Eitt hugs um staðfestingar og fordóma

Fyrir tæpu ári trúði ég því að dömuskór í mínu númeri væru einfaldlega ófáanlegir nema kannski í Kolaportinu, notaðir með snúnum hæl úr einhverju dánarbúinu. Ég leitaði og leitaði, spurði og spurði, réðst á litlar gular konur á götu og yfirheyrði þær um skókaup sín (þær fá sína skó senda frá Thailandi) hringdi út um allar trissur og bað alla sem ég þekkti að hafa augun opin.

Svo rakst ég loksins af tilviljun á einu hælaháu skóna á Íslandi sem pössuðu á mig. Þeir voru ekki yfirmáta fallegir en ekki heldur ljótir. Ég keypti þá og öðlaðist nýja trú á skósmiðastéttinni. Viku síðar kom Elías frá fyrirheitna landinu með fallegustu skó í heimi, með pinnahæl og allt. Svo færði sjúkraliðinn mér tvenna skó sem dóttir hennar gat ekki notað. Systir mín datt niður á eina ósnúna í Kolaportinu, Sigrún fór til Boston og sneri til baka með ponkulítil hælastígvél í farteskinu og í morgun reyndist vera til eitt skópar í mínu númeri á Íslandi og vildi svo til að ég fór í einmitt þá búð.

Ég þurfti bara staðfestingu á því að fyrirbærið „háhælaskór sem passa á mig, eru til sölu, meiða mig ekki og eru ekki hallærislegir“ væri til í raunveruleikanum en ekki bara í hausnum á mér. Um leið og ég fékk þessa staðfestingu var engu líkara en að ég laðaði að mér brúklega skó. Ég held að það sama gildi um karlmenn. Ég þarf bara að hitta einhvern einn sem hentar mér nokkurnveginn. Bara eina einustu staðfestingu á því að fyrirbærið „almennilegur karlmaður sem er á lausu, sem vill mig og sem ég get orðið skotin í“ sé til og þá munu þeir flykkjast að.

Annars stendur mér svosem til boða að gerast hjákona. Ég hef alltaf litið á það sem ömurlegt hlutskipti en þegar allt kemur til alls þá er það bara skoðun, byggð á ákveðnum fordómum. Það er svo ágætt við skoðanir að það er hægt að skipta um þær ef þær reynast ekki hentugar. Öfugt við t.d. nef. Maður situr uppi með rangt nef nema maður fari í erfiða skurðaðgerð. Þá eru nú rangar skoðanir skárri. En já, ég er semsagt að hugsa dálítið um muninn á eiginkonu og hjákonu. Kannski er aðalmunurinn sá að hjákonan veit að hún er bara timabundin hjásvæfa, ekki sú eina og sættir sig við það. Eiginkonan lifir hinsvegar í grun um aðra konu en ekki fullvissu, heldur að hjónabandið sé eitthvað annað og merkilegra en tímabundið flipp og verður fyrir stórkostlegu áfalli þegar hún áttar sig á því að hlutirnir eru venjulega nákvæmlega eins og þeir líta út fyrir að vera.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Eitt hugs um staðfestingar og fordóma

  1. ————————————-

    Ég skil ekki háhælaða skó. Skil þá ekki.

    Posted by: Vésteinn Valgarðsson | 21.02.2007 | 3:01:30

    ————————————-

    Horfðu á kvenmannsrassa og þú munt skilja.

    Posted by: Eva | 21.02.2007 | 4:12:28

    ————————————-

    Eva,
    Þú verandi svona góð í íslensku og fróð með afbrigðum, veistu hvaðan orðið „lífstykki“ kemur. Er þetta danska eða hvaðan kemur þetta ?

