Fling

Kurteisishjal höfðar ekki sérstaklega til mín og eftir stutt spjall um daginn, veginn og verðlagið, spurði ég hreint út:
-Og einhver ást í spilinu?
-Ég er ennþá með sama flingið og síðast,
 svaraði hann.
-Áttu við þessa sem kom með þér hingað fyrir jólin? spurði ég og jú þaðvar víst sú sama.

Ég get ekki útskýrt nákvæmlega hlutföllin í tilfinningamixtúrunni innra með mér en það var sirka slatti af reiði, skvetta af fyrirlitningu og kannski tvær klípur af samúð líka. Ég sagði ekkert og fann að honum leið eins og fólki líður þegar ég segi ekkert.

Og þú ert ennþá með flugmanninum, sagði hann í hálfspurnartón þótt hann þyrfti varla að spyrja.
-Já, sagði ég, eintóna.
-Ástfangin? spurði hann varfærnislega.
-Jú, ætli að heiti það ekki, svaraði ég.
-Hljómar reyndar eins og þú sért í vafa, sagði hann öllu öruggari og gott ef var ekki samúðarvottur í brosinu.
-Það eru bara fávitar sem efast aldrei um tilfinningar sínar, sagði ég. Elska ég hann? Já, veistu ég geri það. Allavega nógu mikið til að kjósa návist hans. Eins og er allavega. En það er ekki skilyrðislaus ást, út yfir gröf og dauða. Ristir ekki dýpra en svo að ég myndi að öllum líkindum kólna upp innan frá og missa gjörsamlega áhugann á honum ef ég frétti að hann kynni mig sem ‘fling’. Annars þarf ég svosem ekki að hafa áhyggjur af því. Hann er bara ekki svoleiðis týpa.

Samræðurnar urðu lengri, miklu lengri og gæti svosem alveg rakið þær í löngu máli. En góð saga er ekki verri þótt hún sé hálfsögð og mér finnst flottara að enda hana hér.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Fling

  1. ——————————–

    Fyrrverandi maður í lífi mínu kallaði mig einmitt „fling“ þegar ég var yfir mig ástfangin af honum og hélt við yrðum alltaf saman. hann gerði margt annað hálfvolgt og hálfvitalegt og auðvitað losaði ég mig, seint og um síðir, úr „flinginu“. sem betur fokking fer. þetta er ekki gott merki.

    Posted by: baun | 28.03.2008 | 19:42:05

    —   —   —

    Frábært frábært frábært og alveg frábært … hef ekki skemmt mér jafnvel í langann tíma við lestur á bloggi.

    Posted by: Valur Geislaskáld | 28.03.2008 | 21:04:16

    —   —   —

    „it is better to have loved and lost, than to live with that psycho for the rest of your life“

    (var sagt mér)

    Posted by: baun | 28.03.2008 | 22:56:41

Lokað er á athugasemdir.