Ný vinkona

Anna.is bauð mér í mat. Kjúkling að hætti Langa Sleða. Við sátum að sumbli fram á nótt og tókst, með því að halda okkur stíft við efnið og hvetja hvor aðra til dáða, að ljúka hálfri raunvínsflösku.

Mér leið eins og væri að halda fram hjá Spúnkhildi, sem auk þess að vera að vinna, er búin að koma sér upp kílómetra löngum forgangslista af verkefnum sem hafa ekki sérstakt afþeyringargildi fyrir mig. Hún stefnir t.d. að því í framtíðinni að ná allt að 5 tíma svefni, endurnýja forn kynni við afkvæmi sín og fara í sturtu án þess að nota skeiðklukku. Ég sé sjálfa mig satt að segja ekki sem virkan þátttakanda í þessu plani hennar. Þar fyrir utan hefur hún aldrei sýnt minnstu tilhneiginu til þess að leggja á mig eignarhald, svo ég ályktaði að sennilega yrði mér ekki vísað frá dyrum himnaríkis út á þetta hliðarspor.

Við Anna.is eigum rosalega margt sameiginlegt. T.d. erum við hjartanlega sammála um það hvernig karlmenn eigi ekki að vera og að karlmenn sem eru ekki eins og karlmenn eiga ekki að vera, séu ekki aðgengilegir í stóru upplagi í verslunum Bónus eða öðrum þeim stöðum sem fagrar, greindar og göldróttar konur eiga leið um dagsdaglega.

Svo vorkenndum við sjálfum okkur og hvor annarri svolítið fyrir að þurfa að deyja einar og eiga engan sumarbústað.

Þetta var gott kvöld.

Best er að deila með því að afrita slóðina