilja stöðugt vera að fást við eitthvað nýtt og spennandi, hlýtur að flokkast sem ístöðuleysi og metnaðarskortur. Engin almennileg markmið eða framtíðarsýn. Það hlýtur að kalla á stöðnun. Sá sem veit ekki hvert hann ætlar kemst ekki þangað. Samt hnussar Birtan í mér yfir þessum áhyggjum mínum. Hvernig komast menn að þeirri niðurstöðu að ferðalög sé tilgangslaus án áfangastaðar í heimi sem er fullur af puttaferðalöngum? Hver segir að sá sem veit ekki hvert hann ætlar, endi á verri stað eða verði óánægðari þar en sá sem er búinn að lesa allar ferðahandbækurnar og bókar hótelherbergi með tveggja ára fyrirvara? Þegar allt kemur til alls hefur allt það besta sem hefur hent mig í lífinu gerst fyrir tilviljun, verið afleiðing skyndiákvörðunar, þróast í allt aðra átt en ég sá fyrir mér upphaflega eða á einhvern annan hátt komið á óvart.

Ég lifi góðu lífi. Ég er innilega þakklát fyrir það hvað ég hef margar ástæður til að vera þakklát. Mér finnst með ólíkindum hve margt fólk virðist bara álíta það sjálfsagt mál að fæðast ríkur, búa við frið, eiga góð börn og sleppa tiltölulega vel frá veikindum og slysum. Ég hef þetta allt og himininn líka og mér finnst ég heppin en til viðbótar hef ég ýmis forréttindi eins og t.d. að ráða öllu í vinnunni minni, hafa endalausan aðgang að stærsta bókasafni í heimi og eiga aðstandendur sem er hægt að treysta. Ég myndi ekki afþakka háan happdrættisvinning eða skyndilegan hæfileika til að hreyfa eyrun en það er ekkert í lífi mínu sem ég er óánægð með.

Líf mitt er gott og eftir 10 ár verður það líka gott. Það verður samt allt öðruvísi en í dag og ég hef ekki hugmynd um hvernig. Líf mitt mun breytast, ekki af því að ég hafi markmið, heldur af því að ég þrífst ekki í kyrrstöðu, hversu jákvæð sem sú kyrrstaða er. Þetta bendir auðvitað sterklega til þess að ég hafi verið hákarl í fyrra lífi því flestar tegundir hákarla hætta að anda ef þeir eru ekki á stöðugri hreyfingu.

Ég hef engin markmið, ég hef engan metnað. Ég er ekki á neinni sérstakri leið. En það breytir því ekki að ef þú reynir að stoppa mig, þá mun ég bíta af þér hausinn.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Hákarl

  1. ———————————————

    „If you don’t know where you are going, any road will take you there“ Lewis Carrol.

    Posted by: Guðjón Viðar | 29.03.2008 | 9:28:56

Lokað er á athugasemdir.