Ókunnug kona hefur skráð þig sem vin

Á þessum árum frá því að ég uppgötvaði vefbókina, hef ég eignast nokkra bloggkunningja. Slík sambönd verða til á svipaðan hátt og önnur kunningjasambönd. Ég sé áhugavert komment frá Siggu á blogginu hans Jóa, les bloggið hennar Siggu og svara færslu frá henni, set kannski tengil á hana á mitt blogg, hún fer að lesa mína vefbók og einn daginn er kominn tengill á mig á bloggið hennar. Tengsl hafa myndast. Stundum slitna þau strax, stundum styrkjast þau.

Nokkrir af bloggkunningjum mínum hafa síðan orðið kunningjar mínir í raunheimum líka. Sumir hafa gefið sig á tal við mig á útifundi eða ég kynnt mig fyrir þeim, ein bloggynjan hringdi í mig og bauð mér í kaffi, nokkrir hafa komið við í búðinni og kynnt sig, ég hafði sjálf samband við Önnu til að fá hjá henni galdrabrúður og við einhvernveginn smullum saman, suma hef ég hitt í bloggaraboðum. Þetta er allt einhvernveginn ósköp eðliegt.

Mér finnst almennt auðvelt að kynnast fólki. Ég hef ekki þörf fyrir að safna í kringum mig stórum vinahópum og vel því gaumgæfilega þá sem ég sækist eftir reglulegum samskiptum við, en það er ekki af því að mér finnist neitt erfitt að gefa mig að þeim sem mér líst vel á eða halda uppi samræðum. Ég hef stöku sinnum óskað formlega eftir kunningsskap og mér finnst bara fínt þegar ókunnugt fólk gefur sig á tal við mig á götu eða skrifar mér tölvupóst. Ef fólk vill kynnast þá þarf jú að gera eitthvað til þess.

Samt er ein tengslamyndunaraðferð sem ég kann hálf illa við. Það líður varla mánuður án þess að einhver sem ég þekki ekki neitt, sendi mér boð á facebook eða í einhvern netvinahring. Það er svosem voða huggulegt að fólk sem maður hittir af og til eða er með bloggtengil á, láti mann vita ef það hefur sett myndir af manni sjálfum eða vinum manns á netið en stundum er þetta fólk sem ég hef aldrei átt nein samskipti við, hvorki á netinu né í raunheimum. Mér finnst þessi aðferð til að stofna til kunningsskapar óþægileg. Samt, þegar ég hugsa út á það, þá er þetta í raun ekkert frábrugðið því að segja hæ, ég vil kynnast þér og rétta viðkomandi nafnspjaldið sitt. Mér finnst bara fínt ef fólk gerir það svo af hverju ætli mér finnist þá svona óþægilegt að fá netvinatilboð frá ókunnugu fólki?

Best er að deila með því að afrita slóðina