    Posted by: GVV | 21.02.2007 | 11:00:37

    ————————————-

    líf=mitti

    Posted by: baun | 21.02.2007 | 12:01:21

    ————————————-

    Baun,
    Ég var meira að velta fyrir mér hvaðan orðið kemur. Það að líf sé annað orð fyrir mitti passar ekki alveg. Í orðabók HÍ kom fram orðmyndir á Dönsku,norsku,hollensku sem öll eru af svipuðum meiði, „lifstykke,liefsticke, os.frv.“

    Posted by: GVV | 21.02.2007 | 13:54:04

    ————————————-

    Líf sbr. móðurlíf.

    Á dönsku „liv“, s.s. malli.

    Lífstykki=stykki sem heldur utan um mallann á konum.

    Posted by: Anna | 21.02.2007 | 14:07:30

    ————————————-

    Anna,

    Nokkur dæmi úr Orðabók HÍ

    1. eg þá ekki hafði eptir á mínum kropp, nema skyrtu gamla og lífstykki gamalt.
    2. i þeim svifum hafe pilltsens norpeisa og lífsticke rifnad.
    3. Thorax [ […]] Lyfsticke, Treia.
    4. hafdi eg þad [::beltið] fyri Lijfsticke
    5. at brúka til styrktar sér lifstycki edr bindi eins og forfedr vorir
    6. Fulltrúarnir bera svart lífstycki med gull-dúskum og køgri.
    7. Eru líf-stycki og axlarbønd til nockurs
    8. Fiskabein (þau í fyrra hef eg orðið að brúka í lífstykki á skakka
    9. Eg berst á móti lífstykkjum, eins og menn berjast á móti drykkjuskapnum
    10. Enn fremur segja sumar: ,,ég get ekki haldið mér uppréttri, nema ég sé í ,,lífstykki„.
    11. Það eru einkum þröng ,,lífstykki„ (korset, snörliv), er valdið hafa mestu heilsutjóni.

    Þetta er ekki alveg að passa.

    Posted by: GVV | 21.02.2007 | 15:43:11

    ————————————-

    Þýska orðabókin mín (Cassell’s New German Dictionary) segir þetta um orðið „Leib“:

    Leib, m. (-(e)s, -er) body; abdomen belly; womb; waist, trunk

    Ég sleppi dæmunum. Samsetningarnar eru margar áhugaverðar, t.d.

    Leibstück, n. favourite piece, favourite tune or air (Mus.)

    Posted by: Elías | 21.02.2007 | 16:06:54

    ————————————-

    Þú getur fundið allt um þetta í Orðsifjabókinni.

    Posted by: Eva | 21.02.2007 | 16:08:01

    ————————————-

    Ég er mín eigin orðsifjabók.

    Posted by: Elías | 21.02.2007 | 17:08:28

    ————————————-

    Eva,
    Það sem ég er að velta fyrir mér er hvernig franska orðið „Corsage“ verður að „lífstykki“ í íslensku.

    Posted by: GVV | 21.02.2007 | 18:24:42

    ————————————-

    Það gerir það ekki, „corsage“ er allt annað orð, komið úr rómönskum málum, meðan að „lífstykki“ er germanskt og komið úr þýsku.

    Posted by: Elías | 21.02.2007 | 21:45:38

    ————————————-

    Ég bara verð að játa að ég skil ekki hvað það er sem þú skilur ekki. Líf merkir kviður, bæði skv. íslenskri orðabók og orðsifjabók og lífstykki er þá væntanlega flík sem nær yfir kviðinn eins og í dæmunum úr orðabókinni. Eins og þú nefnir sjáluf eru sambærileg orð í skyldum málum sem merkir þá væntanlega að þau eru leidd af sömu forngermönsku rótinni.

    Posted by: Eva | 21.02.2007 | 22:23:26

    ————————————-

    Reyndar finnst mér líklegast að „líf“ í merkingunni „kviður“ sé tökuorð í norrænu málunum úr þýsku.

    Posted by: Elías | 22.02.2007 | 2:46:53

    ————————————-

    Danir segja liv, og eiga þá við kviðinn á sér. En þeir nota orðið korsager yfir lífstykki. Amk suður Jótar…

    Posted by: Hullan | 22.02.2007 | 10:06:48

Lokað er á athugasemdir.